Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 8/2011

Fimmtudaginn 28. apríl 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 8/2011:

A

gegn

velferðarráði Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi 

 

ÚRSKURÐUR :

Með bréfi, dags. 10. febrúar 2011, skaut A, til úrskurðarnefndar synjun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 1. febrúar 2011 um styrk að fjárhæð 220.000 kr.

 

I. Málavextir.

Kærandi sótti hinn 6. desember 2010 um styrk vegna sérstakra erfiðleika að fjárhæð 220.000 kr. Honum var synjað um styrkinn með bréfi þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis, dags. 13. desember 2010, á þeim forsendum að umsóknin samræmdist ekki reglum Félagsþjónustunnar um fjárhagsaðstoð, sbr. 25. gr. reglnanna. Kærandi skaut þeirri ákvörðun til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 1. febrúar 2011 og afgreiddi með eftirfarandi bókun:

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um styrk að upphæð 220.000.- þar sem eigi verður talið að aðstæður umsækjanda falli að skilyrðum þeim sem sett eru í 25. gr. reglna um fjárhagsaðstoð varðandi sérstaka erfiðleika.

Kærandi hefur átt við langvarandi félagslega erfiðleika að etja og hefur glímt við atvinnuleysi. Hann sótti um styrk þann 6. desember 2010 að fjárhæð 220.000 kr. vegna sérstakra erfiðleika, sbr. 25. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, til greiðslu fyrir tannlæknakostnað, en gera þarf við jaxl sem er farinn í sundur og skoða fyllingu í jaxli. 

 

II. Málsástæður kæranda.

Af hálfu kæranda kemur meðal annars fram að hann hafi verið atvinnulaus í tvö ár eða síðan í nóvember 2008 og hann telur sig vera langt undir framfærsluviðmiðum sem Hagstofan telji að einstaklingur þurfi til framfærslu. Hann kveður margvísleg vandamál koma upp á yfirborðið þegar fólk hafi verið atvinnulaust í langan tíma og sé þetta eitt þeirra. Kærandi kveðst ekki eiga neina peninga eftir í mánaðarlok og þurfi því að fá styrk til þess að eiga þess kost að leita eftir þjónustu tannlæknis. 

 

III. Málsástæður velferðarráðs.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar vísar til þess að meðferð umsóknar kæranda hafi farið samkvæmt reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum sem tóku gildi 1. janúar 2004.

Samkvæmt 25. gr. framangreindra reglna hafi verið heimilt að veita einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki lán eða styrk til greiðslu skulda vegna mikilla fjárhagslegra og félagslegra erfiðleika að fullnægðum frekari skilyrðum. Lán eða styrkur samkvæmt ákvæðinu komi einungis til álita að fullnægðum öllum eftirfarandi skilyrðum:

  1. umsækjandi hafi haft tekjur á eða undir grunnfjárhæð undanfarna sex mánuði eða lengur,
  2. staðfest sé að umsækjandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu banka, sparisjóða eða annarra lánastofnana,
  3. fyrir liggi yfirlit starfsmanns þjónustumiðstöðvar eða Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna um fjárhagsstöðu umsækjanda og tillögur að úrbótum þegar við á,
  4. fyrir liggi á hvern hátt lán eða styrkur mun breyta skuldastöðu umsækjanda til hins betra þegar til lengri tíma er litið,
  5. fyrir liggi samkomulag um félagslega ráðgjöf og/eða fjármálaráðgjöf.

Ekki sé heimilt að veita styrk eða lán til greiðslu skulda við banka, sparisjóði og aðrar lánastofnanir, svo sem greiðslukortafyrirtæki. Þá sé hvorki heimilt að veita styrk eða lán til greiðslu skattaskulda og sekta, né heldur til greiðslu skulda við einkaaðila.

Kæranda hafi verið synjað um styrk vegna sérstakra erfiðleika þar sem hann uppfylli ekki öll skilyrði 25. gr. reglnanna. Kærandi hafi tekjur yfir viðmiðunarmörkum, sbr. a-lið 25. gr. reglnanna. Ekki liggi fyrir staðfesting um að kærandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu banka, sparisjóða eða annarra lánastofnana eins og kveðið sé á um í b-lið 25. gr. reglnanna. Fyrir liggi yfirlit starfsmanns þjónustumiðstöðvar um fjárhagsstöðu kæranda, sbr. c-lið 25. gr. Þá verði ekki séð á hvern hátt styrkur eða lán mundi breyta skuldastöðu kæranda til lengri tíma litið, sbr. d-liður 25. gr., auk þess sem umsækjandi hafi ekki gert samkomulag um félagslega ráðgjöf og/eða fjármálaráðgjöf skv. e-lið 25. gr. reglnanna. Þá sé einnig kveðið á um það í 25. gr. að ekki sé heimilt að greiða skuldir við einkaaðila.

Velferðarráð hafi ákveðið með hliðsjón af framangreindu að staðfesta synjun þjónustumiðstöðvar um styrk að fjárhæð 220.000 kr.  

 

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort velferðarráði beri að veita kæranda styrk að fjárhæð 220.000 kr. til greiðslu tannlæknakostnaðar.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, kemur fram að skylt sé hverjum manni að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Í máli þessu gilda reglur sem Reykjavík hefur sett sér um fjárhagsaðstoð, sem tóku gildi þann 1. janúar 2004. Er í þeim reglum að finna almenn skilyrði fyrir veitingu styrkja, sem að áliti úrskurðarnefndarinnar eru almenn og fyrirsjáanleg.

Samkvæmt þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu verður ekki séð að kærandi uppfylli skilyrði fyrir greiðslu styrks. Þá hefur ekkert komið fram um að mat velferðarráðs Reykjavíkurborgar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa er hin kærða ákvörðun staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð

 Ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar í máli A frá 1. febrúar 2011 er staðfest.

  

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                                          Gunnar Eydal

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta