Hoppa yfir valmynd
7. desember 2017 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 11/2017

Hinn 23. nóvember 2017 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 11/2017:

 

Beiðni um endurupptöku

héraðsdómsmáls nr. S-226/2016

Ákæruvaldið

gegn

Friðriki Ottó Friðrikssyni

 

og kveðinn upp svohljóðandi 

ÚRSKURÐUR:

 

I.  Beiðni um endurupptöku

1. Með erindi, dagsettu 24. mars 2017, fór Friðrik Ottó Friðriksson þess á leit að héraðsdómsmál nr. S-226/2016, sem dæmt var í Héraðsdómi Suðurlands 12. desember 2016, yrði endurupptekið. Þá fór endurupptökubeiðandi fram á það að endurupptökunefnd ákveði að beiðnin um endurupptöku fresti réttaráhrifum dóms á meðan meðferð hennar stendur, sbr. 2. mgr. 213. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

2. Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Haukur Örn Birgisson og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

3. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands, sem kveðinn var upp 12. desember 2016, var endurupptökubeiðandi fundinn sekur um hylmingu með því annars vegar að hafa keypt átta málverk á tímabilinu 7. apríl 2012 til febrúarloka 2013 og í samverknaði með ónafngreindum manni haft þau í vörslum sínum og þannig haldið þeim frá réttmætum eiganda þrátt fyrir að vera ljóst eða mátt vera ljóst að málverkunum hafi verið stolið í innbroti sem framið var 8. apríl 2012. Eins að hafa keypt Porsche 911 Carrera bifreið á tímabilinu frá 18. janúar 2013 til febrúarloka 2013 og hafa í samverknaði ásamt áðurnefndum manni haft bifreiðina í vörslum sínum og þannig haldið henni frá réttmætum eiganda hennar þrátt fyrir að vera ljóst eða mátt vera ljóst að bifreiðinni hefði verið stolið í innbroti sem hefði verið framið á tímabilinu 18. til 20. janúar 2013. Endurupptökubeiðandi var dæmdur til að sæta fangelsi í sex mánuði. Þá þótti fullnægt skilyrðum 2. töluliðar 1. mgr. 5. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, til að refsa ákærða eftir íslenskum lögum, þótt brot hans hefðu verið framin erlendis. Í umfjöllun um ákvörðun refsingar var fjallað um sakarferil endurupptökubeiðanda og frá því greint að samkvæmt sakavottorði, ætti hann nokkurn sakaferil að baki. Var endurupptökubeiðanda dæmdur hegningarauki með vísan til 78. gr. almennra hegningarlaga vegna eldri dóms. Var honum einnig gert að greiða allan sakarkostnað.

4. Í héraðsdómi var tekið fram að endurupptökubeiðandi hafi ekki mætt við þingfestingu málsins þrátt fyrir lögmæta birtingu ákæru 26. nóvember 2016, ásamt fyrirkalli þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að ákærða fjarstöddum. Var málið því tekið til dóms samkvæmt 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

III. Grundvöllur beiðni

5. Í endurupptökubeiðni er rakið að endurupptökubeiðandi neiti sök í umræddu máli. Hann hafi ekki komið nálægt þeim glæpum sem hann hafi verið sakfelldur fyrir. Hann hafi tekið á sig sök við skýrslutöku lögreglu í Danmörku þar sem hann hafi verið þvingaður til þess af nafngreindum manni, meðlimi glæpasamtaka. Maðurinn hafi spurt endurupptökubeiðanda hvort hann gæti tekið á sig sök og hafi endurupptökubeiðandi ekki þorað öðru af ótta við manninn, sem hafi verið þekktur glæpamaður. Endurupptökubeiðandi hafi verið í mikilli áfengisneyslu á umræddum tíma og ekki á góðum stað í sínu lífi.

6. Maðurinn og aðrir meðlimir glæpasamtakanna hafi leitað endurupptökubeiðanda uppi til þess að fá hann til að taka á sig sök í málinu en endurupptökubeiðandi hafi verið á vergangi til að forðast þá. Í kjölfarið hafi endurupptökubeiðandi flúið til Íslands og snúið við blaðinu. Hann hafi hætt í óreglu og fundið trúna í kirkjunni. Það hafi síðan verið endurupptökubeiðanda mikið áfall að lesa frétt á vefmiðli í desember 2016, mörgum árum síðar, að hann hafi verið dæmdur í sex mánaða fangelsi, án þess að hafa haft vitneskju um að hann hafi verið ákærður þar sem hvorki ákæra né dómur hafi verið birt honum.

7.  Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína annars vegar á því að verulegar líkur séu leiddar að því að sönnunargögn sem færð hafi verið fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. c-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála og hins vegar á því að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið 1. mgr. 211. gr. sömu laga.

8. Á því er byggt í fyrsta lagi að ekki hafi tekist að birta ákæru fyrir endurupptökubeiðanda í Danmörku og málið því sent til ríkissaksóknara með beiðni um yfirtöku saksóknar með það að augnamiði að um játningarmál yrði að ræða. Fyrirkall ákæru á Íslandi hafi ekki verið birt fyrir ákærða heldur virðist hafa verið birt fyrir lögreglumanni sem engin tengsl hafi við ákærða, en það samræmist ekki reglum 156. gr. laga um meðferð sakamála um birtingu ákæru. Það hafi verið óforsvaranlegt í ljósi þess að lögregla hafi bæði haft símanúmer og heimilisfang endurupptökubeiðanda.

9. Í öðru lagi er á því byggt að öll dómskjöl hafi verið á dönsku og hafi ekki verið þýdd á íslensku sem sé þingmálið, sbr. 12. gr. laga um meðferð sakamála. Þýðing dómskjala hafi ekki legið fyrir og verði því að ætla að gögnin hafi verið rangt metin. Þá komi ekki fram í dóminum að lagt hafi verið mat á sönnunargögn málsins. Dönsk yfirvöld hafi sent málið til Íslands með það að augnamiði að ákærði myndi játa það sem honum hafi verið gefið að sök. Gert hafi verið ráð fyrir því að ef ákærði neitaði sök myndi málið verða sent til baka til danskra yfirvalda og því ekki dæmt af íslenskum dómstólum, en afstöðu ákærða til sakarefnisins hafi aldrei verið aflað.

10. Þá er í þriðja lagi á því byggt að ekki megi dæma menn til þyngri refsingar en hefði verið gert í Danmörku eftir þeim lögum sem þar gildi um verknaðinn, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga. Ekki sé að finna meðal gagna málsins þýðingu eða samanburð á danska lagaákvæðinu og því íslenska, né umfjöllun um hefðbundna refsingu í Danmörku fyrir brot sem endurupptökubeiðandi var sakfelldur fyrir. Þá komi skýrlega fram í danska ákæruskjalinu að farið sé fram á eignaupptöku skv. 78. gr. dönsku refsilaganna og að krafa um bætur gæti komið fram. Danska ákæruvaldið hafi því ekki farið fram á fangelsisrefsingu. Því hafi íslenska ákæruvaldinu borið að fara ekki fram á fangelsisrefsingu en það hafi þó verið gert og endurupptökubeiðandi dæmdur í sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi.

11. Í fjórða og síðasta lagi er á því byggt að dómurinn hafi ekki verið birtur endurupptökubeiðanda sjálfum heldur birtur í Lögbirtingarblaðinu. Ákæruvaldið hafi bæði verið með símanúmer og heimilisfang endurupptökubeiðanda og því óheimilt að birta dóm með þeim hætti sem gert hafi verið. Endurupptökubeiðandi hafi frétt af dóminum með því að lesa frétt um hann á vefmiðli.

12. Að lokum telur endurupptökubeiðandi að málsmeðferðin hafi ekki verið í samræmi við 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 70. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, einkum 1. og 3. mgr., en ljóst sé að ákærði hafi ekki haft vitneskju um að verið væri að reka sakamál gegn honum fyrr en dómur hefði fallið í héraði og hann lesið um hann í fjölmiðlum. Það sé engum vafa undirorpið að þegar svona sé ástatt um mál að endurupptökubeiðandi hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar. Hann hafi ekki fengið að vita án tafar, á tungumáli sem hann skilur, í smáatriðum um þá ákæru sem hann sætti eða fengið tíma og aðstöðu til að undirbúa vörn sína.

13. Í samræmi við framangreint telur endurupptökubeiðandi að skilyrði til endurupptöku málsins séu uppfyllt, sbr. c- og d-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

14. Endurupptökubeiðandi óskar þess að endurupptökubeiðni fresti réttaráhrifum dóms meðan á meðferð hennar stendur, sbr. 2. mgr. 213. gr. laga um meðferð sakamála.

IV. Viðhorf gagnaðila

15. Í umsögn ríkissaksóknara, dagsettri 16. maí 2017, er tekin afstaða til þeirra atriða sem endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á.

16. Í umsögninni er þess getið að ríkissaksóknari hafi óskað eftir skýringum frá lögreglustjóranum á Suðurlandi, sem hafi farið með saksókn máls nr. S-226/2016 fyrir Héraðsdómi Suðurlands, á þeim atriðum sem endurupptökubeiðnin sé byggð á. Einkum var óskað skýringa á atriðum er lutu að birtingu fyrirkalls og ákæru ásamt birtingu dóms í Lögbirtingablaði auk upplýsinga um tilefni þess að birt hafi verið með þeim hætti er gert var. Var erindinu svarað 8. maí með tölvubréfi frá lögreglustjóranum á Suðurlandi.

17. Varðandi þá málsástæðu endurupptökubeiðanda að ekki hafi tekist að birta ákæru fyrir honum í Danmörku og að birting fyrirkalls ákæru á Íslandi hafi verið fyrir lögreglumanni vísar ríkissaksóknari til svara lögreglustjórans á Suðurlandi. Í svari lögreglustjóra komi fram varðandi birtingu fyrirkalls og ákæru í málinu liggi fyrir vottorð um birtingu sem hafi farið fram á skráðu lögheimili endurupptökubeiðanda. Fram komi á fyrirkallinu að það hafi verið birt manni sem hafi verið þar staddur og að tengsl viðkomandi við endurupptökubeiðanda séu engin. Birting með þessum hætti sé í fullu samræmi við ákvæði lokamálsliðar 1. mgr. 156. gr. laga um meðferð sakamála. Þá hafi lögreglan, áður en til birtingar kom með fyrrgreindum hætti, reynt að hafa uppi á endurupptökubeiðanda með öllum tiltækum ráðum án árangurs. Fyrir liggi að Héraðsdómur Suðurlands hafi ekki gert athugasemdir við birtingu fyrirkalls og ákæru undir meðferð málsins fyrir dómi enda sé hún í fullu samræmi við fyrrgreint ákvæði laga um meðferð sakamála.

18. Ríkissaksóknari rekur að þingmálið sé íslenska skv. 1. mgr. 12. gr. laga um meðferð sakamála. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins skuli skjali á erlendu tungumáli að jafnaði fylgja þýðing á íslensku að því leyti sem byggt sé á efni þess í máli, nema dómari telji sér fært að þýða það. Í málinu lagði lögreglustjórinn á Suðurlandi fram gögn frá dönskum yfirvöldum. Að mati ríkissaksóknara séu engin efni til þess að draga það í efa að löglærður aðstoðarmaður dómara, sem kvað upp dóm í málinu, hafi talið sér fært að þýða gögnin. Á svipað álitaefni hafi reynt í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 726/2016 frá 26. október 2016. Af þeim dómi verði ekki annað ráðið en að það sé viðkomandi dómara að leggja mat á þetta atriði. Að mati ríkissaksóknara verði því ekki byggt á því að gögnin hafi verið rangt metin sökum þess að þýðingu dómskjala hafi vantað. Þá sé á það bent að í dóminum sé vísað til þess að málið hafi verið tekið til dóms samkvæmt 161. gr. laga um meðferð sakamála. Í a-lið 1. mgr. þess ákvæðis sé þess getið að það megi leggja dóm á málið ef ekki sé kunnugt um að ákærði hafi lögmæt forföll og svo standi á að brot þyki ekki varða þyngri viðurlögum en sex mánaða fangelsi, upptöku eigna og sviptingu réttinda og dómari telji framlögð gögn nægileg til sakfellingar. Að mati ríkissaksóknara verði ekki annað ráðið af dómi nr. S-226/2016 en að löglærður aðstoðarmaður dómara hafi lagt mat á gögnin og talið þau nægileg til sakfellingar. Hvað varði afstöðu ákærða til sakarefnisins þá sé á það bent að í birtu fyrirkalli komi fram að ákærði sé hvattur til að koma fyrir dóm, hlýða á ákæru, halda uppi vörnum og sæta dómi. Sæki ákærði ekki þing megi hann búast við því að fjarvist hans verði metin til jafns við það að hann viðurkenni að hafa framið það brot sem hann sé ákærður fyrir og dómur verði lagður á málið að honum fjarstöddum.

19. Hvað varðar þá málsástæðu endurupptökubeiðanda að ekki megi dæma endurupptökubeiðanda til þyngri refsingar en hefði verið gert í Danmörku þá telur ríkissaksóknari að hin tildæmda refsing sé síst of þung. Þá sé því mótmælt að dönsk yfirvöld hafi ekki farið fram á fangelsisrefsingu svo sem endurupptökubeiðandi byggi á. Í því samhengi sé vakin athygli á því að í íslenskri þýðingu á skjalinu „Anklageskrift“ segi að endurupptökubeiðandi sé „ákærður við réttinn í Næstved með kröfu um refsingu fyrir“. Skjal þetta sé ákæruskjal danskra yfirvalda og þar sé höfð uppi refsikrafa með skýrum hætti. Sömu kröfu sé að finna í ákæruskjali lögreglustjórans á Suðurlandi. Sé það því rangt sem fram komi í endurupptökubeiðni að ákæruvaldið hafi ekki farið fram á fangelsisrefsingu yfir endurupptökubeiðanda.

20. Hvað málsástæðu endurupptökubeiðanda varðar um að dómurinn hafi ekki verið birtur endurupptökubeiðanda sjálfum heldur birtur í Lögbirtingablaðinu vísar ríkissaksóknari til skýringa lögreglustjórans á Suðurlandi. Í svari lögreglustjórans komi fram að það séu ekki skráðar upplýsingar í þessu máli fremur en öðrum varðandi framgang tilrauna til birtingu fyrirkalls og dóma. Það sé hins vegar ljóst að ekki sé gripið til birtingar fyrirkalls með þeim hætti sem gert hafi verið í umræddu máli og dóms í Lögbirtingablaðinu fyrr en fullreynt þyki að hafa upp á viðkomandi eftir þeim upplýsingum sem liggi fyrir, meðal annars lögheimili, dvalarstað, símanúmeri og þess háttar. Maðurinn sem fyrirkall hafi verið birt fyrir, sé starfandi lögreglumaður og reikna megi með því að hann hafi verið við störf þegar birting hafi farið fram.

21. Að öllu virtu verði ekki séð að uppfyllt séu skilyrði c- og eða d-liða 1. mgr. 211. gr. laga nr. um meðferð sakamála og beri því að hafna beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku héraðsdómsmáls nr. S-226/2016.

V. Athugasemdir endurupptökubeiðanda

22. Í bréfi endurupptökubeiðanda, dagsett 26. maí 2017, við umsögn ríkissaksóknara, dagsett 16. maí 2017, koma fram athugasemdir hans við umsögnina.

23. Gerðar eru athugasemdir við getgátur ríkissaksóknara um að rétt hafi verið staðið að birtingu ákæru og dóms, sem ekki hafi verið skráðar af hálfu lögreglu. Þar að auki beri að nefna að samkvæmt 2. mgr. 156. gr. laga um meðferð sakamála beri þeim, sem ákæra sé birt fyrir, ef ekki sé birt fyrir ákærða sjálfum, að koma afriti ákæru í hendur ákærða að viðlagðri sekt. Ekkert liggi fyrir í málinu um að það hafi verið gert.

24. Þá gerir endurupptökubeiðandi athugasemdir við getgátur ríkissaksóknara um ætlaða dönskukunnáttu þess dómara er dæmdi málið í héraði. Ekkert liggi fyrir um þá kunnáttu.

25. Að lokum er á það bent af hálfu endurupptökubeiðanda að varhugavert sé að niðurstaða umrædds héraðsdómsmáls hefði orðið sú að hann hefði verið dæmdur í sex mánaða fangelsi ef hann hefði átt þess kost að verja sig og sé það í andstöðu við 70. gr. stjórnarskrárinnar. Slík framkoma myndi aldrei líðast gegn útrásarvíkingum og hvítflibbaglæpamönnum. Túlka eigi ákvæði laga til samræmis við stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu og þegar það sé gert hljóti niðurstaðan að verða sú að heimila endurupptöku málsins.

V. Niðurstaða

26. Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXII. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í 1. mgr. 211. gr. laganna er kveðið á um að hafi héraðsdómur gengið í sakamáli sem ekki hafi verið áfrýjað og áfrýjunarfrestur liðinn geti endurupptökunefnd orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafliðum a til d 1. mgr. 211. gr. er fullnægt.

27. Skilyrði stafliða a til d 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:

     a) fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau             hefðu komið fram áður en dómur gekk,

     b)  ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að          fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi            eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,

    c) verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin            svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,

    d) verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

28. Til að fallist verði á endurupptöku nægir þannig að eitt af framangreindum skilyrðum sé uppfyllt.

29. Endurupptökunefnd getur ákveðið að beiðni um endurupptöku fresti réttaráhrifum dóms meðan á meðferð hennar stendur, sbr. 2. mgr. 213. gr. laga um meðferð sakamála.

30. Verknaðir þeir sem endurupptökubeiðandi er dæmdur brotlegur fyrir voru framdir erlendis. Samkvæmt íslenskum lögum er heimilt að refsa fyrir slíka verknaði hér á landi ef íslenskur ríkisborgari hefur framið verknaðinn og ef brot er framið á stað, sem refsivald annars ríkis nær til að þjóðarétti, og var þá jafnframt refsivert eftir lögum þess, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 5. gr. almennra hegningarlaga. Þau mál öll, sem handhafar ákæruvalds höfða til refsingar lögum samkvæmt, skulu sæta meðferð eftir ákvæðum laga um meðferð sakamála nema öðruvísi sé fyrir mælt í lögum, sbr. 1. gr. laga um meðferð sakamála.

31. Í ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi er skýrt tekið fram við hvaða ákvæði almennra hegningarlaga brot varðar, sbr. áskilnað c-liðar 152. gr. laga um meðferð sakamála. Í ákæru er þess jafnframt getið við hvaða ákvæði dönsku hegningarlaganna brot hefði varðað í hinu erlenda ríki. Við ákvörðun refsingar bar dómara ekki að fara úr hámarki þeirrar refsingar sem við brotinu lá í Danmörku, sbr. 2. mgr. 8. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ekki verði séð að endurupptökubeiðandi hafi verið dæmdur til þyngri refsingar en lög leyfa. Samverkamaður hans var dæmdur í fangelsi í Danmörku fyrir sama brot í eitt ár og níu mánuði.

32. Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína meðal annars á því að birting ákæru hafi ekki verið í samræmi við 156. gr. laga um meðferð sakamála. Samkvæmt birtingarvottorði var fyrirkall og ákæra birt á skráðu lögheimili endurupptökubeiðanda fyrir manni sem eingöngu var auðkenndur með upphafsstöfum og kennitölu. Þess er getið á vottorði að tengsl hans við endurupptökubeiðanda séu engin. Í athugasemdum gagnaðila í máli þessu er maðurinn, sem birt var fyrir, nafngreindur en hann var staddur á lögheimili endurupptökubeiðanda þegar birting fór fram. Jafnframt kemur fram að maðurinn sé starfandi lögreglumaður og reikna megi með að hann hafi verið við störf þegar birting fyrirkalls fór fram. Þá er þess getið að áður en til birtingar með þessum hætti hafi komið hafi lögregla reynt að hafa upp á endurupptökubeiðanda með öllum tiltækum ráðum án árangurs.

33.Samkvæmt 1. mgr. 156. gr. laga um meðferð sakamála skal birta ákæru ásamt fyrirkalli fyrir ákærða sjálfum sé þess kostur. Þá er heimilt að birta fyrir heimilismanni eða öðrum sem dvelur eða hittist fyrir á skráðu lögheimili ákærða. Þeim sem birt er fyrir er skylt að segja á sér deili. Sé ákæra birt fyrir öðrum en ákærða sjálfum ber þeim, að viðlagðri sekt, að koma afriti ákæru í hendur ákærða, en sé þess ekki kostur þá í hendur þess sem telja má líklegastan til að koma afriti til skila í tæka tíð, sbr. 2. mgr. 156. gr.

34. Samkvæmt 4. mgr. 156. gr. laga um meðferð sakamála skal ákærði við birtingu ákæru spurður hvort hann óski eftir verjanda og þá hverjum ef því er að skipta. Skal afstöðu ákærða getið í vottorði um birtinguna. Ákærði getur þó frestað að taka ákvörðun um verjanda þar til mál er þingfest. Ekki var getið um framangreind atriði við birtingu fyrirkalls er hún fór fram fyrir lögreglumanni ótengdum endurupptökubeiðanda eftir árangurslausar tilraunir lögreglu til að hafa uppi á endurupptökubeiðanda.

35. Í 1. mgr. 31. gr. laga um meðferð sakamála er kveðið á um að dómara sé skylt að verða við ósk sakbornings um skipun verjanda ef mál hefur verið höfðað gegn honum, en samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laganna ber dómara að vekja athygli hans á þeim rétti. Þá skal ákærði samkvæmt 1. mgr. 163. gr. laganna við þingfestingu máls spurður hvort hann játi efni ákæru rétt og honum kynnt efni framlagðra skjala, ef hann er viðstaddur. Ella skuli það gert í þinghaldi þegar ákærði kemur fyrst fyrir dóm eftir þingfestingu.

36. Í 1. mgr. 161. gr. laga um meðferð sakamála er að finna heimild fyrir dómara til að leggja efnisdóm á mál, ef um útivist er að ræða af hálfu ákærða þótt honum hafi verið löglega birt ákæra og þess getið í fyrirkalli að mál kunni að vera dæmt að honum fjarstöddum, sbr. 1. mgr. 155. gr., og má þá leggja dóm á málið ef ekki er kunnugt um að ákærði hafi lögmæt forföll og svo stendur á:

a) að brot þykir ekki varða þyngri viðurlögum en sex mánaða fangelsi, upptöku eigna    og sviptingu réttinda og dómari telur framlögð gögn nægileg til sakfellingar eða

b) að ákærði hefur komið fyrir dóm við rannsókn máls, játað skýlaust þá háttsemi sem honum er gefin að sök og dómari telur ekki ástæðu til að draga í efa að játningin sé sannleikanum samkvæm, enda verði ekki dæmd þyngri refsing en eins árs fangelsi.

37. Með lögum nr. 78/2015, sem fólu meðal annars í sér einföldun réttarfars í lögum um meðferð sakamála, voru skilyrði 161. gr. rýmkuð þannig að eftir a-lið 1. málsgreinar er nú unnt að dæma ákærða í allt að sex mánaða fangelsi, án þess að hann hafi komið fyrir dóm. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna er áréttað að þessi breyting eigi ekki bitna á réttaröryggi sakborninga ef tekið er tillit til þess að frumskilyrði fyrir því að máli verði lokið með útivistardómi er að ákærða hafi áður verið birt ákæra og fyrirkall um að mæta fyrir dóm við þingfestingu máls, þar sem koma verður fram að málið kunni að verða dæmt að honum fjarstöddum.

38. Í máli þessu liggur fyrir að gripið var til þess ráðs að birta fyrirkall vegna ákæru fyrir lögreglumanni á lögheimili endurupptökubeiðanda og þess sérstaklega getið á birtingarvottorðinu að sá sem birt væri fyrir hefði engin tengsl við hann. Þetta var gert í tilefni þess að lögreglu hafði ekki tekist að hafa uppi á ákærða. Í ljósi síðastnefndrar staðreyndar sýnist einnig ljóst að lögreglumanninum sem tók við birtingunni hafi verið fyrirsjáanlega ómögulegt að rækja skyldu sína, að viðlagðri sekt, að koma afriti ákæru í hendur endurupptökubeiðanda. Þá liggur ekkert fyrir um tilraunir hans til að koma afriti ákæru í hendur þess sem telja mætti líklegastan til að koma afriti til skila í tæka tíð. Loks er ekki tekið fram í birtingarvottorðinu að sá sem annaðist um birtinguna hafi bent þeim sem birt var fyrir á þessa skyldu.

39. Í ljósi þessara atvika sýnist einboðið að birting fyrirkallsins hafi vart markað fullnægjandi grundvöll til þess að tækt væri að leysa úr málinu á grundvelli heimildar í 1. mgr. 161. gr. laga um meðferð sakamála enda fyrirséð að aðvörun um að mál kynni að verða dæmt að endurupptökubeiðanda fjarstöddum myndi missa marks eins og að birtingunni var staðið.

40. Með hliðsjón af ofanrituðu sýnist einboðið að gallar hafa verið á meðferð málsins í skilningi d-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

41. Við mat á því hvort þessir gallar hafi haft áhrif á niðurstöðu málsins kemur til skoðunar hvort dómurinn hafi haft fullnægjandi forsendur til að leggja mat á málið samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Meðal gagna málsins er framburðarskýrsla endurupptökubeiðanda hjá lögreglunni í Danmörku, dagsett 21. mars 2013, þar sem fram kemur að endurupptökubeiðandi játi sök. Í beiðni endurupptökubeiðanda kemur hins vegar fram að hann neiti nú sök í málinu þar sem hann hafi verið þvingaður til játningar af meðlimi glæpasamtaka.

42. Endurupptökubeiðandi byggir á því að svo hafi ekki verið þar sem gögn málsins sem stöfuðu frá dönskum yfirvöldum hafi flest verið á dönsku, sem hafi falið í sér verulegan galla á meðferð málsins þar sem íslenska sé þingmálið, sbr. 12. gr. laga um meðferð sakamála. Af þeim sökum verði að ætla að gögnin hafi verið rangt metin og að ekki komi fram í dóminum að lagt hafi verið mat á sönnunargögn málsins.

43.  Í þessu sambandi skal áréttað að samkvæmt 2. mgr. 12. gr. er hlutverk dómara að meta hvort fylgja skuli þýðing skjals á erlendu tungumáli eða hvort hann telur sér fært að þýða skjalið. Þrátt fyrir að hluti skjala málsins hafi verið á dönsku verður ekki hjá því komist að draga þá ályktun að dómari málsins hafi talið sér fært að þýða þau.

44.  Gögn málsins bera með sér að endurupptökubeiðandi gaf eina skýrslu fyrir lögreglu í Danmörku vegna þeirra sakarefna sem hann var ákærður fyrir. Endurupptökubeiðandi var yfirheyrður 21. mars 2013 en ekki leiddur fyrir dóm. Sama dag var réttað yfir meintum samverkamanni hans og sá játaði sinn hlut. Játaði samverkamaðurinn þar að hafa geymt bifreið og málverk fyrir endurupptökubeiðanda og var samverkamaðurinn dæmdur í kjölfarið í fangelsi í eitt ár og níu mánuði.

45. Fram kemur í framburðaskýrslu endurupptökubeiðanda (d. Afhøringsrapport, sigtet) að skýrslutakan hafi farið fram á ensku en skýrslan sjálf er rituð á dönsku og felur í sér samantekt lögreglunnar á því sem fram fór en skýrslan ber það með sér að skýrslutakan hafi staðið yfir í 35 mínútur. Ekki kemur fram að endurupptökubeiðanda hafi verið gefinn kostur á að hafa túlk sér til fulltingis en bókað er að hann hafi afþakkað verjanda. Bókað er svo formálalaust að endurupptökubeiðandi viðurkenni hylmingu (d. Sigtede erkender hæleri). Síðan er bókað að endurupptökubeiðandi hafi óskað eftir að lesa útskýringar sínar og að honum hafi verið leiðbeint um að honum væri óskylt að rita undir skýrsluna. Skýrslan er undirrituð af endurupptökubeiðanda. Af hálfu endurupptökubeiðanda er ekki byggt á því að tungumálaörðugleikar hafi ráðið því að hann játaði sök heldur hafi hann tekið á sig sök af hræðslu við annan mann.

46. Fyrir liggur játning endurupptökubeiðanda hjá lögreglu í Danmörku og framburður samverkamanns hans fyrir dómi í Danmörku um aðild endurupptökubeiðanda að hylmingu. Að mati endurupptökunefndar eru því ekki forsendur til að telja að mat Héraðsdóms Suðurlands á sönnunargögnum hafi verið rangt. Engu breytir í þessum efnum þó endurupptökubeiðandi staðhæfi nú í beiðni sinni að hann hafi verið fenginn til að taka á sig sök af glæpasamtökum. Endurupptökubeiðandi styður fullyrðingu sína engum gögnum.

47.  Fyrirliggjandi ágallar á birtingu fyrirkalls ákæru eru þannig ekki til þess fallnir að talið verði að þeir hefðu haft áhrif á niðurstöðu máls í skilningi d liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Birting dóms er í samræmi við 3. mgr. 185. gr., sbr. 3. mgr. 156. gr. sakamálalaga og er því ekki tilefni til endurupptöku málsins af þeirri ástæðu að dómur hafi verið birtur í Lögbirtingablaðinu.

48.  Uppkvaðning þessa úrskurðar hefur tafist vegna skipunar nefndarmanns í endurupptökunefnd.

 Úrskurðarorð

Beiðni Friðriks Ottós Friðrikssonar um endurupptöku máls nr. S-226/2016, sem dæmt var í Héraðsdómi Suðurlands 12. desember 2016, er hafnað.

  

Björn L. Bergsson formaður

 

 Haukur Örn Birgisson

  

Þórdís Ingadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta