Hoppa yfir valmynd
7. desember 2017 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 22/2017

Hinn 23. nóvember 2017 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 22/2017:

 

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 441/2016;

Ákæruvaldið

gegn

Antoni Yngva Sigmundssyni

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR:

 

I. Beiðni um endurupptöku

1. Með erindi, dagsettu 3. ágúst 2017, fór Anton Yngvi Sigmundsson þess á leit að hæstaréttarmál nr. 441/2016, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 15. desember 2016, yrði endurupptekið.

2.  Að beiðni endurupptökubeiðanda var Unnsteinn Örn Elvarsson hdl. skipaður talsmaður hans, sbr. 1. mgr. 213. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

3. Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Haukur Örn Birgisson og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

4. Með dómi Hæstaréttar var endurupptökubeiðandi dæmdur til fangelsisrefsingar fyrir brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brot gegn 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga.

5. Ákæra á hendur endurupptökubeiðanda í málinu var í tveimur liðum. Í fyrri lið ákæru var endurupptökubeiðanda gefið að sök blygðunarsemisbrot samkvæmt 209. gr. almennra hegningarlaga og brot gegn 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga með því að hafa í gegnum samfélagsmiðla undir fölsku flaggi sem 17 ára drengur viðhaft kynferðislegt tal við brotaþola, er hann var 15 ára, og fengið hann til þess að senda sér mynd af kynfærum sínum. Endurupptökubeiðandi var á þeim tíma 23 ára gamall. Þá var endurupptökubeiðanda í seinni lið ákæru gefin að sök tilraun til nauðgunar samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga, með því að hafa daginn eftir hótað því undir dulnefni að dreifa opinberlega samskiptunum og myndinni ef brotaþoli hefði ekki kynferðismök við sig fyrir klukkan 23 þá um kvöldið. Með hliðsjón af játningu endurupptökubeiðanda að hluta og framburði brotaþola og gögnum málsins að öðru leyti var endurupptökubeiðandi sakfelldur samkvæmt fyrri lið ákæru. Að því er varðaði seinni lið ákæru var talið sannað að endurupptökubeiðandi hefði sett fram umræddar hótanir við brotaþola, sem hefði tekið þær alvarlega, og að hann hefði viðhaft þær í þeim tilgangi að knýja brotaþola til kynmaka við sig. Hefði endurupptökubeiðandi hótað brotaþola ítrekað og sett honum mjög skamman frest til að láta undan þessum hótunum. Þær hefðu verið settar fram til fullnaðar áður en endurupptökubeiðandi hefði, nærri lokum framangreinds frests, látið af háttsemi sinni eftir að móður brotaþola hefði orðið kunnugt um atvik og gripið inn í rás atburða. Með þessari háttsemi hefði endurupptökubeiðandi ótvírætt sýnt í verki einbeittan ásetning til að fremja til fullnaðar brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Hefði hann á þennan hátt gerst sekur um tilraun til brots gegn síðastgreindu lagaákvæði, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot endurupptökueiðanda hefðu verið sérlega gróf og hann ætti sér engar málsbætur. Var refsing endurupptökubeiðanda ákveðin fangelsi í tvö ár auk þess sem honum var gert að greiða brotaþola miskabætur.

6. Í sératkvæði tveggja dómara Hæstaréttar var fallist á niðurstöðu meirihluta dómenda um annað en úrlausn á seinni lið ákæru í málinu. Töldu þeir að sýkna ætti endurupptökubeiðanda af þeim ákærulið þar sem skilyrði 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga væri ekki fullnægt, að hann hafi ótvírætt sýnt þann ásetning í verki er liti að annarri framkvæmd brotsins en hótuninni.

III. Grundvöllur beiðni

7. Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á því að með dómi Hæstaréttar í máli nr. 441/2016 hafi hann verið ranglega sakfelldur fyrir brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga, samkvæmt fyrri lið ákæru málsins. Sömuleiðis hafi hann verið ranglega sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga, samkvæmt síðari lið í ákæru málsins. Þá byggir endurupptökubeiðandi einnig á því að hann hafi verið sakfelldur fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, það er, að hann hafi með engum hætti gerst sekur um tilraun til nauðgunar enda hafi hann aldrei hitt brotaþola málsins.

8. Endurupptökubeiðni er aðallega byggð á b-, c- og d-lið 1. mgr. 211. gr., sbr. 215. gr. laga um meðferð sakamála.

9. Hvað varðar b-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála telur endurupptökubeiðandi ljóst að það liggi fyrir í málinu að flest ef ekki öll gögn málsins sem ákæruvaldið byggi kröfur sínar á sé einhliða aflað og þau lögð fram í málinu af brotaþola og móður hans. Telur endurupptökubeiðandi að sjálfstæð gagnaöflun lögreglu hafi engin verið. Þessu til stuðnings vísar endurupptökubeiðandi til orða brotaþola við skýrslutökur lögreglu þar sem fram hafi komið að brotaþoli hafi farið yfir samtal hans við endurupptökubeiðanda og passað að það væri allt þar inni sem hann vildi sýna lögreglunni. Brotaþoli hafi ásamt móður sinni tekið skjáskot af samskiptunum og raðað þeim upp í rétta tímaröð. Endurupptökubeiðandi telur það því liggja fyrir að hluta samskiptanna hafi verið haldið frá lögreglu. Þegar horft sé til skilaboðanna sjálfra megi sjá að umtalsvert magn skilaboða vanti í samskiptin og að ekki sé byggjandi á gögnum sem aflað sé með fyrrgreindum hætti. Telur endurupptökubeiðandi málið hafa frá upphafi verið unnið í andstöðu við 53. og 54. gr. laga um meðferð sakamála. Málinu hafi verið stillt upp af brotaþola og móður hans í þeim eina tilgangi að láta ákærða líta sem verst út en brotaþola á sama tíma sem best.

10. Að mati endurupptökubeiðanda var hann ranglega dæmdur fyrir brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga sem felur í sér blygðunarsemisbrot. Skilyrðum þeirrar lagagreinar hafi ekki verið fullnægt, að um lostugt athæfi eða opinbert hneyksli hafi verið að ræða. Ekki hafi verið um brot á blygðunarsemi brotaþola að ræða heldur tveggja manna tal þar sem skíni í gegn, þegar samskiptin eru lesin, að samtalið var klúrt og gróft á báða bóga. Ekki verði fullyrt að brotið hafi verið gegn blygðunarsemi annars tveggja sem hafi tekið fullan og virkan þátt í samskiptum. Óumdeilt sé að samskipti aðila hafi verið kynferðisleg og svæsin á báða bóga og að þau hafi farið fram með fullum vilja beggja aðila. Í þeim efnum vísar endurupptökubeiðandi til framburðar brotaþola fyrir héraðsdómi þar sem hann hafi borið um að hafa verið samþykkur kynferðislegum samskiptum þeirra. Fyrirliggjandi sé þannig samþykki brotaþola sem geri verknaðinn refsilausan enda brotið í eðli sínu ekki alvarlegt.

11. Í athugasemdum með 15. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 40/1992, sem fólu meðal annars í sér breytingar á 209. gr. almennra hegningarlaga, kemur fram að um þurfi að vera að ræða „gægjur á glugga, berháttun og önnur strípihneigð, klúrt orðbragð í síma“. Hugsanlegt sé að heimfæra klúrt orðbragð í síma á samskipti aðila í málinu en eingöngu ef um hafi verið að ræða klúrt orðbragð af hálfu endurupptökubeiðanda en ekki líka brotaþola.

12. Endurupptökubeiðandi telur ljóst að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála sé uppfyllt en það liggi fyrir að fölsuð og villandi skjöl hafi verið lögð fram af hálfu brotaþola, sem valdið hafi rangri niðurstöðu málsins og endurupptökubeiðandi jafnframt sakfelldur fyrir mun meira brot en það sem hann hafi raunverulega framið enda hafi ekkert blygðunarsemisbrot átt sér stað.

13.  Þá byggir endurupptökubeiðandi jafnframt á því að verulegar líkur séu leiddar að því að sönnunargögn sem færð hafi verið fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess sbr. c-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

14. Í þessu tilliti eigi við sömu málsástæður og endurupptökubeiðandi byggi á varðandi b-lið. Sönnunargögn, sem hafi alfarið verið lögð fram af brotaþola og móður hans, beri þess glöggt merki að þau hafi verið rangt metin svo áhrif hafi haft á niðurstöðu málsins. Hin gölluðu og fölsuðu sönnunargögn í málinu hafi því að mati endurupptökubeiðanda leitt til þess að málið hafi verið rangt metið og hann því ranglega dæmdur fyrir tilraun til nauðgunar og brot gegn blygðunarsemi brotaþola.

15.  Auk þess liggi fyrir í málinu að um leið og móðir brotaþola hafi haft samband við lögreglu hafi lögregla verið búin að dæma endurupptökubeiðanda, samanber ummæli varðstjóra er ritaði að endurupptökubeiðandi væri aðili sem rétt væri að hafa gát á. Hafi þessi ummæli ratað inn í málið og fylgt því allt frá upphafi. Þannig virðist sem svo að strax í upphafi málsins hafi sök endurupptökubeiðanda verið ákveðin í málinu. Þannig hafi verið gróflega brotið gegn hlutlægnisskyldu við rannsókn málsins, sbr. 53. gr. laga um meðferð sakamála.

16. Endurupptökubeiðandi telur að sambland af fyrrnefndri framlagningu brotaþola og móður hans á gögnum sem þeim hugnaðist að leggja fram og afstöðu lögreglu til endurupptökubeiðanda í upphafi málsins hafi orðið til þess að hann hafi verið ranglega sakfelldur. Ekki hafi verið aflað nægilegra gagna og þau gögn sem hafi legið fyrir hafi í öllu falli verið rangt metin. Hann hafi meðal annars verið dæmdur fyrir að hafa sent brotaþola klámfengnar myndir af sjálfum sér og fyrir að hafa tekið við klámfengnum myndum af brotaþola. Þessar myndir liggi ekki fyrir í málinu og hafi með engum hætti verið sannað að neitt slíkt hafi átt sér stað gegn andmælum endurupptökubeiðanda.

17. Þá skipti aldur brotaþola ekki máli en til þess verði að líta að brotaþoli hafi verið 15 ára gamall þegar samskiptin hafi átt sér stað. Ljóst sé af ákvæðum 1. og 4. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga bæði hvað varði ákæruliði 1 og 2 að það sé ekki refsivert að eiga kynmök við 15 ára einstakling sé hann þeim samþykkur. Ekkert í málinu bendi til annars en að svo hefði verið ef aðilar hefðu ákveðið að hittast og samræði því ekki undir formerkjum þvingunar. Um þetta megi meðal annars vísa til framburðar brotaþola en líkt og fyrr greinir hafi hann í framburði sínum fyrir héraðsdómi sagst hafa verið samþykkur samtalinu og hafi viljað halda því áfram. Í 4. mgr. 202. gr. hegningarlaga sé sérstaklega fjallað um tælingu á netinu og verði ekki séð að slíkt sé refsivert nema um sé að ræða einstakling undir 15 ára aldri og jafnframt að aðilar þurfi að hafa mælt sér mót en ekki hafi verið um það að ræða í málinu.

18. Endurupptökubeiðandi telur sækjendur málsins hafa sótt málið af fullum krafti án þess að leiða hugann að þeirri staðreynd að ekkert í málinu gefi til kynna annað að brotaþoli hafi verið fullkomlega samþykkur því sem fram hafi komið í samtölum aðila. Sérstaklega eigi það við um blygðunarsemisbrotið samkvæmt fyrri ákærulið. Endurupptökubeiðandi sé svo dæmdur samkvæmt báðum ákæruliðum þrátt fyrir að samþykki og þátttaka brotaþola í samskiptunum liggi fyrir. Því sé ekki einungis um að ræða að sönnunargögnum hafi verið áfátt og þau rangt metin heldur hafi heimfærslu til refsiákvæða verið áfátt og lögin ranglega túlkuð.

19. Enn fremur byggir endurupptökubeiðandi á því að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið 1. mgr. 211. gr. Telur endurupptökubeiðandi að sömu málsástæður hans um galla á gögnum, rannsókn lögreglu á málinu, öflun gagna sjálfstætt og upplýstrar ákvörðunar um sekt eða sakleysi endurupptökubeiðanda, sem hann byggir beiðni sína á varðandi b- og c-lið, eigi jafnframt við um d-lið. Sérstaklega er vísað til umfjöllunar um það viðmót sem endurupptökubeiðandi hafi mætt strax í upphafi máls áður en hann hafi sjálfur haft færi á að mæta í skýrslutöku til lögreglu. Endurupptökubeiðandi hafi upplifað sig varnarlausan strax í upphafi málsins vegna þess viðmóts sem hann hafi mætt hjá lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum.

20.  Í endurupptökubeiðni er fjallað ítarlega um niðurstöðu dóms Hæstaréttar um sakfellingu fyrir tilraun til nauðgunar skv. 194. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga, og lagatúlkun endurupptökubeiðanda þar um. Rakið er að Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að hann hafi gerst sekur um tilraun til nauðgunar á manni sem hann hafi eingöngu rætt við með aðstoð tölvu og internetsins en aldrei hitt. Dómur Hæstaréttar hafi verið skipaður fimm hæstaréttardómurum en þrír dómarar hafi komist að þeirri niðurstöðu að sakfella ætti endurupptökubeiðanda fyrir tilraun til nauðgunar. Tveir dómarar hafi skilað sératkvæði og lagt til grundvallar að skilyrði 20. gr. almennra hegningarlaga um tilraun hafi ekki verið fullnægt, að hann hafi ótvírætt sýnt þann ásetning í verki sem lúti að annarri framkvæmd brots en hótun. Var í þeim efnum tekið tillit til þess að samskipti endurupptökubeiðanda og brotaþola hafi farið fram um samskiptamiðla á netinu og þeir staddir hvor í sínu húsi og undirbúningsaðgerðir endurupptökubeiðanda hafi ekki falist í annarri háttsemi en lýst hafi verið í héraðsdómi.

21.  Að mati endurupptökubeiðanda er skýrt að mikið þurfi til að koma svo hægt sé að sakfella á grundvelli 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Það sé skilyrði að tekin hafi verið ákvörðun um að vinna verk og ótvírætt verði að sýna ásetning í verki sem miði að eða sé ætlað að miða að framkvæmd brotsins. Því sé fjarri lagi í máli endurupptökubeiðanda að þessum skilyrðum hafi verið fullnægt. Ekkert liggi fyrir um að endurupptökubeiðandi hafi tekið ákvörðun um að nauðga brotaþola, hvað þá að hafa sýnt þann ásetning í verki. Gríðarlega mikið þurfi að koma til frá samtali á netinu yfir í það að nauðgun geti átt sér stað og ekki sé hægt að fullyrða um að hugur og ásetningur endurupptökubeiðanda hafi staðið til þess að þvinga brotaþola til samræðis. Undirbúningur verknaðar þurfi á öllum stigum að vera þannig að hafið sé yfir vafa að sakborningur muni fullfremja brotið. Ekki sé nóg að líklegt sé að brot verði fullframið, það þurfi hreinlega að liggja fyrir að svo verði. Vísar endurupptökubeiðandi til ummæla og rita fræðimanna máli sínu til stuðnings í þessum efnum.

22.  Að lokum vísar endurupptökubeiðandi til þess að niðurstaða Hæstaréttar í máli hans sé ekki í samræmi við önnur sambærileg mál réttarins. Bendir endurupptökubeiðandi á tvo dóma Hæstaréttar, annars vegar í máli nr. 125/1996 og hins vegar í máli nr. 127/1956, þar sem ákærðu hafi verið komnir mun lengra með aðför sína að meintum brotaþolum en eigi við í máli endurupptökubeiðanda en þrátt fyrir það verið sýknaðir í báðum tilfellum. Niðurstaða Hæstaréttar í máli nr. 441/2016 sé því í andstöðu við eldri dóma. Þá liggi fyrir að niðurstaða Hæstaréttar í málinu sé mun harkalegri en eigi við bæði um sambærileg mál þar sem sakfellt sé fyrir blygðunarsemisbrot, hótunarbrot og jafnvel fyrir fullframda nauðgun. Vísar endurupptökubeiðandi til dóma Hæstaréttar máli sínu til stuðnings. Telur endurupptökubeiðandi einnig fjölda annarra dóma veita vísbendingu um að endurupptökubeiðandi hafi fengið mun harðari dóm en efni hafi staðið til, auk þess sem sakfelling hans fyrir tilraun til nauðgunar eigi sér enga stoð. Endurupptökubeiðandi hafi því verið dæmdur fyrir mun meiri sakir en efni voru til.

IV. Viðhorf gagnaðila

23. Í umsögn ríkissaksóknara, dagsettri 20. september 2017, er tekin afstaða til þeirra atriða sem endurupptökubeiðandi byggir endurupptökubeiðni sína á.

24.  Í umsögninni er rakið að óumdeilt sé með játningu að endurupptökubeiðandi hafi átt þau samskipti við brotaþola sem lýst sé í ákæru, þó þannig að endurupptökubeiðandi kannist ekki við að hafa fengið brotaþola til að senda sér myndir af kynfærum hans, reynt að fá hann til að senda sér fleiri myndir og að hafa sent brotaþola mynd af eigin kynfærum.

25. Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að sú háttsemi sem lýst sé í 1. lið ákærunnar varði við ákvæði 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga og að háttsemi sem lýst sé í 2. lið ákærunnar varði við 1. mgr. 194. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Telur ríkissaksóknari að um það mat á heimfærslu til refsiákvæða verði vart fjallað af hálfu endurupptökunefndar.

26. Að mati ríkissaksóknara leiði fyrrgreind atriði til þess að ekki séu nein efni til þess að endurupptaka dóm Hæstaréttar í máli nr. 441/2016.

27. Hvað varði kröfu um endurupptöku á grundvelli b-liðar 1. mgr. 211. gr. bendi ríkissaksóknari á að þau samskipti sem endurupptökubeiðandi átti við brotaþola í málinu hafi langflest verið í gegnum samskiptaforritið Snapchat. Samskipti á Snapchat séu þess eðlis að þau eyðist sjálfkrafa eftir ákveðinn tíma nema einstök skilaboð séu vistuð eða tekin af þeim skjáskot. Móðir brotaþola hafi borið um að hafa skoðað þau skilaboð sem um hafi verið rætt í síma sonar síns og tekið af þeim skjáskot. Brotaþoli og móðir hans hafi þá raðað skilaboðunum upp í tímaröð og afhent lögreglu. Lögreglan hafi skoðað síma brotaþola vegna rannsóknar málsins en ekki fundið skilaboð þar. Bendi ríkissaksóknari á að sönnunarmat dómara sé frjálst og hafi þessi gögn verið meðal rannsóknargagna og jafnframt hafi komið fram í lögregluskýrslu hvernig þessi gögn hafi borist lögreglu.

28.  Það sé mat ríkissaksóknara að ekkert bendi til þess að fölsuð skjöl hafi verið lögð fram í málinu. Þaðan af síður bendi eitthvað til þess að lögregla, ákærandi, dómari eða vitni hafi haft í frammi refsiverða háttsemi til að fá fram umrædda niðurstöðu. Fjölskipaður héraðsdómur og meirihluti Hæstaréttar hafi komist að þeirri niðurstöðu að sú háttsemi að fá 15 ára gamlan dreng til að taka þátt í kynferðislegu tali og myndsendingum, undir fölsku flaggi, fæli í sér brot gegn drengnum. Ekki hafi verið talið að það skipti öllu máli þótt drengurinn hefði tekið þátt í spjallinu og látið kynferðisleg orð falla sjálfur. Hér sé um að ræða mat dómsins á því hvaða háttsemi falli undir þau refsiákvæði sem á reyndi, það er 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. Túlkun dómstóla á lagaákvæðunum geti ekki talist refsiverð háttsemi af þeirra hálfu þótt hún sé önnur en endurupptökubeiðanda.

29. Af því er varði tilvísun endurupptökubeiðanda til c-liðar 1. mgr. 211. gr. vísar ríkissaksóknari til umfjöllunar um b-lið í umsögn sinni. Auk þess er ítrekað af hálfu ríkissaksóknara að endurupptökubeiðandi hafi kannast við fyrir dómi að hafa átt í umræddum samskiptum við brotaþola. Endurupptökubeiðandi kannist hins vegar ekki við að hafa sent drengnum myndir af kynfærum sínum né tekið við slíkum myndum en ákæruvaldið hafi byggt á því að af ummælum í samskiptum hafi verið ljóst að slíkar myndir hafi verið sendar á báða bóga og á það hafi dómstólar fallist. Þá kannist endurupptökubeiðandi jafnframt við að hafa, undir tilbúnu nafni, sett fram þær hótanir sem lýst sé í seinni ákærulið, en segist eingöngu hafa verið að kenna drengnum lexíu og engin alvara hafi legið að baki hótununum.

30.  Þá sé í löngu máli fjallað um það í endurupptökubeiðni hvort sú háttsemi sem lýst sé í seinni ákærulið sé tilraun til nauðgunar eða ekki. Um þá lagatúlkun hafi einmitt verið tekist á í málinu og hafi þrír héraðsdómarar og þrír dómarar Hæstaréttar fallist á það með ákæruvaldinu að háttsemi endurupptökubeiðanda væri tilraun til nauðgunar, enda séu undirbúningsathafnir refsiverðar samkvæmt íslenskum rétti. Endurupptökubeiðandi geti ekki óskað eftir endurupptöku einungis vegna þess að hann sé ósáttur við þessa lagatúlkun meirihluta Hæstaréttar.

31. Af hálfu ríkissaksóknara er á því byggt að ekki verði með nokkru móti tekið undir með endurupptökubeiðanda að athugasemdir verði gerðar við meðferð málsins þannig að fullnægt sé skilyrði d-liðar 1. mgr. 211. gr. Þess sé getið af varðstjóra í frumskýrslu lögreglu að endurupptökubeiðandi sé aðili sem rétt sé að hafa auga með en það sé byggt á upplýsingum í málaskrá lögreglu. Ekkert sé þó fram komið sem bendi til þess að þetta atriði hafi haft áhrif á rannsókn lögreglu eða mat ákæruvaldsins í máli endurupptökubeiðanda.

32.  Að öllu virtu sé það mat ríkissaksóknara að skilyrði b-, c- og d-liða 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála fyrir endurupptöku séu ekki uppfyllt og beri því að hafna beiðni endurupptökubeiðanda.

V. Athugasemdir endurupptökubeiðanda

33.  Endurupptökunefnd bárust athugasemdir endurupptökubeiðanda við viðhorfum ríkissaksóknara.

34. Endurupptökubeiðandi telur athugasemdir ríkissaksóknara of seint fram komnar og beri endurupptökunefnd því að virða þær að vettugi og ekki taka tillit til þeirra við úrlausn málsins. Þar sem athugasemdirnar séu þó komnar til nefndarinnar sé mikilvægt að ítreka nokkur atriði.

35. Að mati endurupptökubeiðanda sé niðurstaða dómstóla röng og byggð á vanþekkingu á tækni, misskilningi og röngum forsendum. Endurupptökubeiðanda sé því nauðsynlegt að fá mál sitt endurupptekið og endurskoðað, sér í lagi af þeim sökum að komist er að því að hann hafi gert tilraun til þess að þröngva vilja sínum (nauðga) brotaþola í málinu. Slíkt sé fjarri sannleikanum og sjáist það best af gögnum málsins, skoðunum fræðimanna, greinargerð með lögum um meðferð sakamála og þeim ómöguleika sem hafi verið til staðar. Telur endurupptökubeiðandi að til þess að gerast sekur um tilraun til kynferðisbrots sé lágmark að aðilar hittist og búið sé að grípa til aðgerða sem að minnsta kosti mætti réttlæta sem tilraun, til dæmis þvingun með ofbeldi á staðnum.

36.  Í umsögn ríkissaksóknara sé tekið fram að það bendi ekkert til þess að fölsuð skjöl hafi verið lögð fram í málinu er varði endurupptöku á grundvelli b-liðar 1. mgr. 211. gr. Það sé rétt sem segi í greinargerð ríkissaksóknara að skilaboð eyðist sjálfkrafa af Snapchat en hins vegar hafi komið fram að mati endurupptökubeiðanda að séu skilaboðin lesin verði hverjum sem það geri ljóst að mikið magn samskipta vanti þar inn í. Orðræðan gangi ekki upp og verði samhengislaus á mörgum stöðum. Þetta eitt geri það að verkum að ekki sé um fullnægjandi gögn að ræða til þess að dæma endurupptökubeiðanda fyrir tilraun til nauðgunar. Sér í lagi þar sem um sé að ræða atvik þar sem nauðsynlegt sé fyrir dómendur málsins að setja sig inn í aðstæður og hugarheim endurupptökubeiðanda. Telur endurupptökubeiðandi að gögnin séu því augljóslega fölsuð og nægi þar að benda á ummæli brotaþola og móður hans, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, svo sem fyrr greinir.

37.  Dómarar málsins hafi engin önnur tæki haft í málinu heldur en að reyna að setja sig inn í það hvað vakti fyrir endurupptökubeiðanda og hvort hugur hans stæði til þess að fullfremja brotið. Endurupptökubeiðandi telji að ekki sé hægt að dæma menn fyrir tilraun á þeim forsendum. Sönnunarbyrðin sé hjá ákæruvaldinu og fari fjarri að sönnun hafi tekist. Ekki hafi verið látið á það reyna að láta endurupptökubeiðanda ræða við geðlækni, sálfræðing eða annars konar sérfræðinga.

38. Hvað varði aðrar athugasemdir ríkissaksóknara vísar endurupptökubeiðandi til endurupptökubeiðni. Athugavert sé að mati endurupptökubeiðanda að ríkissaksóknari telji ekki vera uppfyllt skilyrði til endurupptöku þegar horft er til þess að séu gögn málsins skoðuð sé fyllilega ljóst að endurupptökubeiðandi hafi verið dæmdur fyrir mun meira brot en það sem hann í raun framdi. Endurupptökubeiðandi bendir á að ríkissaksóknari hafi sjálfur ítrekað óskað eftir endurupptöku á sama grundvelli, sbr. til dæmis mál nr. 2/2017 og mál nr. 3/2017 hjá endurupptökunefnd.

39.  Ótækt sé að mati endurupptökubeiðanda að hann hafi verið dæmdur fyrir tilraun til nauðgunar þegar svo hátti til eins og atvik séu í umræddu máli og sé honum nauðsynlegt að fá betur úr máli sínu skorið og með sanngjarnari hætti. Lengd dómsins sé fjarri því að vera sanngjörn, sama hvernig á málið sé litið, og vísar endurupptökubeiðandi til dómafordæma þeirra sem koma fram í endurupptökubeiðni, sérstaklega dóms Hæstaréttar í máli nr. 733/2016 þar sem samræði hafi átt sér stað ítrekað og með miklum þvingunum.

VI. Niðurstaða

40. Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXIII. kafla laga um meðferð sakamála. Í 215. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 1. mgr. 211. gr. laganna. Í þeirri grein er kveðið á um að endurupptökunefnd geti orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafliðum a til d 1. mgr. 211. gr. er fullnægt.

41.  Skilyrði stafliða a til d 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:

    a. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau            hefðu komið fram áður en dómur gekk,

    b. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að           fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi             eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,

   c. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin             svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,

   d.  verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

42.  Til að fallist verði á endurupptöku nægir þannig að eitt af framangreindum skilyrðum sé uppfyllt.

43. Því til stuðnings að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 211. gr. sé fullnægt byggir endurupptökubeiðandi á því að brotaþoli og móðir hans hafi falsað samskipti endurupptökubeiðanda og brotaþola í þeim tilgangi að koma sök á endurupptökubeiðanda. Ljóst liggur fyrir í málinu og hefur verið frá öndverðu, að þau samskipti sem lögreglu voru afhent væru ekki tæmandi fyrir þau samskipti sem endurupptökubeiðandi átti við brotaþola. Gafst endurupptökubeiðanda því fullt tilefni til að koma athugasemdum á framfæri, bæði fyrir lögreglu og fyrir dómi, ef úr samskiptum þeirra hefðu verið felldir hlutir sem leitt hefðu getað til annarrar niðurstöðu. Ekki hefur verið bent á slíkt af hálfu endurupptökubeiðanda. Þá hafa af hans hálfu engin slík samskipti verið rakin í endurupptökumáli þessu sem leitt geta líkum að því að skilyrði b-liðar 1. mgr. 211. gr. sé fullnægt.

44.  Fyrir liggur að unnt er að endurupptaka mál á grundvelli c-liðar 1. mgr. 211. gr. þótt engin ný gögn eða upplýsingar liggi fyrir eins og raunin er í máli þessu. Að þessu leyti er endurupptökuheimildin í c-lið sjálfstæð. Fyrir endurupptökuheimildinni í c-lið eru þau skilyrði sett að verulegar líkur séu leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. Endurupptökubeiðandi kannaðist við það fyrir dómi að hafa komið fram undir öðru auðkenni en sínu eigin í rafrænum samskiptum við brotaþola og jafnframt að hafa verið ljóst á hvaða aldri brotaþoli var enda persónulega kunnugur honum. Þá kannaðist endurupptökubeiðandi einnig við það að hafa haft í hótunum við brotaþola í þessum samskiptum þó hann hafi borið um annan tilgang með samskiptunum en tilraun til nauðgunar. Dómstólar tóku afstöðu til þessarar málsvarnar endurupptökubeiðanda og komust að rökstuddri niðurstöðu, byggðri á heildarmati á fyrirliggjandi gögnum, að ekki væru forsendur til að fallast á málsvörnina. Þvert á móti var komist að niðurstöðu um að verknaðir endurupptökubeiðanda féllu að verknaðarlýsingu ákæru og hann því sakfelldur í samræmi við þá niðurstöðu. Verður af þessu ráðið og fyrirliggjandi gögnum málsins að ekki séu verulegar líkur leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. skilyrði c-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

45. Endurupptökubeiðandi styður beiðni sína jafnframt þeim rökum að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið 1. mgr. 211. gr. Þessa galla telur endurupptökubeiðandi felast í áðurnefndum ágöllum á endurriti samskipta hans við brotaþola og að lögregla hafi tekið við þessum gögnum gagnrýnislaust auk þess sem hann hafi sætt hlutdrægu viðmóti af hálfu lögreglu frá öndverðu. Það verður ekki séð að ágallar hafi verið á meðferð málsins að þessu leyti né heldur að endurupptökubeiðanda hafi verið gert erfiðara um vik að halda uppi fullnægjandi vörnum Í þessum efnum verður að halda til haga að endurupptökubeiðandi var allt frá fyrstu skýrslutöku með verjanda sér við hlið. Verður ekki heldur ráðið af framburði endurupptökubeiðanda eða spurningum sem að honum var beint, hvort heldur er hjá lögreglu eða fyrir dómi, að slíkir ágallar hafi verið á málsmeðferðinni að fullnægt sé áskilnaði d-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.

46. Fyrir liggur í máli þessu að endurupptökubeiðandi er ósammála sakarmati dómstóla, túlkun þeirra á málsatvikum og beitingu laga, sérstaklega heimfærslu brots hans undir 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 20. gr. sömu laga. Endurupptökubeiðandi byggði á þessum sjónarmiðum fyrir Hæstarétti og var tekin rökstudd afstaða til þeirra af dóminum. Það er ekki á færi endurupptökunefndar að komast að annarri niðurstöðu byggt á þeim sjónarmiðum sem endurupptökubeiðandi setur fram. Til þess þarf skilyrðum 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála að vera fullnægt en svo er ekki í máli þessu. Beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 441/2016 er hafnað.

47. Lögmaður endurupptökubeiðanda, Unnsteinn Örn Elvarsson hdl., var skipaður til að gæta réttar hans, sbr. 1. mgr. 213. gr. laga um meðferð sakamála. Kostnaður endurupptökubeiðanda samtals 250.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti verður felldur á ríkissjóð með vísan til 4. mgr. 214. gr. sömu laga.

Úrskurðarorð

Beiðni Antons Yngva Sigmundssonar um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 441/2016, sem kveðinn var upp í Hæstarétti Íslands 15. desember 2016, er hafnað.

Kostnaður endurupptökubeiðanda 250.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.

  

Björn L. Bergsson formaður

  

Haukur Örn Birgisson

  

Þórdís Ingadóttir 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta