Hoppa yfir valmynd
5. desember 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 42/2012

Miðvikudaginn 5. desember 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 42/2012:

 

 

Kæra A og B

á athöfnum

Íbúðalánasjóðs

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, og B, hér eftir nefnd kærendur, hafa með kæru, dags. 29. febrúar 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála innheimtu Íbúðalánasjóðs á svokallaðri uppgreiðsluþóknun vegna tveggja aukaafborgana þeirra af ÍLS-veðbréfi.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærendur eru skuldarar á skuldabréfi, sem útgefið var þann 3. nóvember 2008, að fjárhæð 20.000.000 kr. með veði í fasteigninni C. Í 5. gr. skilmála bréfsins kemur eftirfarandi fram: „Skuldari afsalar sér með undirritun ÍLS-bréfsins heimild til að greiða auka afborganir af skuldabréfum sínum eða endurgreiða skuldina fyrir gjalddaga nema gegn sérstakri þóknun.“ Þann 3. febrúar 2012 greiddu kærendur 50.000 kr. inn á höfuðstól skuldarinnar og þar af var uppgreiðsluþóknun 4.506 kr. Þann 2. mars 2012 greiddu þau 55.000 kr. og þar af var uppgreiðsluþóknun 4.952 kr. Kærendur krefjast þess aðallega að viðurkennt verði að þeim hafi verið heimilt að greiða aukaafborgun inn á íbúðalán sitt án sérstaks uppgreiðslugjalds. Til vara að viðurkennt verði að slíkt uppgreiðslugjald verði hóflega ákvarðað sem hlutfall af greiddri fjárhæð og aldrei hærra en 1%.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfum, dags. 1. og 12. mars 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs er barst með bréfi, dags. 28. mars 2012. Viðbótarathugasemdir bárust frá kærendum með bréfi, dags. 18. mars 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 2. apríl 2012, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kærendum til kynningar. Frekari athugasemdir kærenda bárust úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 4. apríl 2012.

 

III. Sjónarmið kærenda

Í kæru kemur fram að hliðstæð kæra hafi verið send úrskurðarnefndinni 4. október 2011. Kærendur vísa til þess að þann 3. febrúar 2012 hafi þau greitt 50.000 kr. inn á höfuðstól láns síns hjá Íbúðalánasjóði og fengið kvittun fyrir greiðslu á 45.494. kr. en fyrir mismuninum, 4.506 kr., hafi ekki verið gefin kvittun. Kærendur telja ljóst af tölvupósti frá viðskiptabanka að mismunurinn sé uppgreiðslugjald sem nú hafi hækkað í 9,01%. Þessi aðgerð Íbúðalánasjóðs sé nú kærð og þess krafist aðallega að viðurkennt verði að kærendum hafi verið heimilt að greiða aukaafborgun inn á ÍLS-lán sitt án uppgreiðslugjalds og til vara að viðurkennt verði að uppgreiðslugjald verði hóflega ákvarðað sem hlutfall af greiddri fjárhæð og aldrei hærra en 1%. Kærendur vísa til þess að byggt sé á sömu sjónarmiðum og fram komi í fyrri kæru frá 4. október 2011 og greinargerð frá 4. nóvember 2011. Ekki verður talin ástæða til að víkja sérstaklega að þeim sjónarmiðum er þar koma fram.

 

Í bréfi kærenda, dags. 4. apríl 2012, gera þau athugasemd við bréf Íbúðalánasjóðs frá 28. mars 2012. Benda kærendur á að í bréfi sjóðsins sé ekki reynt að sýna fram á með rökum að Íbúðalánasjóði sé heimilt að innheimta uppgreiðslugjald af kærendum á grundvelli ófyrirsjáanlegrar reiknireglu byggðri á núvirtum vaxtamun.

 

IV. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Í bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 28. mars 2012, er vísað til sjónarmiða sjóðsins sem tilgreind séu í úrskurði úrskurðarnefndar frá 24. febrúar 2012 í máli nr. 141/2011. Starfsemi sjóðsins sé lögbundin og þar með ákvörðun þóknunar eða „uppgreiðslugjalds“ lána með lægri vaxtaprósentu.

 

Í tilvitnuðum úrskurði eru reifuð sjónarmið Íbúðalánasjóðs er fram koma í bréfi, dags. 19. október 2011. Af hálfu sjóðsins kemur þar fram að umkrafin uppgreiðsluþóknun jafngildi mismuninum á þeim vöxtum sem sjóðurinn hefði fengið út lánstímann samkvæmt vaxtaprósentu lánsins annars vegar og þeim vöxtum sem sjóðurinn fái miðað við nýja útlánsvexti á hverjum tíma. Þannig sé mismunurinn reiknaður miðað við verðgildi á þeim degi sem lánið er veitt, þ.e. reiknað sé núvirði mismunarins. Af því leiði að þegar vextir nýrra lána eru jafnháir vöxtum lánsins sem verið sé að greiða upp eða hærri komi ekki til greiðslu uppgreiðsluþóknunar, enda geti sjóðurinn þá endurlánað þetta fé á sömu vöxtum eða betri. Uppgreiðsluþóknunin sem slík komi ekki til fyrr en sjóðnum standi til boða verri ávöxtun á fjármagninu en hann sé að fá af láninu og fyrirséð að hann komi til með að tapa af endurútlánum fjárins.

 

V. Niðurstaða 

Málskot kærenda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, en þar kemur fram að málsaðili geti skotið ákvörðun Íbúðalánasjóðs til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Ákvæði 1. mgr. 42. gr. var breytt með 2. gr. laga nr. 77/2001 en í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins segir að með ákvörðun Íbúðalánasjóðs sé átt við stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga.

 

Kæra í máli þessu lýtur að innheimtu Íbúðalánasjóðs á uppgreiðsluþóknun af tveimur aukaafborgunum kærenda inn á lán þeirra hjá Íbúðalánasjóði þann 3. febrúar 2012 og 2. mars 2012. Innheimta uppgreiðsluþóknunar verður ekki talin til stjórnvaldsákvörðunar og ekki liggur fyrir að kærendur hafi gert kröfu um niðurfellingu uppgreiðsluþóknunar vegna þessara tveggja innborgana. Kærunni verður því vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kæru A, og B, dags. 29. febrúar 2012, er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir

Gunnar Eydal

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta