COVID-19: Unnið að gagnkvæmri viðurkenningu vottorða milli Norðurlandaþjóða
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að senda heilbrigðisráðherrum hinna Norðurlandaþjóðanna erindi með ósk um samstarf sem miði að því að taka upp gagnkvæma viðurkenningu vottorða vegna COVID-19. Markmiðið er að hægt verði að undanskilja einstaklinga frá kröfum á landamærum framvísi þeir viðurkenndu vottorði, t.d. um að þeir hafi sýkst af veirunni og séu ekki smitberar eða hafi myndað virkt mótefni gegn henni. Málið var kynnt á fundi ríkisstjórnar í dag.
Að mörgu er að huga varðandi öryggi mælinga og prófa og hvaða kröfur þurfi að gera svo fyllsta öryggis sé gætt. Sem stendur eru hér á landi einungis tekin gild íslensk vottorð þar sem staðfest hefur verið með PCR-prófi að einstaklingur hafi smitast af veirunni. Starfshópur heilbrigðisráðherra sem vinnur að gagnkvæmri viðurkenningu vottorða vinnur að því að koma á fyrirkomulagi sem gerir kleift að taka gild sambærileg erlend vottorð.
Hópurinn fylgist náið með þróun mála á vettvangi ESB þar sem niðurstöður hennar geta haft áhrif á framkvæmd landamæraaðgerða á Íslandi. Kominn er skriður á umræðu um gagnkvæma viðurkenningu vottorða sem vert er að taka þátt í.