Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2023 Matvælaráðuneytið

Frumvarp um undanþágur frá ákvæðum samkeppnislaga í landbúnaði

Frumvarp um undanþágur frá ákvæðum samkeppnislaga í landbúnaði - myndiStock/Karel Stipek

Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar frá síðastliðnu hausti var sett inn frumvarp til laga um breytingar á búvörulögum. Frumvarpinu var ætlað að styðja við endurskipulagningu og hagræðingu í slátrun og kjötvinnslu auk þess að stuðla að framförum og aukinni hagkvæmni í búvöruframleiðslu. Á undanförnum árum hefur rekstur kjötafurðastöðva í landbúnaði verið erfiður, einkum þó í slátrun og vinnslu sauðfjárafurða. Á sama tíma hefur afkoma sauðfjárbænda verið slæm. Landbúnaðarháskóli Íslands vann stöðugreiningu á sauðfjárrækt fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti í maí 2021 og Byggðastofnun fyrir innviðaráðuneytið í júní 2022. Þar var dregin upp dökk mynd af stöðunni, en haustið 2022 fengu sauðfjárbændur þó rúmlega 35% hækkun á afurðaverði fyrir lambakjöt sem er fáheyrð hækkun á einu ári. Þessi mikla hækkun hafði ekki meiri áhrif en svo að afurðaverðið er nú svipað að raungildi og árið 2015, en lægra en árin 2013-14. Erfiðleikar hafa einnig verið í nautakjötsframleiðslu og fleiri greinum af margþættum orsökum.

Stuðningur upp á 3,2 milljarða

Stjórnvöld brugðust við þessum erfiðleikum með auknum stuðningi við landbúnaðinn upp á 3,2 milljarða króna á árinu 2022. Ítarlegar er fjallað um þau mál í skýrslu spretthóps matvælaráðherra um alvarlega stöðu í matvælaframleiðslu frá júní 2022. Þar er fjallað um endurskipulagningu og hagræðingu í slátrun og kjötvinnslu og í framhaldi af því voru unnin drög að frumvarpi til laga um breytingu á búvörulögum sem byggðu á niðurstöðu spretthópsins. Frumvarpsdrögin voru birt á samráðsgátt stjórnvalda 10. nóvember sl. og bárust 10 umsagnir alls í samráðsferlinu, þ.á.m. frá Neytendasamtökunum, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Samtökum verslunar og þjónustu, Samkeppniseftirlitinu, Bændasamtökum Íslands, Félagi atvinnurekenda, Samtökum fyrirtækja í landbúnaði og Alþýðusambandi Íslands.

Margvíslegar athugasemdir gerðar

Gerðar voru alvarlegar athugasemdir við efnistök í umsögnum við frumvarpið sem byggði á niðurstöðum spretthópsins. Þar kom m.a. fram að Samkeppniseftirlitið telur þá undanþágu sem lögð var til í frumvarpsdrögunum mögulega fara gegn ákvæðum EES samningsins. Auk þess gangi sú undanþága mun lengra en viðgangist í nágrannalöndum og hætta sé á að hagsmunir kjötafurðastöðva fari ekki saman við hagsmuni bænda. Enn fremur benti Samkeppniseftirlitið á að núgildandi samkeppnislög heimili hagræðingu og því ekkert til fyrirstöðu að hægt sé að skapa grundvöll til hagræðingar á vettvangi kjötafurðastöðva samkvæmt núgildandi lögum. Alþýðusamband Íslands lagðist einnig gegn efnistökum frumvarpsins og tók undir umsögn Samkeppniseftirlitsins. Þá töldu Neytendasamtökin frumvarpið aðför að neytendum. Samtök fyrirtækja í landbúnaði og afurðastöðva í mjólkuriðnaði töldu aftur á móti að frumvarpið gengi of skammt.

Nýtt frumvarp í smíðum

Í ljósi þeirra athugasemda sem bárust í framangreindu samráðsferli þykir ljóst að ekki er tækt að leggja frumvarpið fram í núverandi mynd. Að því virtu hefur matvælaráðherra ákveðið að falla frá framlagningu frumvarpsins. Þess í stað verður hafin vinna í ráðuneytinu við annað frumvarp sem heimilar fyrirtækjum í meirihlutaeigu framleiðenda að eiga með sér samstarf um afmarkaða þætti líkt og tíðkast í nágrannalöndum. Einkum verður horft til reglna ESB og Noregs á þessu sviði. Með nýju frumvarpi verður stefnt að því að styrkja stöðu framleiðenda búvara og skapa tækifæri til aukinnar samvinnu og verðmætasköpunar. Tryggt verði að innlendir framleiðendur hafi ekki lakara svigrúm til hagræðingar og starfsemi en tíðkast í nágrannalöndum okkar. Fyrirhugað er að leggja hið nýja frumvarp fram á haustþingi.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta