Ástráður Haraldsson settur ríkissáttasemjari í vinnudeilu Eflingar og SA
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur sett Ástráð Haraldsson, héraðsdómara, sem ríkissáttasemjara í yfirstandandi vinnudeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Stjórn dómstólasýslunnar hefur samþykkt að veita Ástráði leyfi frá dómarastörfum og hefst leyfið nú þegar.
Með erindi til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, dags. 13. febrúar 2023, óskaði Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari, eftir því að víkja í yfirstandandi kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins og hefur félags- og vinnumarkaðsráðherra ákveðið að verða við þeirri beiðni.
Aðalsteinn Leifsson gegnir eftir sem áður embætti ríkissáttasemjara. Störf Ástráðs Haraldssonar munu einvörðungu snúa að ofangreindri vinnudeilu.