Rætt um hatursáróður á morgunverðarfundi
Hatursáróður verður umfjöllunarefni fimmta fundarins í fundaröð innanríkisráðuneytisins um mannréttindamál í tengslum við mótun landsáætlunar í mannréttindum. Fundurinn verður haldinn í Iðnó í Reykjavík fimmtudaginn 26. apríl klukkan 8.30 til 10.30.
Á fundinum verður fjallað um hatursáróður í víðu samhengi meðal annars með hliðsjón af samfélagslegri umræðu á síðustu misserum og athugasemdum alþjóðlegra eftirlitsaðila með mannréttindaskuldbindingum, bæði á vettvangi Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna um hatursáróður og kynþáttafordóma.
Fundurinn er öllum opinn og er aðgangur ókeypis. Hægt verður að kaupa léttan morgunverð á staðnum. Táknmálstúlkun verður til staðar hafi þess verið óskað fyrirfram. Hægt er að óska eftir táknmálstúlkun til 23. apríl kl. 14.00 með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected]
Dagskrá
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra flytur ávarp í upphafi.
Framsöguerindi flytja:
Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands,
Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands,
Logi Kjartansson, lögfræðingur hjá stjórnsýslusviði Ríkislögreglustjóra,
Íris Ellenberger, sagnfræðingurFulltrúar stjórnar- og stjórnarandstöðuþingmanna sem eiga sæti í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis taka þátt í pallborðsumræðum, þau Skúli Helgason og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Fundarstjóri verður Karl Blöndal, aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins.
Innanríkisráðuneytið hóf fyrir áramót fundaröðina um mannréttindamál í tengslum við mótun landsáætlunar í mannréttindum. Fundaröðin er liður í viðleitni ráðuneytisins til að tryggja að stefnumótun í svo margþættum og mikilvægum málaflokki sem mannréttindi eru eigi sér ekki aðeins stað innan veggja ráðuneyta heldur í samstarfi og í beinum tengslum við hagsmunaaðila, fræðasamfélag og almenning.