Undirbúningur forsetakosninga í fullum gangi
Undirbúningur fyrir forsetakosningarnar sem fram fara 30. júní næstkomandi stendur nú yfir í innanríkisráðuneytinu. Fulltrúar ráðuneytisins, formenn yfirkjörstjórna, fulltrúar sýslumanna, landskjörstjórnar og ráðgjafar sátu nýverið á fundi í ráðuneytinu þar sem farið var yfir helstu þætti undirbúningsins.
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar skal hefjast svo fljótt sem kostur er en þó ekki fyrr en átta vikum fyrir kjördag og mun innanríkisráðuneytið auglýsa á næstu dögum hvenær hún getur hafist.
Framboðum til forsetakjörs skal skila til innanríkisráðuneytisins fyrir miðnætti föstudaginn 25. maí 2012. Framboðunum skal fylgja samþykki forsetaefnis, nægilegur fjöldi meðmælenda sem vottaður skal af viðkomandi yfirkjörstjórn um að meðmælendurnir séu kosningarbærir.
Framkvæmd forsetakjörs er samstarf nokkurra opinberra aðila. Má þar helst nefna forsætisráðuneytið, innanríkisráðuneytið, utanríkisráðuneytið, Hæstarétt Íslands, Þjóðskrá Íslands, sveitarstjórnir, sýslumenn, kjörstjórnir og landskjörstjórn. Þessi stjórnvöld skipta með sér verkum og vinna að því að heildarframkvæmd kosningarinnar fari fram með skýrum og traustum hætti.
Á vefnum kosning.is má finna ýmsar upplýsingar um framkvæmd forsetakosninga. Hægt er að senda spurningar er varða kosningarnar á netfangið [email protected].