Heilbrigðisráðherra veitir gæðastyrki
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, veitti í dag fjórtán gæðastyrki sem ætlað er að hvetja heilbrigðisstarfsmenn sjálfa til dáða á sviði gæðamála. Er þetta í sjöunda sinn sem styrkir af þessu tagi eru veittir. Styrkupphæðin er að þessu sinni þrjár milljónir króna og afhenti heilbrigðisráðherra styrkina í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í dag.
Heilbrigðisstofnanir víðs vegar um landið leggja umtalsverða fjármuni til gæðastarfs á ári hverju bæði með sérstökum gæðanefndum, með ráðstefnum, fundum og með því að leggja með öðrum hætti áherslu á gæðastarf í starfsemi sinni. Styrkirnir sem heilbrigðisráðherra veitir eru beinn stuðningur við tiltekin verkefni starfsmanna veittir til að hvetja þá til að huga sérstaklega að gæðastarfi í daglegum störfum sínum, en venjulega er það þverfaglegur hópur heilbrigðisstarfsmanna sem stendur að hverri umsókn.
Heilbrigðisráðuneytinu bárust að þessu sinni fimmtíu og fimm styrkbeiðnir alls staðar af að landinu og var sótt um styrki til að sinna afar fjölbreyttum gæðaverkefnum á flestum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Má í þessu sambandi nefna gæðaverkefni á sviði bráðaþjónustu, heilsugæslu, öldrunarþjónustu, geðheilbrigðisþjónustu og endurhæfingu svo eitthvað sé nefnt
- Listi yfir þá umsækjendur sem hlutu styrki til gæðaverkefna og heiti verkefnanna.
(pdf 33.6KB - Opnast í nýjum glugga)