Breytingar á yfirstjórn Landspítalans
Anna Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, og Björn Zoëga, framkvæmdastjóri lækninga, á Landspítala, munu sameiginlega gegna starfi forstjóra spítalans þar til nýr forstjóri hefur verið ráðinn, en Magnús Pétursson, forstjóri, lætur af störfum þann 1. apríl nk. Gert er ráð fyrir að þessi skipan mála gildi til 1. september nk. eða þar til nýr forstjóri hefur verið ráðinn að loknu ráðningarferli. Heilbrigðisráðuneytið mun auglýsa starfið.
Magnús Pétursson hefur ákveðið að láta af störfum sem forstjóri LSH í samkomulagi við heilbrigðisráðherra, en Magnús mun verða nýjum forstjóra spítalans innan handar eftir að hann hefur verið ráðinn.
Anna Stefánsdóttir hefur um árabil gegnt starfi framkvæmdastjóra hjúkrunar og Björn Zoëga hefur leyst Jóhannes M. Gunnarsson af sem framkvæmdastjóri lækninga undanfarna mánuði.
Gengið hefur verið frá því að Jóhannes M. Gunnarsson, framkvæmdastjóri lækninga á LSH, taki við starfi sem felur í sér að hafa yfirumsjón með tilteknum þáttum vegna byggingar nýs háskólasjúkrahúss. Jóhannes hefur undanfarið sinnt sambærilegu starfi á vegum LSH og fær leyfi frá starfi framkvæmdastjóra lækninga.
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, sagði eftir að breytingarnar á yfirstjórn LSH voru kunngjörðar að hann vildi þakka þeim Magnúsi og Jóhannesi sérstaklega fyrir það mikla starf sem þeir hefðu unnið, ásamt starfsfólki LSH, í tengslum við þá sameiningu spítalanna sem ákveðin hefði verið á sínum tíma.
– Magnús Pétursson hefur á níunda ár verið forstjóri fjölmennasta fyrirtækis landsins á umbrotatímum og hefur við þær aðstæður setið lengur í forstjórastóli, en þekkist í sambærilegri stofnun í nálægum löndum nú á tímum. Hann hefur gegnt starfi sínu af alúð og trúmennsku. Hann hefur átt frumkvæði að eflingu samstarfsins milli Háskóla Íslands og Landspítalans, eflt samstarf sjúkrastofnana á suð-vesturhorninu og unnið þrekvirki við sameiningu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu,” segir Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra.
Heilbrigðisráðherra segist fagna því sérstaklega að hafa náð samkomulagi við Jóhannes M. Gunnarsson, framkvæmdastjóra lækninga, um að halda áfram faglegum undirbúningi við byggingu nýs háskólaspítala.
- Þegar er ljóst að Jóhannes hefur unnið mjög gott starf á þessum vettvangi undanfarið og mér er vel ljóst að hann hefur í samstarfi við starfsfólk spítalans og fagaðila á sviði spítalabygginga þróað skipulag og lausnir á spítalanum sem rísa á, sem þegar hafa vakið verulega athygli. Jóhannesi er nú áfram falið afar flókið verkefni sem fáum er treystandi fyrir. Fyrir heilbrigðisþjónustuna til framtíðar er mikill akkur í því að njóta starfskrafta Jóhannesar við faglega þáttinn í uppbyggingu hins nýja spítala og vænti ég góðs af samstarfi við hann áfram,” sagir Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra.