Flestar konur fæða á Landspítala
Langflestar konur fæða í heimabyggð og þrjár af hverjum fjórum konum fæða á Landspítalanum. Þetta kom frá í máli heilbrigðisráðherra á Alþingi. Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, svaraði á Alþingi fyrirspurn frá Birki Jóni Jónssyni, Framsóknarflokki, um þátt ríkisins vegna fæðinga og í því samhengi komu þessar tölur fram. Ráðherra sagði að árið 2006 hefðu 3999 börn fæðst á Íslandi. Af þeim komu 3038 í heiminn á Landspítala, 308 á sjúkrahúsinu á Akureyri, 238 á sjúkrahúsinu á Akranesi, 150 á Suðurnesjum og 144 á Selfossi. Á öðrum stöðum voru fæðingar mun færri. Af 3999 fæðingum fæddi 3471 kona í heimabyggð, m.ö.o. um 500 konur fæddu utan þess svæðis þar sem þær eru skráðar til lögheimilis. Þar af fæddu 85 konur með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu annars staðar á landinu. Gera má ráð fyrir að einhver hluti þeirra kvenna sem fæðir utan sveitarfélags þar sem þær eiga lögheimili séu þar búsettar tímabundið. Einnig er vitað að sumar konur velja sér að eigin frumkvæði fæðingarstað utan eigin sveitarfélags þótt þar sé öll aðstaða til fæðinga. Vegna fyrirspurnarinnar um þátt ríkisins í kostni við fæðingar sagði heilbrigðisráðherra: “Því er til að svara að um þennan kostnað er í gildi reglugerð nr. 871/2004 um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innanlands. Sú reglugerð tekur einnig yfir þær ferðir sem háttvirtur þingmaður spyr um. Að svo stöddu er ekki fyrirhuguð endurskoðun á þessari reglugerð.”