Hoppa yfir valmynd
17. mars 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Tannlæknakostnaður: Gerið verðsamanburð segir ráðherra

Mikill verðmunur á þjónustu tannlækna ætti að hvetja neytendur til að gera verðsamanburð á þessu sviði að mati heilbrigðisráðherra. Heilbrigðisráðherra lét þessi orð falla þegar hann svaraði fyrirspurnum um þjónustu tannlækna og verðlag þjónustunnar frá Árna Johnsen, Sjálfstæðisflokki. Kom fram hjá ráðherra að neytendasamtökin hefðu gert könnun á verðlagningu tannlækninga og í þeirri könnun kom m.a. fram að verulegur verðmunur er á milli tannlækna, eða allt að þrefaldur verðmunur á einstaka aðgerðarliðum. - Það er því ljóst að það er neytendum í hag að gera verðsamanburð á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum, sagði heilbrigðisráðherra. Árni Johnsen spurði um hvernig gjaldskrá tannlækna væri: “Því er til að svara, virðulegi forseti, að gjaldskrá tannlækna er frjáls. Heilbrigðisráðherra setur viðmiðunargjaldskrá vegna endurgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins til tryggðra sjúklinga. Sé gjaldskrá tiltekins tannlæknis hærri en gjaldskrá ráðherra greiðir einstaklingurinn mismuninn. Tryggingastofnun ríkisins endurgreiddi samtals 1.249 milljónir króna vegna tannlæknakostnaðar árið 2006. Samkvæmt þeim reikningum sem komnir eru inn fyrir árið 2007 greiddi Tryggingastofnun ríkisins 1.273 milljónir árið 2007 vegna tannlæknakostnaðar.” Og Árni Johnsen spurði um það hvort dæmi væru um allt að 140% verðmismun tannlækna. Ráðherra svaraði: “Samkvæmt samanburðarverðlagningu tannlækningu og gjaldskrár ráðherra sem Tryggingastofnun ríkisins gerði árið 2006 var gjaldskrá almennra tannlækna að meðaltali rúm 43% yfir gjaldskrá ráðherra. Tvö tilvik fundust þar sem fram kom að gjaldskrá tannlæknis var meira en 100% yfir ráðherragjaldskrá. Þeir tveir tannlæknar sem efstir voru í samanburðinum árið 2006 voru 138,5% og 121,8% yfir gjaldskrá ráðherra árið 2007, samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins. Að meðaltali var verð almennra tannlækna 43% hærra en gjaldskrá ráðherra samkvæmt greiddum reikningum árið 2007.”

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta