Afgreiðsla starfsleyfa heilbrigðisstétta hjá landlækni
Landlæknisembættið veitir heilbrigðisstéttum starfsleyfi frá deginum í dag að telja og flyst útgáfa leyfanna þar með frá heilbrigðisráðuneytinu.
Frá og með deginum í dag, 1. apríl 2008, tekur Landlæknisembættið við því hlutverki að veita heilbrigðisstéttum starfsleyfi, en það hefur til þessa verið á verksviði heilbrigðisráðuneytisins. Breytingin er gerð með stoð í lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna flutnings á útgáfu starfsleyfa til landlæknis, sem samþykkt voru á Alþingi 4. mars sl.
Heilbrigðisstéttir í landinu eru alls 32 og njóta þær lögverndaðs starfsheitis. Er kveðið á um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfa í ýmsum lögum og reglugerðum um starfsréttindi heilbrigðisstétta, en með ofangreindum lögum er gerð sú breyting að landlæknir gefur út starfsleyfi þessara stétta í stað heilbrigðisráðherra.
Umsóknir um starfsleyfi heilbrigðisstétta verða því eftirleiðis afgreiddar alfarið hjá Landlæknisembættinu, en umsóknarferlið sjálft verður að mestu óbreytt. Eyðublöð fyrir umsóknir um starfsleyfi, sérfræðingsleyfi og vottorð um starfsleyfi er hægt að nálgast á vefsíðum fyrir viðkomandi heilbrigðisstéttir á vef Landlæknisembættisins, á yfirlitssíðunni Starfsleyfi. Þar eru einnig leiðbeiningar og upplýsingar um gögn sem þurfa að fylgja umsóknum, eftir því sem við á um hverja stétt.