Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 73/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 73/2024

Mánudaginn 29. apríl 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. febrúar 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. febrúar 2024, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 18. desember 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. febrúar 2024, var umsókn kæranda synjað með vísan til þess að hann teldist ekki vera í virkri atvinnuleit.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. febrúar 2024. Með bréfi, dags. 20. febrúar 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 18. mars 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. mars 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann sé búinn að vera alvarlega veikur síðan 2018. Hann hafi oft farið í endurhæfingu en það hafi ekki hjálpað til. Þá hafi kærandi ítrekað sótt um örorkulífeyri en hafi verið synjað. Hann óski eftir endurskoðun á máli sínu, hann sé veikur, niðurlægður og finnist honum vera mismunað.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi fyrst sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 6. ágúst 2020. Fyrstu greiðslur vegna þeirrar umsóknar hafi byrjað 1. október 2020 en fram að því hafi kærandi verið óvinnufær með öllu samkvæmt gögnum frá lækni. Útreiknaður bótaréttur kæranda hafi verið 93% og hafi hann þegið greiðslur frá 1. október 2020 til 30. september 2022.

Kærandi hafi aftur sótt um greiðslur þann 30. maí 2023. Með erindi 14. júní 2023 hafi verið óskað eftir starfshæfnisvottorði fyrir kæranda svo hægt væri að taka afstöðu til umsóknar hans. Þar sem engin gögn hafi borist innan gefins frests hafi umsókn kæranda verið synjað og honum tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi, dags. 27. júní 2023.

Kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur á ný þann 18. desember 2023. Með erindi 10. janúar 2024 hafi verið óskað eftir starfshæfnisvottorði fyrir kæranda svo hægt væri að taka afstöðu til umsóknar hans. Gögnin sem hafi borist frá kæranda, þann 19. janúar 2024, hafi verið ólæsileg og hafi honum verið sendur tölvupóstur þar sem honum hafi verið veitt færi á að bæta úr þeim annmörkum. Þegar gögn hafi skilað sér 30. janúar 2024 hafi umsókn kæranda aftur verið frestað 31. janúar 2024 og honum veitt tækifæri á að koma að skriflegri afstöðu sinni og skýringum um stöðu sína þar sem að læknisvottorð, dags. 19. janúar 2024, hafi sagt kæranda óvinnufæran og það síðan 2019.

Með ákvörðun, dags. 12. febrúar 2024, hafi umsókn kæranda verið synjað á grundvelli 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði um vinnufærni. Í læknisvottorði segi meðal annars að kærandi hafi verið óvinnufær síðan árið 2019 og verði að [ó]breyttu eins ástatt um hann næstu eitt til tvö árin.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir.

Mál þetta varði almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum, sbr. III. kafla laga um atvinnuleysistryggingar. Í 13. gr. laganna segi að eitt helsta skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanns sé að viðkomandi sé í virkri atvinnuleit. Nánari skilgreiningu á hugtakinu „virk atvinnuleit“ sé að finna í 14. gr. laganna. Í því ákvæði komi fram að sá teljist í virkri atvinnuleit sem sé meðal annars fær til flestra almennra starfa, hafi heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum og hafi vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf sé að ræða. Í 4. mgr. 14. gr. laganna sé svo að finna þrönga undanþágu frá framangreindum skilyrðum. Þar segi að Vinnumálastofnun sé heimilt að veita undanþágu frá sumum skilyrðum ákvæðisins þannig að hinn tryggði, sem vegna aldurs, félagslegra aðstæðna sem tengist skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna fjölskyldumeðlima óski eftir hlutastarfi eða starfi innan tiltekins svæðis, geti talist vera í virkri atvinnuleit. Enn fremur sé stofnuninni veitt heimild til að taka tillit til aðstæðna atvinnuleitanda sem geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt mati sérfræðilæknis.

Af fyrirliggjandi gögnum í máli þessu sé ljóst að kærandi sé óvinnufær og hafi verið frá árinu 2019. Samkvæmt starfshæfnisvottorði frá lækni sé kærandi sagður ófær til vinnu frá desember 2019 til 19. janúar 2024 og líklegt sé að eins verði ástatt næstu eitt til tvö árin.

Í ljósi alls framangreinds telji Vinnumálastofnun því að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum.

Vinnumálastofnun hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort kæranda beri að endurgreiða atvinnuleysistryggingar fyrir tímabilið október 2020 til september 2022 en samkvæmt framlögðum gögnum hafi kærandi ekki verið fær til almennra starfa á meðan hann hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum, enda sé hann óvinnufær með öllu.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. febrúar 2024, um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. Í 1. mgr. 14. gr. segir að sá teljist vera í virkri atvinnuleit sem uppfylli eftirtalin skilyrði:

  1. er fær til flestra almennra starfa,
  2. hefur heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó 5. mgr.,
  3. hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga,
  4. hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,
  5. er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,
  6. er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu,
  7. á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við,
  8. hefur vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, og
  9. er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.

Fyrir liggur læknisvottorð, dags. 19. janúar 2024, þar sem kemur fram að kærandi sé búinn að óvinnufær vegna mikilla verkja í öxl og hálsi síðan í desember 2019. Þá kemur fram að ástand hans verði að öllum líkindum óbreytt næstu eitt til tvö árin.

Ljóst er af gögnum málsins að kærandi hefur verið óvinnufær síðan í desember 2019. Samkvæmt skýru lagaákvæði 1. mgr. 13. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 bar Vinnumálastofnun því að synja umsókn kæranda, enda liggur fyrir að hann er hvorki fær til flestra almennra starfa né hefur heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum og telst því ekki vera í virkri atvinnuleit. Með vísan til þess er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur, staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. febrúar 2024, um að synja umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta