Hoppa yfir valmynd
2. október 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 35/2002

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA

 

í málinu nr. 35/2002

 

Ákvarðanataka: rafmagnstafla.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 25. júní 2002, mótteknu 3. júlí 2002, beindi A hdl, f.h. B og C, hér eftir nefnd álitsbeiðendur, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við D, E og F, hér eftir nefnd gagnaðilar.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 3. júlí 2002.  Samþykkt var að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Greinargerð G hdl. f.h. gagnaðila, dags 8. ágúst 2002, móttekin 13. ágúst 2002, var lögð fram á fundi nefndarinnar 2. október 2002 og málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið X nr. 2, í Y sem er þriggja hæða hús byggt árið 1947. Húsið skiptist í kjallara, hæð og ris, eða alls þrjá eignarhluta. Álitsbeiðendur eru núverandi og fyrrverandi eigendur að kjallara, en gagnaðilar eigendur fyrstu hæðar og risíbúðar. Ágreiningur er um ákvarðanatöku og skiptingu kostnaðar.

 

Kröfur álitsbeiðanda eru:

Að gagnaðilum beri að greiða kostnað vegna flutnings rafmagnstöflu í sameign.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að í íbúð álitsbeiðenda hafi verið staðsett sameiginleg rafmangstafla fyrir allar íbúðir hússins. Nauðsynlegt hafi verið að færa hana á sameiginlegt svæði þannig að allir íbúar gætu átt auðveldan aðgang að töflunni í neyðartilvikum. Hafi  aðilar verið sammála um að slík framkvæmd væri nauðsynleg. Segja álitsbeiðendur húsfund hafa verið haldinn 1. janúar 2002 um framkvæmdina en engin fundargerð hafi verið rituð á fundinum. Álitsbeiðendur hafi látið gagnaðila vita af því að rafvirki kæmi til að færa töfluna yfir í sameiginlegt þvottahús og að starfsmenn Orkuveitunnar kæmu til að grafa fyrir heimtaug inn í húsið. Hafi framkvæmdir þessar farið fram í apríl 2002 og hafi allir íbúðareigendur orðið varir við þær á þeim tíma, en vinnan hafi staðið yfir í tvo daga.

Álitsbeiðendur halda því fram að telji gagnaðilar að fullnægjandi sönnur hafi ekki komið fram um ákvörðun húsfélagsins, hafi gagnaðilum borið að hafa upp andmæli um framkvæmdina án ástæðulauss dráttar og strax og tilefni hafi gefist til.

Segjast álitsbeiðendur nú hafa krafið gagnaðila um greiðslu vegna hluta þeirra í kostnaði vegna framkvæmdanna en gagnaðilar neiti greiðslu.

Í greinargerð hafna gagnaðilar því að þeim beri að greiða kostnað vegna framkvæmda við flutning rafmagnstöflu. Mótmæla gagnaðilar því að samþykkt hafi verið að flytja umrædda rafmagnstöflu. Í janúarmánuði síðastliðnum hafi verið haldinn óformlegur húsfundur, sem ekki hafi verið boðað til í samræmi við ákvæði 60. gr. laga nr. 26/1994, um fjöleignarhús. Hafi á þeim fundi verið ákveðið að hækka húsgjald og að kanna hver væri kostnaður við flutning rafmagnstöflu úr íbúð álitsbeiðenda. Hins vegar hafi ekki  verið samþykkt að ráðast í neinar framkvæmdir.

Að undirlagi álitsbeiðanda hafi verið haft samband við rafvirkja og athugað hver væri hugsanlegur kostnaður við þessa framkvæmd. Hafi komið í ljós að hann væri það hár, að gagnaðilar teldu ekki koma til greina að ráðast í framkvæmdina. Hafi þeir tjáð álitsbeiðanda afdráttarlaust þá afstöðu sína. Telja álitsbeiðendur því fjarri, að ákvörðun hafi verið tekin um að ráðast í hina umdeildu framkvæmd eins og haldið sé fram af hálfu álitsbeiðanda. Benda gagnaðilar einnig á, að sönnunarbyrðin um að slík ákvörðun hafi verið tekin hvíli á álitsbeiðendum.

Í ljósi þessa telja gagnaðilar að álitsbeiðendum hafi verið óheimilt að láta flytja umrædda rafmagnstöfluna sbr. 36. gr. laga nr. 26/1994. Beri álitsbeiðendur alfarið ábyrgð á því, að hafa ráðist í framkvæmd þessa án þess að lagaskilyrði þar að lútandi væru uppfyllt og þurfi þeir þar af leiðandi að greiða allan kostnað af framkvæmdinni, sbr. 2. mgr. 40. gr

Benda gagnaðilar einnig á að áskilnaður 2. mgr. 40. gr. um andmæli án ástæðulauss dráttar strax og tilefni gefst til, eigi ekki við í málinu þar sem það taki einungis til tilvika, þar sem haldinn hafi verið húsfundur, sem boðaður hafi verið í samræmi við ákvæði 60. gr. laga nr. 26/1994 og á þeim fundi samþykkt að ráðast í tiltekna framkvæmd, án þess þó að ákveðnum eigendum hafi gefist kostur á að taka þátt í ákvörðuninni. Sé ljóst, að skilyrði þessa ákvæðis séu ekki fyrir hendi í þessu máli, þar sem ekki hafi verið haldinn slíkur húsfundur.

Auk þessa mótmæla gagnaðilar því að þeir hafi sýnt af sér tómlæti við að mótmæla framkvæmdum. Hluti gagnaðila vinni í Reykjavík og hafi ekki verið komin heim fyrr en framkvæmdum hafi verið lokið á daginn. Hafi þeir því ekki orðið varir við framkvæmdirnar fyrr en þær hafi verið það langt komnar að búið hafi verið að brjóta upp gangstétt við húsið og ekki aftur snúið.

 

III. Forsendur

Sú meginregla gildir samkvæmt lögum um fjöleignarhús, að sameiginlegar ákvarðanir ber að taka á húsfundum, sbr. 4. mgr. 39. gr. laganna. Er tilgangur þess ákvæðis að eigendum gefist kostur á að mæta og taka þátt í umræðum, ákvörðun og atkvæðagreiðslu. Sé ákvörðun tekin án samráðs við alla eigendur eða án þess að öllum sé gefinn kostur á að vera með í ákvarðanatöku, getur sá aðili, sem ekki var með í ákvarðanatökunni, krafist þess að framkvæmd verði stöðvuð og neitað að greiða hlutdeild í kostnaði vegna hennar, sbr. 2. mgr. 40. gr. laganna.

Ljóst er að aðila greinir í verulegum atriðum á um staðreyndir í máli þessu. Eftir því sem ráða má af gögnum málsins var ráðist í framkvæmdir við rafmagnstöflu í fjöleignarhúsinu og hún færð úr íbúð álitsbeiðanda og fram á gang í sameign. Óumdeilt er í málinu að þessar framkvæmdir hafi verið ræddar á húsfundi 1. janúar 2002, þar sem eigendur hússins hafi verið mættir. Hins vegar er ágreiningur um það hvort ákvörðun hafi verið tekin á umræddum fundi um að ráðast í framkvæmdirnar, en engin fundargerð var rituð á fundinum.

Gegn mótmælum gagnaðila er það mat kærunefndar að álitsbeiðendur hafi ekki sýnt fram á að tekin hafi verið ákvörðun um annað en að kanna kostnað við að flytja rafmagnstöflu úr íbúð álitsbeiðenda. Af þeim sökum var álitsbeiðanda óheimilt að ráðast í frekari framkvæmdir án þess að ákvörðun hafi verið tekin um slíkt á löglega boðuðum húsfundi sbr. m.a. 1. og 4. mgr. 39. gr. laga nr. 26/1994. Af þessu leiðir að gagnaðilum gafst ekki færi á að gæta hagsmuna sinna í tenglsum við verkið. Það er því álit kæerunefnar að ranglega hafi verið staðið að ákvarðanartöku um framkvæmdina gagnvart gagnaðilum sem leiðir til þess að þeir geta með réttu neitað greiðslu kostnaðar vegna hennar.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfum álitsbeiðenda og gagnaðlum beri ekki að greiða kostnað vegna flutnings rafmagnstöflu í sameign.

 

 

Reykjavík, 2. október 2002

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Karl Axelsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta