Ný norræna skýrsla um mat á gagnreyndum aðferðum í þjónustu við börn og foreldra
Komin er út ný skýrsla á vegum verkefnisins Fyrstu 1000 dagar barnsins á Norðurlöndunum. Markmið verkefnisins er að efla geðheilsu og vellíðan verðandi foreldra á meðgöngu, efla foreldrafærni og heilbrigt samband foreldra og barna, finna og bregðast snemma við áhættuþáttum við upphaf ævinnar sem og hlúa að velferð og vellíðan yngstu barnanna í leikskólum og dagvistun.
Í nýju skýrslunni eru yfirfarin 96 úrræði sem nýtt eru innan Norðurlandanna á meðgöngu og fyrstu æviárunum til að efla tengsl foreldra og ungra barna, finna áhættuþætti o.fl. og skoðað hversu vel þau eru studd rannsóknum. Er skýrslunni ætlað að nýtast við mótun stefnu og uppbyggingu þjónustu á þessu sviði.
Úrræðin 96 eru 63 sálfélagsleg inngrip og 33 sálfræðileg matstæki sem flokkuð voru í 4 gæðaflokka eftir rannsóknargrunni. Í ljós kom að talsvert vantar upp á að aðferðirnar séu studdar vönduðum rannsóknum því aðeins 14% sálfélagslegu inngripanna og 27% sálfræðilegu matstækjanna reyndust ofan við miðju, þ.e. í tveimur betri gæðaflokkunum.
Fyrstu 1000 dagar barnsins á Norðurlöndunum
Heilbrigðisráðherra og félags- og barnamálaráðherra áttu, árið 2019, frumkvæði að samnorrænu verkefni til þriggja ára um velferð og vellíðan á fyrstu æviárunum undir heitinu Fyrstu 1000 dagar barnsins á Norðurlöndunum. Verkefninu var ýtt úr vör sem einu af formennskuverkefnum Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Embætti landlæknis var falið að leiða verkefnið fyrir hönd Íslands en samstarfsaðilar á Norðurlöndunum eru Sundhedsstyrelsen í Danmörku, Helsedirektoratet og R-BUP Øst og Sør í Noregi, Folkhälsomyndigheten í Svíþjóð og Itla Children‘s Foundation og THL í Finnlandi. Viðfangsefni verkefnisins er að skoða hvernig Norðurlöndin eru í stakk búin til að veita börnum heilbrigt upphaf í lífinu. Það beinist að tímabilinu frá meðgöngu til fyrstu tveggja æviáranna.
Fyrsta skýrsla verkefnisins, stöðugreining og samanburður milli landa, var gefin út í lok síðasta árs. Í henni var kortlagt hvernig löndin standa að því að styðja við börn og foreldra við upphaf ævinnar í meðgönguvernd, ung- og smábarnavernd, leikskólum, dagvistun og tengdum kerfum. Stöðugreininguna má finna hér.
Þá var haldin vinnustofa og samráðsfundur með íslensku fagfólki og hagsmunaaðilum fyrr á þessu ári til að vinna úr niðurstöðum stöðugreiningarskýrslunnar. Niðurstöður vinnustofunnar og samráðsfundarins má finna hér.
Ráðgert er að stefnumótunartillögur verði hluti af lokaskýrslu verkefnisins Fyrstu 1000 dagar barnsins á Norðurlöndunum, sem gefin verður út síðla árs 2022.