Hoppa yfir valmynd
20. mars 2020 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Frumvarp nýsköpunarráðherra um sjóðinn Kríu í Samráðsgátt

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur lagt fram drög að frumvarpi nýsköpunarráðherra til laga um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum í Samráðsgátt stjórnvalda. 

Frumvarpið felur í sér að stofnaður verði nýr sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins sem kallast Kría um fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Sjóðurinn hefur það hlutverk að fjárfesta í öðrum sérhæfðum sjóðum sem fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, svokölluðum vísisjóðum eða venture capital sjóðum. Sjóðnum er ætlað að stuðla þannig að uppbyggingu, vexti og aukinni samkeppnishæfni atvinnulífsins með því að hér á landi verði til heilbrigt umhverfi áhættufjármagns til fjárfestingar í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

„Með Kríu eflum við vöxt og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og stuðlum að virku fjármögnunarumhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki. Þegar við kynntum Nýsköpunarstefnu fyrir Ísland í haust var það undir þeim formerkjum að gera Ísland betur í stakk búið að mæta áskorunum framtíðarinnar með því að byggja upp traustan grundvöll fyrir hugvitsdrifna nýsköpun á öllum sviðum. Í óvissunni sem við búum öll við núna er nauðsynlegt að hlúa að nýsköpun í landinu og horfa til framtíðar. Við verðum að stuðla að þroskuðu umhverfi nýsköpunarfjárfestinga og Kría rennir stoðum undir það,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra. 

Með frumvarpinu er aðgerðum í Nýsköpunarstefnu komið í framkvæmd með að leggja til umgjörð utan um aðkomu ríkisins að ákveðinni tegund af sérhæfðum áhættufjárfestingarsjóðum. Slíkir sjóðir eru ólíkir hefðbundnum fjárfestingarsjóðum meðal annars að því leyti að þeir hafa að jafnaði meiri áhrif á stefnumótun, rekstur og almenna ákvarðanatöku í þeim fyrirtækjum sem sjóðirnir fjárfesta í. 

Rannsóknir og reynsla annarra þjóða hafa sýnt fram á mikilvægi slíkra sjóða fyrir nýsköpunarumhverfið, en þar sem slíkir sjóðir taka mikinn þátt í uppbyggingu fyrirtækja leiðir það til þess að fleiri vel heppnuð fyrirtæki verða til, í þeim skilningi að þau vaxa hraðar, skapa fleiri störf og meiri verðmæti heldur en fyrirtæki sem njóta ekki slíkrar fjármögnunar.

„Nú síðast í gær sótti íslenska nýsköpunarfyrirtækið Mainframe Technologies tæpar 1200 milljónir til erlendu fjárfestanna Andreessen Horowitz, sem eru með eftirsóttustu fjárfestum í nýsköpun og hátækni í heiminum. Áður hafði íslenskur vísisjóður stutt við það fyrirtæki, sem sýnir svart á hvítu virðið í því að hafa virka, alþjóðlega samkeppnishæfa nýsköpunarfjárfesta staðsetta hér á landi, en Kría mun styðja við þá þróun,“ segir Þórdís Kolbrún. 

Eftirsóknarvert er að stuðla að því að á Íslandi styrkist grundvöllur undir fjárfestingar í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Alls staðar þar sem tekist hefur að koma á fót slíkri starfsemi sem fjármagnar áhættusöm sprota- og nýsköpunarfyrirtæki hefur þurft umtalsverða aðkomu frá hinu opinbera. Markmið frumvarpsins er því að stuðla að stofnun sérhæfðra sjóða sem fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, að uppfylltum ákveðnum kröfum sem eru til þess fallnar að auka líkur á árangri við að ná þessu markmiði. Þetta stuðlar að því að á Íslandi verði alþjóðlega samkeppnishæft fjármögnunarumhverfi sem styðji við mótun slíkra sjóða sem aftur styður við uppbyggingu nýsköpunarfyrirtækja hér á landi. Þannig mun aðgengi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja að áhættufjármagni á fyrstu stigum stóraukast. 

Hægt er að skila inn umsögn um frumvarpið til 26. mars 2020.

Sjá hér á Samráðsgátt stjórnvalda.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta