Nr. 411/2020 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 3. desember 2020 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 411/2020
í stjórnsýslumáli nr. KNU20110008
Kæra […]
og barna hennar
á ákvörðunum
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 3. nóvember 2020 kærði […], fd. […], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir nefnd kærandi), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 15. október 2020, um að synja kæranda og börnum hennar, […], fd. […], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir A), og […], fd. […], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir B), um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að henni og börnum hennar verði veitt staða flóttamanna hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og þeim verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 28. ágúst 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun, m.a. þann 4. júní 2020, ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 15. október 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda og börnum hennar um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 3. nóvember 2020. Kærunefnd barst greinargerð kærenda þann 17. nóvember 2020 ásamt viðbótargögnum. Þá bárust frekari upplýsingar þann 19. og 26. nóvember 2020. Í greinargerð óskaði kærandi eftir að koma í viðtal hjá kærunefnd og tjá sig um efni málsins. Í ljósi frásagnar kæranda og skýrslna um heimaríki taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki sínu vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og henni skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar í málum barna kæranda, kom fram að þau væri svo ung að árum að ekki yrði talið tilefni til að taka viðtal við þau. Fram kom að umsóknir barna kæranda væru grundvallaðar á framburði móður þeirra og þeim hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun móður hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnanna og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli móður þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, laga um útlendinga og barnaverndarlaga, að börnum kæranda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja móður sinni til heimaríkis. Börnum kæranda var vísað frá landinu.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar er vísað til framburðar hennar í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Þar hafi kærandi greint frá því að vera kristinnar trúar og fædd og uppalin í Benin borg í Edo fylki í Nígeríu. Hún sé af fátæku fólki komin og hafi búið við bág lífsskilyrði. Fjölskylda kæranda hafi unnið sameiginlega að framfærslu fjölskyldunnar með því að selja ýmsan varning. Faðir kæranda hafi lent í umferðarslysi og í kjölfarið verið óvinnufær. Kærandi hafi þurft að hætta skólagöngu sinni til að aðstoða móður sína. Kærandi hafi greint frá því að kona að nafni [...] sem búið hafi í nágrenni við fjölskylduna hafi heyrt af vandræðum fjölskyldunnar og greint kæranda frá því að systir hennar væri reiðubúin til að taka hana með sér til Evrópu þar sem hún gæti unnið við ræstingar og barnagæslu. Kærandi hafi verið látin sverja voodoo eið í húsi töfralæknis áður en hún hafi farið til Ítalíu árið 2008. Þegar þangað hafi verið komið hafi kærandi verið neydd í vændi og upplifað ofbeldi og hótanir af hálfu systur [...] sem gengið hafi undir nafninu „[...]“. Kærandi hafi verið í vændi í u.þ.b. ár og greitt konunni peninga vikulega en upphaflega hafi skuldin verið um 45 þúsund evrur. Kærandi hafi gert tilraunir til að flýja en konan hafi alltaf fundið hana og fólk á vegum konunnar hafi beitt fjölskyldu kæranda í Nígeríu ofbeldi. Móðir kæranda hafi flúið úr borginni yfir í þorp að nafni [...]. Þar hafi menn bankað upp á hjá henni og kynnt sig sem lögreglumenn og hótað að handtaka hana og hafa uppi á kæranda ef hún kæmi til Nígeríu. Þá kvaðst kærandi einungis eiga móður sína að en bróðir hennar og faðir væru látnir. Árið 2019 hafi konan sem hafi þvingað kæranda í vændi fundið hana á Ítalíu og mætt daglega heim til hennar þar sem hún hafi krafið kæranda um að greiða skuld sína og jafnframt hótað henni lífláti. Kærandi hafi greint frá því að konan tilheyri hópi sem kallaður sé „Oboli Asigidi“ og að hún hafi m.a. tengsl við stjórnvöld, gengi og háttsetta einstaklinga. Kærandi óttist systur konunnar í Nígeríu, [...], sem og konuna sjálfa sem seldi hana í vændi á Ítalíu. Hún óttist um líf sitt og barna sinna snúi hún aftur til Nígeríu vegna skuldar sinnar. Kærandi telji sig ekki geta verið örugga á öðrum stað í Nígeríu þar sem konan á Ítalíu hafi fundið móður hennar með aðstoð systur sinnar, [...], í Nígeríu og því geti konan fundið hana hvar sem er. [...] hafi hótað kæranda og börnum hennar lífláti í skilaboðum eftir að þau hafi komið til Íslands. Kærandi telur sig ekki geta fengið vernd eða aðstoð yfirvalda í Nígeríu þar sem peninga þurfi til þess. Þá sé hún ófær um að framfleyta fjölskyldu sinni í Nígeríu og enga félagslega aðstoð eða stuðning sé að fá, auk þess sem erfitt væri að fá vinnu. Hún telji að þau muni ekki hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu og að sama skapi muni börn hennar ekki geta gengið í skóla í Nígeríu þar sem bæði kosti peninga.
Í viðtölum hafi kærandi greint frá því að eiginmaður hennar og barnsfaðir hafi dvalið í Napólí á Ítalíu þegar menn á vegum fyrrnefndrar konu hafi komið að heimili þeirra og spurt um kæranda. Þegar hann hafi greint frá því að hann vissi ekki hvar hún væri stödd hafi þeir ráðist á hann og hótað honum. Staða hans hafi ekki verið góð á Ítalíu og hann hafi m.a. lent upp á kant við lögregluna. Hann hafi ekki verið með viðeigandi gögn þar í landi og jafnframt ekki átt þess kost að fara með kæranda til Íslands vegna skorts á gögnum. Kærandi hafi kynnst eiginmanni sínum er hún hafi stundað vændi á Ítalíu árið 2009. Hún viti ekki hvers vegna hann hafi flúið Nígeríu þar sem þau hafi ekki rætt það en hún telji þau ekki geta búið saman þar í landi þar sem fyrrnefnd kona líti svo á að hann sé samábyrgur fyrir skuld kæranda og leiti því þeirra beggja. Kærandi hafi ekki heyrt í eiginmanni sínum í langan tíma eftir að hún hafi yfirgefið Ítalíu. Hann sé nú staddur í Frakklandi þar sem staða hans sé slæm en hann hafi engin gögn þar í landi og sofi á götunni. Kærandi sé með sjúkdóm sem kallist fibrosis, auk þess sem hún sé með háan blóðþrýsting og þjáist af verk í maga.
Kærandi krefst þess aðallega að henni verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi, skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Hún óttist ofsóknir vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi sem kona og þolandi mansals, jafnframt vegna trúarbragða þar sem hún sé kristin, sbr. 1. mgr. 37. gr. og 38. gr. laga um útlendinga. Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að henni verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi eigi á hættu að sæta ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð verði henni gert að snúa aftur til heimaríkis. Kærandi telji að einstaklingar í hennar stöðu eigi m.a. á hættu hefndaraðgerðir eða áframhaldandi mansal. Til þrautavara krefst kærandi þess að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Í greinargerð kæranda til kærunefndar eru gerðar ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda og barna hennar, m.a. við mat stofnunarinnar að kærandi muni geta notið stuðnings barnsföður síns í Nígeríu þar sem þau séu gift. Kærandi hafi hins vegar ekki verið í stöðugu sambandi við eiginmann sinn síðastliðið ár og hann sé nú heimilislaus í Frakklandi. Þá hafi kærandi greint frá því að hún hafi ekki vitneskju um ástæður þess að eiginmaður hennar hafi flúið Nígeríu og því geti Útlendingastofnun ekki gengið að því sem gefnu að barnsfaðir kæranda muni fylgja kæranda og börnum þeirra til Nígeríu. Þá hafi jafnframt ekki farið fram viðhlítandi mat á hagsmunum barnanna við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, einkum í ljósi bágrar stöðu móður þeirra og slæmrar andlegrar heilsu hennar. Sonur kæranda, A, hafi verið í ójafnvægi í byrjun skólagöngu hér á landi og grunur hafi vaknað um að hann væri þroskaskertur. Hann hafi náð miklum framförum en farið hafi að bera á sambærilegu ójafnvægi og áður eftir að umsókn fjölskyldunnar um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hafi verið synjað. Það sé því honum fyrir bestu að fá að dvelja áfram hér á landi.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra gagna og upplýsinga. Þá mælir 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga fyrir um að Útlendingastofnun skuli afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga við meðferð mála. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.
Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.
Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.
Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 4. júní 2020, greindi kærandi frá því að eiginmaður hennar væri staddur í Frakklandi. Hún kvað stöðu hans þar vera slæma þar sem hann væri heimilislaus og án allra gagna. Áður hafi hann dvalið á Ítalíu en hann hafi farið í felur þegar senda átti hann til heimaríkis. Samband þeirra hafi verið slitrótt frá því að kærandi hafi farið frá Ítalíu en þau tali saman einu sinni á dag í gegnum samskiptaforrit. Þá kvaðst hún jafnframt ekki vita hvers vegna hann hafi flúið frá Nígeríu þar sem þau hafi ekki rætt það sín á milli. Þrátt fyrir framangreindan framburð kæranda er lagt til grundvallar í ákvörðun Útlendingastofnunar að kæranda og eiginmanni hennar standi til boða að sameinast í heimaríki og að hún muni geta notið stuðnings hans. Að mati kærunefndar verður ekki lesið af gögnum málsins að forsendur séu til slíkrar niðurstöðu. Ekki liggja fyrir upplýsingar um ástæðu flótta eiginmanns kæranda frá Nígeríu eða hvort hann hafi hug á að fara með kæranda og börnum sínum aftur til heimaríkis. Eins og málið liggur fyrir er að mati kærunefndar ekki unnt að leggja til grundvallar að eiginmaður kæranda geti eða muni snúa aftur til heimaríkis með fjölskyldu sinni.
Það er mat kærunefndar að í ljósi þess sem að framan er rakið hafi Útlendingastofnun ekki rannsakað með fullnægjandi hætti stöðu kæranda og barna hennar við endursendingu til heimaríkis og þá sérstaklega hvort tryggt sé að öryggi, velferð og félagslegum þroska barna kæranda verði ekki stefnt í hættu. Er það mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi ekki verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 23. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga.Kærunefnd telur að ekki sé sannanlegt að þessi annmarki hafi í raun ekki haft áhrif á efni ákvarðana stofnunarinnar í málum kæranda og barna hennar.
Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar í málum kæranda og barna hennar og að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á málum þeirra. Kærunefnd telur þann annmarka verulegan og að hann kunni að hafa haft áhrif á niðurstöðu í málum þeirra. Kærunefnd telur jafnframt að ekki sé unnt að bæta úr þeim annmarka á kærustigi og því rétt að mál kæranda og barna hennar hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.
Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda og barna hennar til nýrrar meðferðar. Í ljósi þessarar niðurstöðu er ekki ástæða til umfjöllunar um aðra þætti ákvarðana Útlendingastofnunar.
Úrskurðarorð
Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barna hennar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál þeirra til meðferðar á ný.
The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellant and her children are vacated. The Directorate is instructed to re-examine their cases.
Jóna Aðalheiður Pálmadóttir
Bjarnveig Eiríksdóttir Þorbjörg Inga Jónsdóttir