Hoppa yfir valmynd
28. janúar 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 434/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 434/2020

Fimmtudaginn 28. janúar 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. september 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. ágúst 2020, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 1. apríl 2019 og var umsóknin samþykkt í maí 2019. Í ágúst 2019 óskaði Vinnumálastofnun eftir skýringum kæranda vegna ótilkynntrar dvalar erlendis, auk flugfarseðla og upplýsinga um óuppgefnar tekjur í maí 2019. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 18. september 2019, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda yrðu stöðvaðar með vísan til þess að umbeðin gögn hefðu ekki borist. Kærandi sótti aftur um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 27. mars 2020. Með bréfum Vinnumálastofnunar, dags. 22. maí 2020, var á ný óskað eftir skýringum frá kæranda vegna dvalar erlendis ásamt flugfarseðlum og upplýsingum um tekjur í maí 2019 til að hægt væri að taka afstöðu til réttar hans til atvinnuleysisbóta. Skýringar bárust frá kæranda 29. maí 2020 þar sem fram kom að hann hafi fengið greidda fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi í maí 2019. Þá tók kærandi fram að hann hafi verið erlendis nokkra daga í apríl en að hann ætti ekki flugmiða. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. júní 2020, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að umbeðin gögn hefðu ekki enn borist og því væri umsóknin ófullnægjandi. Þann 13. júlí 2020 barst skýringarbréf frá kæranda og var mál hans því tekið til umfjöllunar á ný. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. ágúst 2020, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að umbeðin gögn hefðu ekki enn borist. Ekki væri ljóst hvort kærandi uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga eða hvort skilyrði um virka atvinnuleit væru uppfyllt, sbr. 1. mgr. 13. og 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Tekið var fram að ef farseðlar eða staðfesting á tíma erlendis myndu berast yrði mál hans tekið fyrir að nýju.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. september 2020. Með bréfi, dags. 4. nóvember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 11. desember 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. desember 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi hefur ekki komið neinum sjónarmiðum á framfæri við úrskurðarnefnd velferðarmála.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Samkvæmt c. lið 13. gr. laga nr. 54/2006 sé eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að þeir séu búsettir og staddir hér á landi. Þá beri atvinnuleitanda án ástæðulausrar tafar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti, sbr. 2. mgr. 14. gr. og 9. gr. laganna. Í umsókn um atvinnuleysisbætur skuli koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda. Þar sem nauðsynleg gögn hafi ekki borist, þrátt fyrir að Vinnumálastofnun hafi óskað eftir þeim, sé umsókn kæranda um atvinnuleysistryggingar ófullnægjandi. Ekki sé ljóst hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga eða hvort skilyrði um virka atvinnuleit, sbr. 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 54/2006, sé uppfyllt.

Vinnumálastofnun hafi ekki borist flugfarseðlar eða staðfesting á tíma kæranda erlendis, þrátt fyrir beiðni stofnunarinnar þar um. Í skýringum kæranda til Vinnumálastofnunar segist hann hafa dvalið erlendis í nokkra daga í umrætt sinn en hann eigi ekki flugmiða sína. Kærandi hafi ekki mætt á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar síðan Vinnumálastofnun hafi óskað eftir upplýsingum um dvöl hans erlendis. Það sé því óljóst hvort kærandi sé staddur á landinu og þá á hvaða tíma kærandi hafi verið staddur á Íslandi þegar hann hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga á árinu 2019. Í ljósi þess hversu auðvelt það sé fyrir einstaklinga að nálgast upplýsingar um flugferðir sínar hjá flugfélögum telji Vinnumálastofnun að skýringar kæranda séu ófullnægjandi. Það sé því  afstaða Vinnumálastofnunar að hafna beri umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur, enda uppfylli kærandi ekki almenn skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga fyrr en umrædd gögn hafi borist stofnuninni.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. ágúst 2020, um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á þeirri forsendu að umsóknin væri ófullnægjandi. Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til þess að þar sem þau gögn sem óskað hafi verið eftir þann 22. maí 2020 hefðu ekki enn borist væri ekki ljóst hvort kærandi uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga eða hvort skilyrði um virka atvinnuleit, sbr. 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, væri uppfyllt. Þau gögn sem Vinnumálastofnun vísar til varða ótilkynnta dvöl kæranda erlendis í apríl 2019, þ.e. flugfarseðla til staðfestingar á tímalengd dvalarinnar. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi brást ekki við beiðni Vinnumálastofnunar um afhendingu gagna og voru greiðslur atvinnuleysisbóta til hans því stöðvaðar, sbr. ákvörðun stofnunarinnar frá 18. september 2019. Sú umsókn sem kemur til skoðunar í þessu máli er frá 27. mars 2020, eða nokkrum mánuðum eftir að greiðslur voru stöðvaðar. Að mati úrskurðarnefndarinnar bar Vinnumálastofnun að leggja sjálfstætt mat á þá umsókn út frá stöðu kæranda á umsóknardegi. Óvissa um tímalengd dvalar kæranda erlendis í apríl 2019 hefur ekki áhrif á síðari umsókn hans og mat á því hvort skilyrði 13. og 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar séu uppfyllt.

Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. ágúst 2020, um að synja umsókn A, um atvinnuleysisbætur er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta