Mál nr. 3/1998
Á L I T
K Æ R U N E F N D A R H Ú S A L E I G U M Á L A
Mál nr. 3/1998
Endurgreiðsla fyrirframgreiddrar leigu.
I. Málsmeðferð kærunefndar.
Með bréfi, dags. 12. mars 1998, beindu A og B, X nr. 12, hér eftir nefnd álitsbeiðendur, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við C, Y nr. 9a, hér eftir nefndur gagnaðili.
Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Athugasemdir hafa ekki borist en frestur var veittur til 10. maí 1998.
Á fundi nefndarinnar 28. maí sl. var málið tekið til úrlausnar.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Með leigusamningi, dags. 11. mars 1997, tóku álitsbeiðendur á leigu kjallaraíbúð í eigu gagnaðila að Z nr. 33. Um var að ræða ótímabundinn leigusamning frá 11. mars 1997. Fjárhæð leigu, kr. 35.000,-, skyldi greiða mánaðarlega fyrsta dag hvers mánaðar og greiddu álitsbeiðendur fyrirfram í upphafi leigutíma 2 mánuði, eða samtals kr. 70.000. Í álitsbeiðni kemur fram að fyrirframgreiðslan hafi átt að vera greiðsla fyrir fyrsta og síðasta mánuðinn sem álitsbeiðendur höfðu húsnæðið á leigu. Álitsbeiðendur hafi flutt úr húsnæðinu 18. febrúar sl., og hafi þá verið búin að greiða leigu fyrir febrúarmánuð. Álitsbeiðendur krefjast því endurgreiðslu fyrirframgreiddrar húsaleigu fyrir febrúarmánuð kr. 35.000.
Krafa álitsbeiðenda er:
Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðendum kr. 35.000, af fyrirframgreiddri húsaleigu.
Í álitsbeiðni kemur fram að vegna ófyrirsjáanlegra atvika hafi álitsbeiðendur þurft að segja húsnæðinu upp 11. febrúar sl. og hafi gagnaðili samþykkt uppsögnina. Álitsbeiðendur telja að þar sem þau hafi verið búin að greiða leigu fyrir febrúarmánuð eigi þau tilkall til þeirrar fjárhæðar sem um ræðir. Fyrirframgreiðslan hafi m.a. verið greidd í upphafi sem síðasti mánuður leigutímans og eigi gagnaðili ekki rétt á tvöfaldri leigugreiðslu fyrir febrúarmánuð. Þá telja álitsbeiðendur að gagnaðili hafi ekki orðið fyrir tjóni af þeirra völdum þar sem nýir leigjendur hafi flutt inn í húsnæðið 1. mars sl. Álitsbeiðendur benda á að úttekt hafi ekki farið fram á íbúðinni við upphaf leigutímans. Þá hafi gagnaðili ekki haft uppi bótakröfu á hendur þeim við lok leigutímans, enda telja álitsbeiðendur að íbúðin hafi ekki orðið fyrir nokkru tjóni af þeirra völdum.
III. Forsendur.
Gagnaðili hefur ekki sent kærunefnd athugasemdir sínar eða komið á framfæri sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 þrátt fyrir að honum hafi verið gefinn kostur á því. Ber því að leggja til grundvallar í málinu atvikalýsingu álitsbeiðenda.
Leigusamningur aðila var ótímabundinn en upphafstími hans var 11. mars 1997. Samkvæmt því sem fram kemur í álitsbeiðni varð samkomulag með aðilum 11. febrúar 1998 um lok leigutíma og fluttu álitsbeiðendur úr húsnæðinu 18. sama mánuðar. Kom nýr leigjandi í húsnæðið 1. mars sl.
Samkvæmt 64. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 skal lýsa skriflega bótakröfu á hendur leigjanda eða hafa uppi áskilnað þar að lútandi innan tveggja mánaða frá skilum húsnæðis. Engar slíkar bótakröfur hafa komið fram af hálfu gagnaðila.
Samkvæmt því sem fram hefur komið í málinu greiddu álitsbeiðendur húsaleigu fyrir febrúar 1998. Álitsbeiðendur eiga því rétt á að fá endurgreidda ofgreidda húsaleigu að fjárhæð kr. 35.000.
III. Niðurstaða.
Það er álit kærunefndar að álitsbeiðendur eiga rétt á því að fá endurgreidda úr hendi gagnaðila ofgreidda húsaleigu að fjárhæð kr. 35.000.
Reykjavík, 28. maí 1998.
Valtýr Sigurðsson
Ólafur Sigurgeirsson
Benedikt Bogason