Hoppa yfir valmynd
25. október 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fundargerð fjármálastöðugleikaráðs 25. október 2021

Fundur haldinn í fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Fundarmenn: Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, Unnur Gunnarsdóttir varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika í Seðlabankanum, Rósa Björk Sveinsdóttir, hagfræðingur á skrifstofu bankastjóra í Seðlabankanum, Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Tinna Finnbogadóttir, ritari fjármálastöðugleikaráðs.

Fundur hófst 11:05

  1. Þróun áhættu í fjármála- og hagkerfinu.

    Seðlabankinn kynnti þróun helstu áhættuþátta á fjármálamarkaði. Fasteignaverð og hlutabréfaverð hafa hækkað töluvert undanfarin misseri. Ólíkt þeim hækkunum hlutabréfaverðs sem sáust í aðdraganda fjármálaáfallsins 2008 eru ekki sterkar vísbendingar um að þær séu skuldadrifnar að þessu sinni. Frávik fasteignaverðs frá ákvarðandi þáttum þess s.s. launavísitölu, vísitölu byggingarkostnaðar og vísitölu leiguverðs hafa farið vaxandi frá því snemma á árinu 2020. Bent var á að skuldir heimila hefðu aukist og væri að mestu leyti um að ræða fasteignalán. Hlutdeild óverðtryggðra lána með breytilega vexti hefur aukist mikið frá byrjun árs 2020 en vaxandi hluti heimila kýs nú að festa vexti. Nokkur umræða varð um skuldir heimilanna, hækkandi raunlaun og stöðuna á vinnumarkaði.

    Í kynningu Seðlabankans kom janframt fram að um nokkurn tíma hafi skuldir fyrirtækja verið að dragast saman að raunvirði og mat bankanna á söfnum fyrirtækjalána er jákvæðara en óttast var að það yrði á þessum tímapunkti við upphaf faraldursins. Vanskilahlutföll hafa jafnframt þróast með hagfelldu móti. Rætt var um rekstrarumhverfi bankanna. Lausafjárstaða þeirra er metin rúm og eiginfjárstaðan sterk. Í þessu samhengi var fjármögnun bankanna rædd og þau góðu kjör sem þeim hafa boðist á lánsfjármörkuðum. Þá var fjallað um áhrif nýlegra vaxtahækkana Seðlabankans á rekstur bankanna. Gengi krónunnar hefði verið tiltölulega stöðugt en Seðlabankinn keypti nokkurn gjaldeyri í sumar.

    Eiginfjárstaða banka og beiting eiginfjárauka var rædd. Í heimsfaraldri kórónuveiru var slökun sveiflujöfnunarauka beitt en ekki hefur verið skoðað til hlítar hvaða áhrif hún hafði á framboð lánsfjár. Ekki er víst að hægt verði að greina það frá öðrum áhrifum, sem stafa t.d. af minnkandi eftirspurn í ákveðnum atvinnugreinum í heimsfaraldrinum sem aftur hefur áhrif á þörf fyrir lánsfé. Faraldurinn virðist ekki hafa náð að laska íslenskt bankakerfi.

  2. Netárásir

    Seðlabankinn kynnti álagsárásir sem gerðar voru á innlend fjármálafyrirtæki í september sl. Rætt var um hvað læra mætti af þessum árásum og hvaða viðbúnað þyrfti að hafa við þeim.

  3. Endurskipulagning fjármálainnviða

    Seðlabankinn mun verða hluthafi í Reiknistofu bankanna og stuðla að breytingum á fjármálainnviðum með því eignarhaldi. Þó nokkur tækifæri eru til hagræðingar sem ætti að draga úr rekstrarkostnaði fjármálafyrirtækja hér á landi. Til stendur jafnframt að koma á nýrri innlendri smágreiðslulausn sem rætt hefur verið um í þó nokkurn tíma

  4. Önnur mál
    1. Rætt um undirbúning vegna fjármögnunar skilasjóðs og möguleika sem er verið að skoða í þeim efnum.
    2. Drög að fréttatilkynningu samþykkt.

Fundi slitið 11:55

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta