Yfirlýsing norrænna geislavarnastofnana um tölvusneiðmyndarannsóknir
Norrænar geislavarnastofnanir hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu um tölvusneiðmyndarannsóknir þar sem áhersla er lögð á að ekki séu framkvæmdar aðrar rannsóknir en þær sem líklegar eru til að hafa jákvæð áhrif á heilsu sjúklinga. Fjöldi tölvusneiðmyndarannsókna hefur aukist verulega á Norðurlöndunum síðastliðin 20 ár.
Geislavarnir ríkisins fjalla um yfirlýsingu norrænu geislavarnastofnananna á vefsíðu sinni þar sem segir meðal annars:
„Tölvusneiðmyndarannsóknir eru meðal öflugustu verkfæra læknisfræðinnar og hefur notkun þeirra aukist mjög á Norðurlöndum undanfarin ár. Þeim getur fylgt viss áhætta og því leggja norrænar geislavarnastofnanir áherslu á, í sameiginlegri yfirlýsingu, að ekki séu framkvæmdar aðrar rannsóknir en þær sem líklegar eru til að hafa jákvæð áhrif á heilsu sjúklinga.
Tölvusneiðmyndarannsóknir valda mun hærra geislaálagi sjúklinga, en almennar röntgenrannsóknir. Á Norðurlöndunum hefur fjöldi tölvusneiðmyndarannsókna aukist verulega á síðustu 20 árum og valda þær nú 50–80% af geislaálagi íbúa Norðurlanda vegna læknisfræðilegrar myndgreiningar. Á Íslandi er það um 74% af geislaálaginu samkvæmt skýrslu Geislavarna frá 2011, sjá skýrslu GR 11:02.“