584 milljónir til ferðamannastaða hringinn í kringum landið: Sækjum íslenska áfangastaði heim í sumar!
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála, menningar- og viðskiptaráðherra hefur úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða árið 2022. Að þessu sinni er úthlutunin rúmlega 584 milljónir króna en hæsti einstaki styrkurinn er 55 milljónir kr. Framkvæmdasjóðurinn fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Mikill árangur hefur náðst í starfi sjóðsins í að bæta innviði um land allt og auka getu svæðanna til að taka á móti ferðamönnum.
„Íslensk ferðaþjónusta hefur nýtt tímann vel undanfarið, þrátt fyrir flóknar áskoranir, og staðið vel og rækilega að uppbyggingu. Það þýðir að hringinn í kringum landið hafa verið byggðir upp einstakir áfangastaðir og í öllum landshlutum má finna hlaðborð menningar, nýsköpunar og ferðaþjónustu. Mig langar að hvetja ykkur öll til að ferðast um Ísland, heimsækja stórfenglega náttúru okkar og upplifa menninguna hringinn í kringum landið,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra.
Verkefnin sem hljóta styrk eru að vanda afar fjölbreytt en hverfast öll um öryggi ferðamanna, bætt aðgengi, bætta innviði, náttúruvernd og sjálfbærni. Ráðherra hyggist heimsækja fjölda áfangastaða sem hafa fengið styrki úr sjóðnum á undanförnum árum á kjörtímabilinu.
„Styrkirnir fara til verkefna hringinn í kringum landið, stórra sem smárra, sem öll skipta máli. Uppbyggingin er grundvölluð á heildarsýn fyrir hvern landshluta og áfangastaðaáætlanir. Styrkur úr sjóðnum stuðlar að bættri upplifun og aðgengi ferðamanna, bættu öryggi og við styðjum við viðkvæma náttúru landsins. Með þessu stuðlum við að sjálfbærni þeirra og tryggjum framtíð þeirra sem áfangastaða um ókomna tíð,“ segir ráðherra.
Öryggismál, útsýnisstígar, hönnun og framkvæmdir
Alls bárust 154 umsóknir um styrki að fjárhæð kr. 2.715.357.819,- til verkefna að heildarfjárhæð kr. 3.607.541.198.
Þau verkefni sem fá einna hæstu styrkina að þessu sinni eru meðal annars:
- Fossabrekkur 55.200.000 kr.
Styrkur vegna hönnunar og framkvæmdar í samræmi við deiluskipulag. Verkefnið eykur öryggi ferðamanna og aðgengi að náttúrunni.
- Öryggismál og aðgengi við Norðurfjarðarhöfn 55.000.000 kr.
Styrkur til í að hámarka upplifun gesta, tryggja öryggi þeirra og um leið að efla núverandi samfélag og þá þjónustu sem það vill bjóða upp á. Lögð verður áhersla á að vinna með vistvænar lausnir í framkvæmdum og í öllum innviðum. Að flétta saman sjávarplássið við Norðurfjörð, þjónustu við ferðamenn í sátt og samlyndi við íbúa og náttúru.
- Bætt öryggi með nýjum útsýnisstíg vegna Eyjafjallagossins 35.837.307 kr.
Katla jarðvangur fær styrk til að klára að hanna og deiliskipuleggja og síðan framkvæma stíg ásamt útsýnishól þar sem umfjöllun Eyjafallagossins verður gerð góð skil. Verkefnið er sérstaklega brýnt vegna öryggissjónarmiða ferðamanna.
- Útsýnis - og áningastaðir á austurbakka Stuðlagils 31.250.044 og Stuðlagil - bætt öryggi við aðkomu 22.590.000 kr.
Tvö verkefni fá styrk í tengslum við Stuðlagil að þessu sinni. Annað þeirra er styrkur til að bæta öryggi við aðkomu göngufólks og umferð bíla að gilinu (yfirborðsvinnu). Verkefnið stuðlar að náttúruvernd og bætir úr öryggi ferðamanna á mjög fjölförnum ferðamannastað. Hitt verkefnið snýr að útsýnis- og áningarstað á austurbakka gilsins. Framkvæmdirnar fela í sér uppbyggingu á útsýnisstöðum og áningarstöðum í og við Stuðlagil í landi Klaustursels. Uppbygging felst í gerð verkhönnunar og verklegum framkvæmdum vegna útsýnis- og áningarstaða. Einnig að koma upp varanlegum varúðar- og upplýsingaskiltum í og við Stuðlagil austanvert. Á skiltum verða gestir upplýstir um hættur á svæðinu t.d. grjóthrun og fallhættu, ásamt fræðslu um sögu og menningu svæðisins.
Vel heppnaðar framkvæmdir hringinn í kring um Ísland
Þá er vert að taka fram að síðastliðin tvö ár hafa verið metár með tilliti til umfangs framkvæmda á ferðamannastöðum auk þess sem sjóðurinn hefur fengið auknar fjárveitingar.
Um land allt eru því vel heppnaðar stórar sem smáar framkvæmdir sem sjóðurinn hefur styrkt til að auka öryggi ferðamanna. Þar má t.d. nefna framkvæmdir vegna gossins í Geldingadölum, framkvæmdir við Brimketil á Reykjanesi, Stuðlagil á Austurlandi og Bolafjall á Vestfjörðum en einnig smærri framkvæmdir sem stuðla t.d. að bættri aðkomu ferðafólks, bættum innviðum og auknu aðgengi samhliða verndun á íslenskri náttúru.