Hoppa yfir valmynd
11. júlí 2017 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 416/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 11. júlí 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 416/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17050021

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 9. maí 2017 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. apríl 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Svíþjóðar.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar með vísan til 1., 2. og 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Til vara er gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 18. janúar 2017. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 18. janúar 2017, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Svíþjóð og Grikklandi. Þann 8. febrúar 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Svíþjóð, sbr. 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 21. febrúar 2017 barst svar frá sænskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli 5. mgr. 20. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 28. apríl 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Svíþjóðar. Kærandi kærði ákvörðunina við birtingu þann 9. maí 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 23. maí 2017, ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Svíþjóðar. Lagt var til grundvallar að Svíþjóð virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Svíþjóðar ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat stofnunarinnar að sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Svíþjóðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar að stofnunin hafi komist að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi verið 18 ára þegar hann hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi en kærandi undirgekkst aldursgreiningu þann 3. febrúar 2017. Í viðtali við kæranda hafi komið fram að hann sé áhyggjufullur og haldinn streitu. Þá hafi hann kveðið að […] hafi beitt hann ofbeldi. Með hliðsjón af ungum aldri, andlegri líðan og því að kærandi hafi ítrekað verið beittur ofbeldi var það mat Útlendingastofnunar að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Í ákvörðuninni var rakið að í sænska hæliskerfinu fari viðkvæmir einstaklingar í ákveðið ferli sem ákveðið sé af sérfræðingum sem hafi fengið sérstaka þjálfun í því að taka viðtöl við og annast einstaklinga sem séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Þá hafi mannréttindasáttmáli Evrópu ekki sérstakt ákvæði sem varði umsækjendur um alþjóðlega vernd sem séu í minnihlutahópi og því verði að miða við 3. gr. mannréttindasáttmálans þegar verið sé að flytja umsækjendur milli landa en Mannréttindadómstóll Evrópu hafi sett háan þröskuld við mat á þessu þar sem ill meðferð þurfi að ná ákveðnu lágmarks alvarleikastigi til að falla undir gildissvið ákvæðisins. Var það því mat Útlendingastofnunar að sérstaklega viðkvæm staða kæranda komi ekki í veg fyrir að hann verði sendur til Svíþjóðar. Þá var vísað til þess að öllum umsækjendum um alþjóðlega vernd í Svíþjóð sé boðið í heilsufarsskoðun og að minnsta kosti helmingur umsækjenda nýti sér slíka skoðun. Þá eigi umsækjendur rétt á allri nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu í Svíþjóð.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að í viðtali hans hjá Útlendingastofnun hafi komið fram að kærandi hafi lifað við stöðuga streitu og áhyggjur. Hann sé hræddur við að vera sendur aftur til Svíþjóðar og hann óttist dreng sem hafi ráðist á hann í námunda við flóttamannabúðirnar í Svíþjóð.

Greint er frá því í greinargerð kæranda að hann hafi komið til Íslands þann 18. janúar 2017. Við komuna til landsins hafi kærandi kveðið að hann væri 17 ára gamall. Undir meðferð málsins hjá Útlendingastofnun hafi kærandi gengist undir tannrannsókn og niðurstaðan hafi verið sú að hann væri eldri en 18 ára. Þá hafi kærandi lagt fram […] fæðingarvottorð og mat Útlendingastofnunar hafi verið að vottorðið breyti ekki niðurstöðu stofnunarinnar um að kærandi sé eldri en 18 ára. Að sögn kæranda komi fram á vottorðinu að hann hafi orðið 17 ára árið 2016 en ekki að hann hafi verið orðinn 17 ára þegar vottorðið hafi verið gefið út. Kærandi kvaðst ekki vita nákvæman fæðingardag sinn en sænsk stjórnvöld hafi skráð fæðingardag hans þann […]. Kærandi hafi því verið 17 ára þegar hann hafi komið hingað til lands í janúar sl. Í ljósi þessa sé stjórnvöldum ekki stætt á því að byggja ákvörðun um aldur kæranda á niðurstöðu úr tanngreiningu. Þá sé vakin athygli á lokamálslið 1. mgr. 113. gr. laga um útlendinga þar sem fram komi að niðurstaða úr líkamsrannsókn skuli metin í samhengi við önnur atriði málsins og vafi metinn umsækjanda í hag.

Til vara byggir kærandi á því að með ákvörðun sinni hafi Útlendingastofnun brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar sem lögfest sé í 10. gr. stjórnsýslulaga þar sem hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga. Af hálfu kæranda er því haldið fram að rannsókn Útlendingastofnunar sé verulega ábótavant í málinu, annars vegar hvað varði ákvörðun á aldri og hins vegar hvað varði almenna upplýsingaöflun varðandi aðstæður kæranda í Svíþjóð en hann hafi að takmörkuðu leyti verið spurður út í aðstæður sínar þar. Kærandi mótmæli endursendingu til Svíþjóðar með vísan til 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar en þar sé fjallað um fylgdarlaus börn. Í niðurstöðum tanngreiningar komi fram að það sé mat tannlækna að kærandi sé eldri en 18 ára. Gerð er athugasemd við að engin staðalfrávik séu sett fram á þeirri niðurstöðu né heldur fundið meðaltal þeirra þriggja aðferða sem stuðst sé við líkt og lengst af hafi verið gert í sambærilegum rannsóknum. Þá hafi í rannsókninni verið bætt inn mati á þroskastigi neðri góms endajaxla sem sé talið vera a.m.k. 20,5 ár og staðalfrávik 1,97 ár en þessi aðferð hafi ekki verið notuð í fyrri greiningum. Af hálfu kæranda er byggt á því að breytt framsetning hafi leitt til þess að niðurstaða í máli kæranda sé önnur en í þremur sambærilegum málum frá því í september sl. en aðferðafræðin og niðurstaðan hafi verið sú sama og því hefði átt að fara með mál kæranda eins og hin þrjú málin. Annað sé brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar sem lögfest sé í 11. gr. stjórnsýslulaga en leysa beri úr sambærilegum málum á grundvelli sömu sjónarmiða. Verði breyting á stjórnsýsluframkvæmd skuli slík breyting vera gerð á grundvelli málefnalegra sjónarmiða, vera almenn og tilkynnt fyrirfram þannig að þeir aðilar sem málið snerti geti brugðist við og gætt hagsmuna sinna.

Þá er vísað til alþjóðlegra skýrslna um aðferðir við aldursgreiningu í Evrópu. Þar komi m.a. fram að töluverð ónákvæmni sé falin í því að nota endajaxla til þess að reikna út aldur. Hafa beri tiltekin sjónarmið til hliðsjónar í Dyflinnarmálum þar sem niðurstöður aldursgreiningar hafi úrslitaáhrif um endursendingu. Í fyrsta lagi þurfi að kanna hvort viðkomandi hafi verið látinn njóta vafans. Í öðru lagi þurfi að tryggja einstaklingum kæruleiðir þegar aldursgreining leiði til þess að ekki sé farið með einstakling sem barn. Af hálfu kæranda er því haldið fram að þessum sjónarmiðum hafi ekki verið fylgt í máli kæranda. Þá skuli ekki leggja tannskoðun eina og sér til grundvallar aldursgreiningu. Vísað er til athugasemda með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 80/2016 um útlendinga en þar sé lagt til að gengið verði út frá því að umsækjandi um alþjóðlega vernd sem segist vera barn sé álitinn barn við meðferð máls nema það þyki afar ósennilegt eða annað komi í ljós, t.a.m. með aldursgreiningu. Takist ekki að leiða í ljós aldur umsækjanda með nægilega tryggum hætti, þrátt fyrir aldursgreiningu, skuli viðkomandi njóta vafans og vera meðhöndlaður sem barn. Af hálfu kæranda er því haldið fram að ljóst sé að vafi leiki á aldri hans. Þá liggi fyrir að sænsk stjórnvöld hafi metið uppgefinn aldur kæranda trúverðugan og skráð fæðingardag hans þann […]. Að lokum liggi fyrir fæðingarvottorð þar sem fram komi að kærandi yrði 17 ára árið 2016. Kærandi hafi hvorki verið látinn njóta þess vafa sem leiki á aldri hans, né hafi hagsmunir hans verið hafðir að leiðarljósi í málinu.

Fram hafi komið í málinu að kærandi hafi búið við viðvarandi og alvarlegt ofbeldi af hálfu […]. Það eitt og sér, auk þeirrar staðreyndar að kærandi sé mjög ungur að árum, setji hann í viðkvæma stöðu skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun hafi fallist á í hinni kærðu ákvörðun að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu en að það komi ekki í veg fyrir að hann verði sendur áfram til Svíþjóðar. Þá er fjallað um það í greinargerð kæranda að við töku ákvarðana í málum er varða börn skuli m.a. hafa það að leiðarljósi hvað sé barninu fyrir bestu og vísað m.a. til 1. mgr. 6. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga í því samhengi. Verði að líta svo á að sú afstaða kæranda sjálfs að vilja ekki vera endursendur til Svíþjóðar vegi þyngst við mat á því hvað sé honum fyrir bestu.

Almenna umfjöllun um hæliskerfið í Svíþjóð er að finna í greinargerð kæranda. Fram kemur að mikið álag hafi verið á kerfinu undanfarið og að mikill fjöldi fylgdarlausra barna hafi leitað hælis á undanförnum misserum. Vegna álagsins sé misbrestur á því að sum börn fái þá umönnun og athygli sem þau þarfnist og eigi rétt á. Þá hafi þann 20. júlí 2016 tekið gildi tímabundnar breytingar á sænsku útlendingalögunum og sé breytingunum ætlað að vara í þrjú ár eða til ársins 2019. Breytingarnar leiði til þess að nú sé sænskum stjórnvöldum heimilt að gefa út tímabundin dvalarleyfi til fylgdarlausra barna sem fresti endursendingu þeirra til 18 ára aldurs, í þeim tilvikum þegar sænsk stjórnvöld telji þau ekki vera flóttamenn en börnin hafi enga ættingja sem geti séð fyrir þeim við komuna til heimalands. Áður fyrr hafi börn í álíka stöðu fengið varanlegt dvalarleyfi. Þá hafi í febrúar sl. gengið yfir bylgja sjálfsmorða ungra […] umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð. Á nokkurra daga tímabili hafi […] umsækjendur undir 18 ára aldri reynt að taka eigið líf með þeim afleiðingum að […] þeirra hafi látist. Bylgjan hafi átt sér stað á sama tíma og sænsk stjórnvöld hafi hert reglur um fylgdarlaus börn í leit að vernd. Staða […] almennt hafi að undanförnu versnað til muna í hæliskerfinu í Svíþjóð en sænsk stjórnvöld virðist í auknum mæli skilgreina […] sem öruggt ríki þrátt fyrir það alvarlega ástand sem þar ríki. Þá ríki töluverð spenna í Svíþjóð í tengslum við þann mikla fjölda fólks sem leiti verndar í landinu og hafi hatur á útlendingum gert vart við sig í meira mæli en áður.

Kærandi byggir á því í greinargerð sinni að c-liður 1. mgr. 36. gr. laganna kveði einungis á um heimild til handa stjórnvöldum til að synja kæranda um efnismeðferð umsóknar sinnar en ekki skyldu. Sérstakar ástæður séu fyrir hendi í máli kæranda, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og því beri stjórnvöldum skylda til að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar með vísan til 1.- 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að sænsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli 5. mgr. 20. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Svíþjóðar er byggt á því að kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd þar í landi. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar. Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Fram hefur komið í málinu að kærandi kom til landsins þann 18. janúar 2017 og kvaðst hann vera 17 ára gamall. Útlendingastofnun sendi sænskum yfirvöldum beiðni um endurviðtöku á kæranda þann 27. janúar 2017. Sænsk stjórnvöld höfnuðu beiðninni á grundvelli 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi væri skráður sem fylgdarlaust barn í Svíþjóð en hann hafði ekki gengist undir aldursgreiningu þar í landi. Kærandi fór því í kjölfarið í tannrannsókn til greiningar á aldri hans þann 3. febrúar 2017. Niðurstaða rannsóknarinnar var að kærandi væri eldri en 18 ára. Var niðurstaðan byggð á sameiginlegu mati á sjúkrasögu, klínískri skoðun, aldursútreikningum og röntgenmyndum. Í kjölfar niðurstöðu tanngreiningarinnar sendi Útlendingastofnun sænskum stjórnvöldum nýja beiðni um viðtöku þann 8. febrúar 2017. Með bréfi dags. 21. febrúar 2017 féllust sænsk stjórnvöld á beiðni Útlendingastofnunar um endurviðtöku á grundvelli 5. mgr. 20. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Við meðferð máls síns hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram fæðingarvottorð á […] útgefið af […] yfirvöldum. Var það mat stofnunarinnar að vottorðið sé ótrúverðugt og breytti ekki niðurstöðu þeirra um að kærandi sé eldri en 18 ára. Þann 23. júní 2017 kom túlkur fyrir kærunefnd og þýddi skjalið. Á skjalinu kemur hvergi fram fæðingardagur kæranda en inn á skjalið er handritað að hann hafi verið 17 ára gamall […] 2016. Aðrar upplýsingar um aldur kæranda eða fæðingardag hans er ekki að finna í framlögðu skjali.

Kærunefnd hefur farið yfir öll fyrirliggjandi gögn er varða aldur kæranda. Fyrir liggur að kærandi hefur gefið upp fæðingardaginn […] við íslensk stjórnvöld en hann hefur jafnframt borið að hann viti ekki nákvæman fæðingardag sinn. Niðurstaða tanngreiningar sem gerð var á kæranda hér á landi er að kærandi sé eldri en 18 ára. Í gögnum frá sænskum stjórnvöldum er kærandi skráður með fæðingardag […] en jafnframt liggur fyrir að engin aldursgreining fór fram í Svíþjóð. Þá hefur kærandi lagt fram skjal sem hann kveður vera fæðingarvottorð en samkvæmt þýðingu ber skjalið ekki með sér fæðingardag kæranda en inn á það hefur verið handritað að kærandi hafi verið 17 ára gamall í […] 2016.

Samkvæmt 1. mgr. 113. gr. laga um útlendinga skal niðurstaða úr líkamsrannsókn vegna aldursgreiningar vera metin í samhengi við önnur atriði málsins og allan vafa um aldur kæranda skal meta honum í hag. Niðurstaða úr líkamsrannsókn vegna aldursgreiningar kæranda er að hann sé eldri en 18 ára. Að mati kærunefndar er töluvert ósamræmi milli gagna sem kærandi hefur lagt fram sem hann telur sýna fram á að hann sé yngri en 18 ára. Í því sambandi er tekið fram að samkvæmt uppgefnum fæðingardegi hefði kærandi átt að vera 16 ára gamall í september sl. en ekki 17 ára líkt og hann kveður fæðingarvottorð sitt segja til um. Þá verður að líta til þess að kærandi hefur sjálfur borið að hann viti ekki nákvæman fæðingardag sinn. Þrátt fyrir að kærandi hafi verið samkvæmur sjálfum sér í framburði í viðtölum um að hann sé 17 ára telur kærunefnd, með vísan til fyrirliggjandi gagna, að ekki sé fyrir hendi vafi um að kærandi sé nú eldri en 18 ára. Leggur kærunefnd því til grundvallar að kærandi sé fullorðinn einstaklingur við meðferð málsins.

Vegna athugasemda í greinargerð tekur kærunefnd fram að þótt fyrir liggi að framsetning niðurstaða greininga á tönnum hafi áður verið með öðrum hætti telur kærunefnd að í máli kæranda sé niðurstaða úr líkamsrannsókn umræddra tannlækna ótvíræð um að kærandi sé 18 ára. Beri því að líta til þeirrar niðurstöðu við mat á aldri kæranda, sbr. orðalag 2. málsl. 1. mgr. 113. gr. laga um útlendinga. Niðurstaða úr líkamsrannsókn er þó ávallt metin í samhengi við önnur atriði málsins.

Kærandi sem er ungur karlmaður greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 30. mars 2017 að líkamleg heilsa hans sé góð en hvað andlega heilsu varði þá sé hann stöðugt stressaður og áhyggjufullur. Þá hefur kærandi greint frá því að hann hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu […] í heimaríki. Skilgreiningu á einstaklingi í sérstaklega viðkvæmri stöðu er að finna í 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga en þar kemur fram að átt sé við einstaklinga sem hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögunum án aðstoðar eða sérstaks tillits, t.d. fylgdarlaus börn, fólk með geðraskanir, alvarlega veikir einstaklingar eða einstaklingar sem orðið hafa fyrir alvarlegu líkamlegu ofbeldi. Kærandi var metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu undir málsmeðferð sinni hjá Útlendingastofnun, með hliðsjón af ungum aldri, andlegri líðan og því að kærandi hafi ítrekað verið beittur ofbeldi. Kærunefnd telur sig ekki hafa forsendur til að breyta því mati stofnunarinnar og leggur því til grundvallar að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Svíþjóð, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Asylum Information Database, National Country Report: Sweden (European Council on Refugees and Exiles, mars 2017),
  • Amnesty International Report 2016/17 (Amnesty International, 22. febrúar 2017),
  • Annual Report on the Situation of Asylum in the European Union 2015 (European Asylum Support Office, 8. júlí 2016),
  • Freedom in the World 2016 – Sweden (Freedom House, 29. júní 2016),
  • Sweden 2016 Human Rights Report (United States Department of State, 3. mars 2017),
  • Good Advice for Asylum seekers in Sweden (The Swedish Network of Refugee Support Group, júní 2015),
  • Observations by the United Nations High Commissioner for Refugees Regional Representation for Northern Europe on the draft law proposal on restrictions of the possibility to obtain a residence permit in Sweden (The UN High Commissioner for Refugees, 10. mars 2016) og
  • Upplýsingar af vefsíðu sænsku útlendingastofnunarinnar (www.migrationsverket.se).

Í framangreindum gögnum kemur fram að sænska útlendingastofnunin (s. Migrationsverket) tekur ákvarðanir er varða umsóknir um alþjóðlega vernd. Umsækjandi um alþjóðlega vernd á þess kost að bera synjun útlendingastofnunarinnar á umsókn sinni undir stjórnsýsludómstól (s. Migrationsdomstolen) og þeim dómi er unnt að áfrýja til áfrýjunardómstóls (s. Migrationsöverdomstolen). Umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem hafa fengið endanlega synjun á umsókn sinni hjá sænsku útlendingastofnuninni og framangreindum dómstólum, eiga þess kost að leggja fram viðbótarumsókn hjá sænsku útlendingastofnuninni, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ef nýjar upplýsingar eða ný gögn liggja fyrir í máli umsækjanda, aðstæður hafa breyst verulega eða verulegir annmarkar hafa verið á fyrri málsmeðferð, geta skilyrði fyrir viðbótarumsókn verið uppfyllt. Synjun sænsku útlendingastofnunarinnar um að taka viðbótarumsókn til skoðunar má kæra og engin takmörk eru á því hversu oft umsækjandi getur lagt fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd. Umsækjendur eiga rétt á takmarkaðri félagslegri aðstoð á meðan viðbótarumsókn er til meðferðar. Þá eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Svíþjóð er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir sambandsins vegna meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Samkvæmt framangreindum skýrslum um aðstæður og aðbúnað umsækjenda í Svíþjóð eiga þeir rétt á húsnæði, mataraðstoð og vasapeningum, geti þeir ekki framfleytt sér sjálfir. Að sama skapi er umsækjendum tryggður aðgangur að grunnheilbrigðisþjónustu.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er ljóst að sænsk stjórnvöld uppfylla skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd skv. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar. Þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd leggja fram umsókn um vernd í Svíþjóð í fyrsta skipti eiga þeir rétt á lögfræði- og túlkaþjónustu án endurgjalds þegar umsókn er til meðferðar hjá sænsku útlendingastofnuninni og á kærustigum málsins. Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga hins vegar ekki rétt á lögfræðiþjónustu án endurgjalds við að leggja fram viðbótarumsókn en þeir geta átt rétt á að fá tilnefndan lögmann ef sænska útlendingastofnunin samþykkir að taka viðbótarumsóknina til skoðunar. Frí túlkaþjónusta er ekki í boði við framangreinda málsmeðferð. Umsækjendur um alþjóðlega vernd geta einnig leitað til frjálsra félagasamtaka, t.d. ráðgjafarmiðstöðvar (s. Rådgivningsbyrån) sem veitir lögfræðiaðstoð og ráðgjöf.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending umsækjenda um alþjóðlega vernd til Svíþjóðar brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að umsækjendum um alþjóðlega vernd séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Svíþjóð bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ennfremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Svíþjóðar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Í fyrrgreindum skýrslum um aðstæður í Svíþjóð kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa á að halda fram að brottflutningi þeirra frá landinu. Þó svo að mikið álag sé á hæliskerfi Svíþjóðar um þessar mundir telur kærunefnd ekki forsendur til annars, í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í landinu, en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi geti leitað sér heilbrigðisþjónustu við hæfi þar í landi. Þá er það mat kærunefndar að gögn málsins beri ekki með sér að heilsufar kæranda sé með þeim hætti að framkvæmd synjunar á efnismeðferð umsóknar hans hafi í för með sér verulegar og óafturkræfar afleiðingar fyrir heilsufar hans. Í ljósi aðstæðna í Svíþjóð og að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það því mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi slíkar sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 30. mars 2017 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 18. janúar 2017.

Líkt og fram hefur komið gerir kærandi athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi telur að rannsókn Útlendingastofnunar hafi verið ábótavant þar sem ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga og kærandi hafi að takmörkuðu leyti verið spurður út í aðstæður sínar í Svíþjóð. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Um frekari afmörkun á hversu ítarlega beri að rannsaka mál er litið til eðlis og atvika málsins. Kröfur til rannsóknarinnar ráðast þannig m.a. af því hvers konar upplýsingar liggja þegar fyrir í málinu og þá hvort með tilliti til eðlis málsins sé rétt að afla frekari gagna. Rannsóknarreglan gerir kröfu um að stjórnvöld afli gagna sem eru fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna, sbr. jafnframt 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga þar sem fram kemur að við meðferð mála er varða umsóknir um alþjóðlega vernd skuli afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Kærunefnd útlendingamála hefur farið yfir öll gögn varðandi mál kæranda og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Af rökstuðningi Útlendingastofnunar fyrir niðurstöðu sinni má sjá að stofnunin kynnti sér aðstæður í Svíþjóð sem og einstaklingsbundnar aðstæður kæranda. Þá má ráða af viðtali sem tekið var við kæranda þann 30. mars 2017 að stofnunin spurði kæranda út í aðstæður hans í Svíþjóð og málsmeðferðina þar í landi, m.a. hvort hann hafi fengið lögfræðiaðstoð, dagpeninga og heilbrigðisaðstoð. Þá er það mat kærunefndar í ljósi framburðar kæranda að ekki hafi verið tilefni til að afla sérstaklega frekari upplýsingar um andleg heilsufar kæranda. Er það afstaða kærunefndar að ekkert bendi til þess að slíkur ágalli hafi verið á rannsókn málsins hjá Útlendingastofnun þannig að fella beri ákvörðun stofnunarinnar úr gildi. Varakröfu kæranda er því hafnað.

Í máli þessu hafa sænsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Svíþjóðar með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir, varaformaður

 

Erna Kristín Blöndal                                                                             Þorbjörg Inga Jónsdóttir 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta