Óvíst með möguleika á heimkomu eftir páska
Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hefur vakið athygli á því við Íslendinga sem staddir eru erlendis og hyggja á heimferð, að nýta sér ferðir Icelandair frá London og Boston næstu daga, auk flugferða frá Stokkhólmi á morgun, þriðjudag, og frá Alicante á Spáni á miðvikudag. Þessar ferðir eru samkvæmt samkomulagi sem íslensk stjórnvöld gerðu nýlega við Icelandair, og gildir að svo stöddu til 15. apríl. „Flugsamgöngur munu ekki falla niður með öllu eftir 15. apríl, en enn er ekki ljóst hvernig þeim verður háttað,“ segir í bréfi borgaraþjónustunnar.
Í bréfinu, sem borgaraþjónustan hefur sent til Íslendinga sem hafa skráð sig í gagnagrunn þjónustunnar og eru samkvæmt henni staddir erlendis, kemur fram að önnur flug en þau sem Icelandair býður upp á til Íslands gætu fallið niður, þótt þau virðist enn á áætlun samkvæmt bókunarsíðum flugfélaganna. Sama á við um önnur millilandaflug. „Hafi flug ítrekað verið felld niður er það sterk vísbending um að svo verði einnig með flug sem er á áætlun næstu daga. Ástæðan er sú að mörg flugfélög hafa ekki getað fellt niður flug úr bókunarkerfum sínum nema með eins til tveggja sólarhringa fyrirvara.“ Í þessu samhengi má nefna að ört hefur dregið úr framboði á áætlunarflugi og mörg flugfélög hafa þegar lagt flugflota sínum.
Engin sjálfkrafa framlenging á vegabréfsáritunum í Bandaríkjunum
Borgaraþjónustan hefur einnig vakið athygli á því við Íslendinga sem staddir eru í Bandaríkjunum að þeir sem hafa ekki lögmæta ástæðu til að framlengja dvöl sína í Bandaríkunum umfram það sem ESTA ferðaheimild þeirra segir til um, fái ekki sjálfkrafa framlengingu á sinni ESTA áritun, og að þeir sem dvelji þar fram yfir gildistíma áritunarinnar megi búast við að sæta endurkomubanni til Bandaríkjanna. „Eingöngu þeir sem hafa lögmæta ástæðu til að hafa ekki flýtt heimför, s.s. sjúkrahúsvist eða aðrar slíkar ófyrirsjáanlegar ástæður, geta fengið framlengingu,“ segir í orðsendingu borgaraþjónustunnar.
Helstu ferðaupplýsingar um einstök ríki er að finna á vef Stjórnarráðsins, www.utn.is/ferdarad, og á samfélagsmiðlum utanríkisráðuneytisins, m.a. www.facebook.com/utanrikisthjonustan. Frekari ráðleggingar og aðstoð má fá hjá borgaraþjónustunni í síma +354-545-0-112 og með tölvupósti á netfangið [email protected]