Hoppa yfir valmynd
4. janúar 2019 Utanríkisráðuneytið

Besta fjárfestingin í Malaví?

Unglingsstúlkur í Malaví. Ljósmynd: gunnisal - mynd

Svar: Að enda barnahjónabönd og ótímabærar barneignir sem þeim fylgja og að mennta stúlkur til 18 ára aldurs.

Það var kærkomin tilbreyting í síðastliðnum desember að fara á fund hjá Alþjóðabankanum í Lilongwe og heyra hagfræðing bankans kynna athugun bankans á kostnaðinum sem fylgir barnahjónaböndum og ótímabærum barneignum sem þeim fylgja.  Áttunda tölublað Malaví hagtíðinda, sem Alþjóðabankinn gaf út í nóvember 2018, ber nefnilega yfirskriftina “Að fjárfesta í menntun stúlkna” og fjallar meðal annars um efnahagslegar afleiðingar þess hversu tiltölulega fáar stúlkur ljúka framhaldsskóla í Malaví miðað við nágrannalöndin og afleiðingar  barnahjónabanda og barneigna meðal stúlkna undir átján ára aldri.

Allt í einu var þetta “félagslega”, “mjúka” mál sem einkum jafnréttis- og kvennasamtök hafa fjallað um á fundum sínum, orðið grjóthart umræðuefni sem fyrrverandi seðlabankastjórar og hagfræðiprófessorar í salnum gátu lýst skoðun sinni og andúð á.

Sem betur fer holar dropinn steininn og allar götur síðan stjórnarskránni var breytt árið 2017 og barnahjónabönd endanlega bönnuð hafa framámenn og konur barist ötullega gegn þessari þjóðarskömm. Það er til marks um breyttan tíðaranda í Malaví að í blaðagrein í nóvember á síðasta ári var fjallar um barnahjónabönd – og sagt að réttnefnið væri “kynferðisofbeldi gegn börnum”.

Í skýrslu Alþjóðabankans er sett fram athyglisvert orsakasamhengi milli barnahjónabanda, barneigna ungra stúlkna og skólagöngu þeirra. Það er næsta víst að hvert ár sem unglingsstúlka gengur menntaveginn minnkar líkurnar töluvert á því að hún giftist og eignist börn undir átján ára aldri. Barnahjónabönd ýta einnig undir barneignir. Mesti ávinningurinn er af því að koma í veg fyrir barneignir stúlkna undir átján ára aldri og lækka þar með fæðingartíðni í landinu og koma í veg fyrir ýmsan kostnað sem fylgir því að börn ala börn.

Neikvæð áhrif barnahjónabanda og ótímabærra barneigna sem þeim fylgja eru víðfeðm og tölfræðilega marktæk. Eins og áður er getið auka þau á fólksfjölgun og frjósemi landsmanna, ungbarnadauði er meiri sem og líkur á þroskaskerðingu barnanna. Ungar mæður eru ólíklegri til að hafa launaða vinnu sem aftur dregur úr ævitekjum.  Aukin þörf er fyrir heilbrigðisþjónustu fyrir ungar mæður m.a. vegna áhættu við fæðingu sem er margföld á við fullorðna. Fistúla er til dæmis mun algengari meðal þeirra. Ekki síst er sú staðreynd mjög sorgleg að flestar mæður sem látast af barnsförum í Malaví eru barnungar.

Ef Malaví hefði lánast að enda barnahjónabönd árið 2015 þegar yfirlýsingar þess efnis voru gefnar af stjórnvöldum, hefði þjóðhagslegur ávinningur af minni fólksfjölgun, numið 500 miljónum bandarískra dollara á 15 árum.

Í niðurlagi skýrslunnar vilja höfundarnir þó taka fram að við ákvarðanir um að enda barnahjónabönd og barneignir þeim tengdum, megi ekki einungis líta á hinn efnahagslegu þætti.  Þeir séu mikilvægir út af fyrir sig, en aðal hvatinn hljóti að vera sá að koma í veg fyrir þjáningar og umtalsverða lífshættu fyrir ungar mæður og börn þeirra. 

Að enda barnahjónabönd, koma í veg fyrir barneignir ungra stúlkna og auka tækifæri þeirra til menntunar, er ekki einungis rétt ákvörðun með tilliti til siðferðlegra sjónarmiða heldur einnig mjög skynsamleg fjárfesting fyrir þróunina í Malaví.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta