Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 351/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 351/2019

Miðvikudaginn 13. nóvember 2019

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 26. ágúst 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 22. ágúst 2019 á umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. X, vegna tjóns sem hún telur að rekja megi til rangrar meðferðar á úlnliðsbroti á vinstri hendi. Í umsókninni er tjónsatvikinu lýst þannig að eftir að gifs hafi verið fjarlægt X af vinstri hendi hafi kærandi ekki verið skoðuð heldur hafi henni verið sagt að þetta liti vel út. Beinið hafi ekki gróið rétt saman og hún sé alltaf með verki. Höndin hafi ekki verið skoðuð fyrr en sjö mánuðum síðar þrátt fyrir að kærandi hafi áður ítrekað óskað eftir skoðun. Á þeim tíma hafi verið orðið of seint að framkvæma aðgerð og koma hendinni í rétta átt. Kærandi hafi loks farið í röntgenmyndatöku í Domus Medica fjórtán mánuðum eftir slysið og þá hafi komið í ljós „Dislocation sprain and strain of joints and ligaments at wrist and hand level“. Kærandi sé með gögn sem sýni að gifsið hafi ekki verið sett rétt á.

Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 22. ágúst 2019, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. ágúst 2019. Með bréfi, dags. 28. ágúst 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 16. september 2019. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send kæranda til kynningar. Með bréfi, dags. 23. september 2019, bárust athugasemdir kæranda og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að úrskurðarnefnd velferðarmála endurskoði hina kærðu ákvörðun.

Í kæru segir að X hafi kærandi dottið af íþróttabolta með báðum höndum á gólf og slasast mjög illa á vinstri hendi. Hægri hendi hafi slasast smávegis en samt illa. Kærandi hafi verið að æfa sig fyrir vinnu, verið á námskeiði fyrir skrifstofufólk og hafi átt að byrja í X. Slysið hafi átt sér stað á vinnustað kæranda þar sem hún hafi verið með F. Hún hafi leitað til læknis og hann sett gifs á vinstri hendi. Kærandi hafi beðið hann um að setja gifsið rétt á þar sem hún sé F og það væri eina vinnan hennar, en hann hafi bara hlegið.

Í greinargerð meðferðaraðila segi:

Í nótu hjúkrunarfræðings X var skráð að gipsspelkan veitti ekki nægan stuðning og því fékk umsækjandi nýja spelku. Engar myndrannsóknir voru gerðar þann daginn. Samkvæmt umsókn umsækjanda dags. X losnaði hún við gipsið þann X en þann dag er óskráð dagnóta í sjúkraskrá H.

Þann X þegar spelkan hafi verið fjarlægð hafi læknirinn átt að skoða hendur kæranda en hann hafi komið inn í meðferðarherbergi, horft út um gluggann og sagt að þetta liti allt vel út. Kærandi hafi velt fyrir sér hvað hann hafi verið að hugsa og meina með því og því einnig kíkt út um gluggann þar sem henni hafi dottið í hug að hann hefði séð eitthvað úti sem honum hafi litist vel á. En hann hafi verið að meina hendur kæranda án þess að skoða þær eða taka nýja mynd. Röntgenmyndir hjá Heilbrigðisstofnun N (H) séu allrar horfnar, kærandi hafi spurt eftir þeim en verið sagt að þær væru farnar. Hjúkrunarfræðingur hafi staðið við hlið læknisins og ætlað að segja eitthvað en ekki gert það. Hefði læknirinn skoðað hendur kæranda hefði hann kannski séð að þörf hafi verið á aðstoð og kannski hefði hann getað bjargað höndunum með því að koma kæranda eins fljótt og mögulegt hafi verið í aðgerð. Læknirinn hafi aftur á móti sent kæranda heim og sagt við hana að ef hún fyndi til ætti hún að taka verkjalyf. Kærandi hafi þá átt að fara út og læknirinn snúið sér að tölvunni. Kærandi hafi verið með gríðarlega verki í höndunum og haldið með hægri hendi undir þá vinstri. Kærandi hafi ítrekað eftir það leitað til lækna og beðið um hjálp en hendurnar ekki verið skoðaðar fyrr en að sjö mánuðum liðnum. Hér hafi sjúklingur einfaldlega verið sendur heim án þess að læknir hafi sinnt skyldu sinni. Kærandi hafi snemma látið vita hvaða þjónustu hún hafi fengið og sent tölvupóst á yfirlækni H. Ástæða þess að kærandi hafi aftur leitað til H hafi einfaldlega verið sú að ekkert annað sjúkrahús hafi tekið á móti henni á meðan meðferðinni væri ekki lokið. Í greinargerð meðferðaraðila segi:

Þann X var umsækjandi skoðuð af skurðlækni á H vegna verkja í vinstri úlnlið. Í sjúkraskrá H þann dag var skráð að röntgenmyndir þættu sýna brotið gróið í góðri stöðu. Ákveðið var að bíða frekari átekta og skrifuð voru út læknisvottorð vegna óvinnufærni.

Eftir marga mánuði þar sem kærandi hafi ítrekað leitað til H án þess að nokkuð hafi verið gert, sjúkratryggingar í bæjarfélaginu hafi neitað að taka við læknisvottorði og beiðni um að skoða hendur kæranda, hafi hún aftur sent bréf til yfirlæknis H. Þá hafi hún fengið tíma hjá sama lækni sem hafi neitað að skoða hendur hennar þegar hjúkrunarfræðingur hafi bent honum á að gera það X. Hún hafi loks getað talað við hann X. Kærandi hafi upplýst hann um hversu óánægð hún væri með meðferðina á sjúkrahúsinu. Læknirinn hafi ekki vitað hvað hann hafi átt að segja en þegar hann hafi séð hendur hennar hafi hann fengið „sjokk“. Andlit læknisins hafi roðnað og síðan hafi hann snúið sér að tölvunni. Kærandi hafi upplýst hann um hvað hafi gerst hingað til en hann hafi bara skrifað í tölvuna og hún hafi bara talað og talað. Hún hafi einnig skammað hann fyrir þá meðferð sem hún hafi fengið á sjúkrahúsinu.

Í greinargerð meðferðaraðila segi:

Umsækjandi var enn í samskiptum við H vegna verkja. Þann X var gerð segulómskoðun af vinstri úlnlið umsækjanda og sýndi hún fram á væga styttingu í sveifinni og væga óreglu í liðfleti sveifar. Þá sást einnig rifa í TFCC við stílhyrnu ölnar en að öðru leyti voru aðallega slitbreytingar í svæðinu:

Sjúkratryggingar hafi skrifað að hægri hendi hafi verið skoðuð X. Í röntgensvari frá Domus hafi eftirfarandi komið fram X: „Það er sequele eftir antebrachial fracturu með afsprengdum processus styloideus ulna sem ekki hefur groið.“ Hefði læknir skoðað hendur kæranda þegar eftir að gifsið hafi verið fjarlægt hefði hann ef til vill sent hana til sérfræðings til að laga hendur hennar á einhvern hátt.

Í læknisvottorði, dags. X, hafi eftirfarandi verið ritað eftir góða skoðun læknis á höndum kæranda: „ Brotnaði mjög illa á radius vinstri hendar. Greri ekki vel og TFCC ligament er rifið. Hefur ekki getað snúið til fyrri starfa sem er F.“ Þetta hafi verið tveimur árum eftir handleggsbrotið. Kærandi geti enn þann dag í dag ekki notað litla-, baug- og þumalfingur. Líf kæranda hafi breyst X og henni hafi ekki liðið vel. Hún hafi verið í sjálfstæðri vinnu frá árinu X til X. Hún þurfi nú að fá aðstoð við að taka upp hluti eða gera eitthvað með vinstri hendi. Hún sé örvhent. Staðan þyrfti ekki að vera þessi hefðu læknar brugðist fljótlega við eftir að gifsið hafði verið fjarlægt.

Um sé að ræða gróf mistök í meðferðinni af hálfu læknisins sem hafi ranglega sett gifsið á X, vegna fótbolta sem hafi verið sýndur í sjónvarpinu. Þá hafi það verið gróf mistök hjá lækni X sem hafi neitað að skoða hendur kæranda þrátt fyrir að hjúkrunarfræðingur hafi bent honum á að gera það. Þá hafi verið um að ræða gróf mistök læknis X að neita að skoða hendur eftir að gifsið hafi verið fjarlægt og sent sjúkling heim. Kærandi hafi upplifað virðingarleysi gagnvart sér sem sjúklingi og um hafi verið að ræða mistök frá upphafi.

Kærandi hafi slasast mjög illa á báðum höndum. Um hafi verið að ræða handleggsbrot á vinstri hendi og meira. Eftir margra mánaða bið hafi hún loks komist í betri skoðun X, eða fjórtán mánuðum eftir slysið. Um þá skoðun segi: "rifa í TFCC ligamentinu við processus styloideus ulna og skerpingar við DRU lið" sem þýði að litli- og baugfingur séu óhreyfanlegir. Hefði læknir þegar skoðað hendur kæranda eftir að gifsið hafði verið tekið af X hefði aðgerð þegar verið ákveðin í stað þess að kærandi hafi verið send heim án þess að litið hafi verið á hendurnar, sem hún hafi mótmælt frá upphafi. Aðgerð innan fjögurra vikna eftir rifuna hefði hjálpað henni að komast aftur í vinnu og núverandi aðstæður hennar væru þá aðrar. Hún sé með ómeðhöndlað niðurrif og geti ekki unnið meira, hvorki við F né á skrifstofu. Þá hafi hún tapað mikilli vinnu. Hún hafi verið heimilislaus í þrjá mánuði og verið á götunni í kjölfar þess að hafa ekki verið með neinar tekjur.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að hver einasti læknir sem hafi skoðað hendur hennar síðastliðin þrjú ár hafi komist að niðurstöðu um að hún hafi brotnað mjög illa á radius, það sé „sequele eftir antebrachial fracturu með afsprengden processus styloideus ulna“ sem hafi ekki gróið.

Læknar, sem hafi skoðað hendurnar eftir slysið, hafi séð að það væri eitthvað að. Samkvæmt sjúkraskrárfærslu X hafi verið ritað að kærandi væri með mikla verki og væri óvinnufær. Tveir læknar á H hafi skrifað að allt væri í góðu lagi árið X. Í sjúkraskrárfærslu frá X segi að kærandi gæti ekki „flex/exte“. Þann X hafi verið ritað að enn væri mikil bólga til staðar og að þumallinn næði ekki að rétta úr sér. Þann X hafi verið ritað eftir myndatöku að kærandi gæti ekki rétt alveg úr þumli, hreyfing væri lítil og miklir verkir. Röntgenmynd hafi sýnt „dorsal angulation og afrifu á processius stýloideus úlni“. Þann X hafi verið ritað að kærandi hafi farið í aðgerð en hún viti ekki hvað það þýði þar sem hún hafi aldrei farið í aðgerð. Þá hafi verið ritað í færslu VIRK að það sé búið að ganga mjög illa með hendur kæranda.

Sjá megi að X hafi hjúkrunarfræðingur bent lækni á H á að þumallinn sneri ekki í rétta átt. Læknirinn hafi neitað að gera eitthvað í því með því að hrista höfuðið, sem sagt hann hafi neitað að skoða það. Það hafi ekki verið nein skoðun. Læknirinn hafi verið of upptekinn við tölvuna sem hann hafi verið að vinna eitthvað í. Þá hafi kærandi komið aftur X til að fá nýtt gifs, spelka hafi ekki veitt nægan stuðning. Kærandi hafi mætt í endurkomu X og ekki hafi verið skráð í sjúkraskrá að hjúkrunarfræðingur hafi tekið gifsið af og kallað á lækni. Læknirinn hafi ekkert gert, hann hafi ekki skoðað hendur eða tekið aðra röntgenmynd. Hann hafi sagt að þetta liti allt vel út á meðan hann hafi horft út um gluggann. Kærandi hafi aftur mætt á H X, sem hafi verið merkt X, en aftur hafi ekkert verið gert. Kærandi hafi rætt lítillega við hjúkrunarfræðing sem hafi náð í lækni. Læknirinn hafi komið en ekki skoðað hendur hennar og sagt að það myndi taka nokkra mánuði þar til allt væri komið í lag aftur. Kærandi hafi verið með gríðarlega mikla verki. Hún hafi leitað til H og beðið um hjálp, hún hafi alltaf fengið röng læknisvottorð, en hún hafi sagt að hún væri sjálfstætt starfandi og læknirinn ritað annað vottorð sem sjúkratryggingar hafi ekki tekið við. Það hafi liðið fjórir mánuðir án þess að hún fengi slysabætur eða aðrar greiðslur til að aðstoða hana með greiðsluvandamál. Eftir fjóra mánuði með verki hafi kærandi skrifað forstjóra H bréf X og bent á að það væri ekki verið að hjálpa henni með hendurnar. Hann hafi sent kæranda tölvupóst með upplýsingum um að erindi hennar hafi verið sent til framkvæmdastjóra lækninga sem hafi svarað X.

Átta mánuðir hafi liðið þar til eitthvað hafi gerst. Kærandi hafi verið búin að leita til H án þess að fá hjálp og verið með endalausa verki. Kærandi hafi leitað til læknis X og gripið tækifærið og sagt honum hvernig það væri með hendurnar hennar. Tekin hafi verið röntgenmynd en kærandi beðið um að fá að sjá hvernig þetta liti út. Hann hafi látið kæranda líta á „latera“ mynd sem að hennar mati sýni ekki mikið. Kærandi hafi beðið um röntgenmyndirnar sem hafi verið teknar X. og X en læknirinn sagt að þær væru ekki lengur í kerfinu hjá H. Hann hafi skoðað hendur kæranda og séð hversu mikil bólgan hafi verið og lítil hreyfigeta. Hann hafi loks útbúið beiðni um sjúkraþjálfun en því miður hafi tilvísunin aldrei verið send. Eftir að kærandi hafi beðið sjúkraþjálfara um að líta á hendur hennar og vinna með þær hafi hún ekkert getað gert þar sem sjúkraþjálfarar vinni ekki séu þeir ekki með tilvísun frá lækni. Kærandi hafi af og til unnið með vinkonu sinni sem sé sjúkraþjálfari og hún sýnt henni hvað hún ætti að gera en í raun hafi það ekki verið mikið.

Til hafi staðið að ritað yrði endurhæfingarvottorð til sjúkratrygginga en læknirinn hafi ekki verið alveg viss hvernig ætti að gera það. Það hafi endað með því að því hafi verið hafnað. Það hafi verið X þar sem hann hafi skrifað í sjúkdómsgreiningu: Enn veruleg hreyfiskerðing og verkir í vinstri úlnlið. Getur hvorki „flexað né extendað“ um úlnlið, nema hugsanlega um einhverjar 10 gráður og verkjar þá mikið við það. Getur einungis „supiner“ hálfa leið. Minni stirðleiki í þumli og fjórum til fimm fingrum. Getur alls ekki starfað lengur sem F.

Síðan hafi það haldið áfram að læknarnir hafi skrifað verkir og mikill stirðleiki í úlnlið. Einnig læknirinn sem hafi skoðað kæranda eftir að gifsið hafi verið fjarlægt þar sem hann hafi skrifað X að allt væri að komast í gott lag. Einnig hafi hann ritað X að enn væru verkir í höndum og að það gengi alls ekki vel. Svo hafi hann bent kæranda á hann gæti ekki gert meira fyrir hana.

Kærandi hafi óskað eftir því við nýjan lækni á H að hann skrifaði endurhæfingarvottorð þar sem það hafi ekki tekist í fyrra skiptið. Hann hafi verið orðinn pirraður þar sem hann hafi ekki vitað hvernig hann ætti að rita það. Kærandi hafi beðið hann um að koma því á framfæri svo að hún gæti tekið þátt í VIRK/MSS og fundið sér nýja vinnu. Ástand hennar gæti ekki haldið svona áfram. Hún hafi aðeins fengið X kr. í dagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands og ekki getað greitt neina reikninga. Læknirinn hafi tekið mynd af höndum kæranda með smartphone sem hann hafi ætlað að senda í tölvur. Honum hafi fundist skrýtið að sjá hversu skakkar hendurnar væru. Hann hafi aftur á móti átt eftir að skoða röntgenmynd frá X .

Beiðni hafi loks verið send á Röntgen Domus. Vinstri hendi X og hægri hendi X en þá hafi allt komið út sem fram að því hafi verið grafið undir borð. Niðurstaða Röntgen Domus hafi legið fyrir X þar sem eftirfarandi hafi komið fram: „Það er sequele eftir antebrachia fracturu með afsprengdum processus styloideus ulna sem EKKI HEFUR GRÓIÐ. Það er hinsvega rifa í TFCC ligamentinu við processus styloideus ulna og skerpingar við DRU lið eins og við byrjandi slit.“

Kærandi hafi hringt í VIRK í lok X og fengið upplýsingar um að beiðni hafi ekki verið send þangað. Þá hafi engin beiðni um sjúkraþjálfun legið fyrir. Það hafi ekki verið fyrr en í X sem kærandi hafi loks komist að hjá VIRK/MSS. Þá hafi kærandi fengið tíu sálfræðitíma. Með sjúkraþjálfun hafi hún verið komin á b lista sem hafi átt að bíða í 6-8 mánuði eftir að koma til þeirra. Því miður hafi hún verið orðin lasin og komin með krabbamein eftir að liggja á götunni frá því í lok ársins X til X. Hún hafi verið búin að vera og fengið krabbamein í kjölfarið.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir meðal annars að við meðferð málsins hafi verið kannað hvort tjón yrði rakið til þess að ekki hafi verið rétt staðið að meðferð kæranda, mistaka heilbrigðisstarfsmanna, vangreiningar, tækjabúnaðar og/eða áhalda, hvort beita hefði mátt annarri meðferð/aðferð eða tækni eða hvort heilsutjón hafi orðið vegna sýkingar eða annars fylgikvilla sem félli undir 4. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Sjúkratryggingar Íslands hafi gert athugasemdir við skráningu í sjúkraskrá H þar sem skoðunum hafi ítrekað verið lýst með ófullnægjandi hætti, auk þess sem nótur hafi oft verið ónákvæmar. Það virðist þó ekki hafa komið niður á árangri meðferðar þeirrar sem kærandi hafi fengið. Að mati fagteymis stofnunarinnar hefði verið eðlilegt X að rétta brotið vegna afturhalla í fjærenda sveifar en í sjúkraskrá sé ekki skráð að það hafi verið gert. Þrátt fyrir þetta hafi brotið gróið vel og í viðunandi legu eins og við hefði mátt búast hefði brotið verið rétt. Því hafi það verið mat stofnunarinnar að framangreint hafi ekki leitt til tjóns fyrir kæranda. Samkvæmt röntgenmyndum hafi verið væg óregla á liðfleti sveifar vinstra megin sem læknar stofnunarinnar telji að megi að öllum líkindum rekja til brotsins sjálfs. Að mati stofnunarinnar hafi því ekki verið talið að unnt hefði verið að bæta þennan þátt með annarri eða betri meðferð.

Þá hefði að mati stofnunarinnar verið eðlilegt að senda kæranda í meðferð hjá sjúkraþjálfara eftir gifsmeðferðina en gögn málsins beri ekki með sér að það hafi verið gert. Þrátt fyrir framangreint hafi brotið gróið í viðunandi legu eins og áður hafi verið nefnt. Í sjúkraskrárgögnum hafi ekki verið að sjá að kærandi hafi kvartað undan verkjum í hægri hendi fyrr en X, rúmlega ári eftir slysið. Engin áverkamerki hafi verið að sjá á myndrannsókn sem hafi verið gerð vegna þessa, aðeins slitbreytingar. Því hafi ekki verið talið að einkenni hægri handar mætti rekja til meðferðarinnar eða skorti þar á. Að mati lækna stofnunarinnar verði þau einkenni sem kærandi kenni nú að öllum líkindum rakin til hins upphaflega áverka, en ekki meðferðarinnar sem hafi verið veitt á H.

Með vísan til þessa hafi skilyrði 2. gr. laga um sjúklingatryggingu ekki verið uppfyllt. Því hafi ekki verið heimilt að verða við umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um synjun á bótum á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna tjóns sem kærandi telur að rekja megi til þess að hún hafi fengið ranga meðhöndlun á úlnliðsbroti á vinstri hendi á Heilbrigðisstofnun N.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtal­inna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir. Að mati úrskurðarnefndar eiga sömu sjónarmið við þegar tjón verður rakið til afleiðinga slyss. Afleiðingar, sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eða slyss, eru þannig ekki bótaskyldar, en aftur á móti getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings leiði könnun og mat á málsatvikum í ljós að líklegra sé að tjónið stafi til dæmis af rangri meðferð en öðrum orsökum. Sé niðurstaðan hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkast í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Ætla má að kærandi byggi kröfu um bætur úr sjúklingatryggingu á 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Hún telur að mistök hafi verið gerð þar sem gifs hafi ekki verið sett rétt á vinstri hendi á slysdegi. Jafnframt byggir hún á því að þegar gifsið hafi verið fjarlægt X hafi höndin ekki verið skoðuð en hefði það verið gert hefði hún ef til vill verið send í aðgerð. Þá hafi höndin ekki verið skoðuð almennilega fyrr en sjö mánuðum eftir slysið og þá hafi hún loks farið í myndatöku í Röntgen Domus fjórtán mánuðum eftir slysið. Niðurstaða þeirrar myndatöku hafi leitt í ljós að hún hafi fengið ranga meðhöndlun á brotinu.

Í samskiptaseðli læknis á slysdegi segir að kærandi hafi dottið og  verið mjög verkjuð og bólgin í kringum úlnlið. Brot virtist vera á fjærenda sveifar (e. distal radius), ótilfært að mestu en flísast hefði aðeins úr utanverðri sveif. Sett var spelka baklægt á hendina (s.n. „dorsal“ spelka). Þá átti að fá mat röntgenlækna næsta dag og var spurning hvort þörf væri á að rétta brotið sem læknirinn taldi þó ekki vera. Röntgenrannsókn frá slysdegi sýndi samkvæmt úrlestri myndgreiningarlæknis brot í fjærenda sveifar með vægri styttingu. Talið var að brotið gengi upp í gegnum liðflötinn baklægt („dorsalt“) en góð samfelldni („kongruens“) væri í liðnum. Það bendir með öðrum orðum til að ekki hafi verið markverð missmíð á liðflötum beina. Útlit var fyrir eldri áverka á ölnarstíl (l. processus styloideus ulnae). Niðurstaðan var sú að brotið væri lítið tilfært. Kærandi mætti í endurkomu X og samkvæmt röntgenrannsókn þann dag var ágæt lega í brotinu, ekki teljandi stytting eða afturhalli (e. dorsal angulation). Lega var talsvert betri en sést hafði á samanburðarrannsókn, þ.e. áðurnefndum röntgenmyndum frá slysdegi. Aftur var tekið fram að gamalt brot væri í ölnarstíl. Við þessa komu var ekki getið um að læknir hefði talað við kæranda eða skoðað hana en fram kom að kærandi ætti að hafa spelkuna í þrjár vikur til viðbótar. Í samskiptaseðli hjúkrunar, dags. X, segir að spelka sé rúm og veiti ekki nægan stuðning. Kærandi fékk því nýja spelku. Samskiptaseðill vegna komu til læknis hefur verið búinn til í sjúkraskrá X en ekkert skráð í hann. Kærandi segir í umsókn, dags. X, að hún hafi losnað við gifsspelkuna þann dag.

Í samskiptaseðli læknis vegna endurkomu, dags. X, segir að kærandi sé með verki yfir hnúaliðum. Tekið var fram að hún væri með væga bólgu en óbrotin. Kærandi fékk almenna fræðslu og var ráðlagt að gefa þessu tíma. Í færslu læknisins er ekkert sagt um úlnliðsáverkann en í samskiptaseðli hjúkrunar sama dag segir: „Lega góð“. Kærandi sé með bólgur og verki og hafi áhyggjur þar sem hún sé F. Hún fái skoðun hjá sérfræðingi og ráðleggingar um hvíld og hvernig haga bæri framhaldinu. Hér virðist átt við úlnliðsáverkann en þó liggur ekki fyrir að röntgenmyndir hafi verið teknar þennan dag. Þá leitaði kærandi í nokkur skipti til lækna það sem eftir var ársins X þar sem minnst var á slysið en fátt eitt skráð um framvindu einkenna og ástand eftir úlnliðsáverkann. Síðasta færslan þar sem minnst er á slysið var við útgáfu fjarvistavottorðs X en eftir það átti kærandi nokkrar komur til lækna H af öðrum tilefnum þar sem ekki var minnst á vandamál frá úlnlið.

Síðan kemur fram í sjúkraskrárfærslu frá X að framkvæmdastjóri lækninga hafi skoðað gögn vegna tölvupósts til forstjóra vegna meðhöndlunar á beinbrotinu. Í samskiptaseðli læknis, dags. X, var skráð að meðferð við úlnliðsbroti sýndist í alla staði rétt. Verkir og stirðleiki væru enn til staðar og kærandi gæti ekki notað hendina við vinnu. Dreifð þreifieymsli voru til staðar og vildi kærandi lítið hreyfa úlnlið og handarliði virkt, en í fingrum voru óvirkir hreyfiferlar þokkalegir nema væg skerðing á réttigetu í nær- og fjærliðum vinstri baugfingurs og litlafingurs. Vegna sársauka fékk læknirinn ekki að hreyfa úlnlið. Taldi hann að um væri að ræða afleiðingar úlnliðsbrots þar sem algengt væri að skerðing yrði á getu til að beita sér („functionskerðing“). Röntgenrannsókn sama dag sýndi gróið brot í fjærenda sveifar með óbreyttri legu miðað við X. Slitbreytingar sáust í úlnliðum, bæði í lið á milli báts-, geirstúfs- og geirstúflingsbeina („STT“-lið) og úlnliðs- og miðhandarliðs þumals. Í samskiptaseðli læknis, dags. X, segir að enn sé til staðar veruleg hreyfiskerðing og verkir í vinstri úlnlið. Minni hreyfiskerðing var í fingrum. Góðar framfarir voru sagðar frá skoðun X en ekki tekið fram hvort þar væri átt við ástand úlnliðsins eða eingöngu fingranna. Í læknisvottorði, dags. X, segir að enn sé veruleg hreyfiskerðing og verkir í vinstri úlnlið. Kærandi geti hvorki rétt né kreppt um úlnlið nema hugsanlega um 10° en hana verki mikið við það. Hún geti aðeins rétthverft („supinerað“) hálfa leið. Minni stirðleiki var í fingrum. Blóðrás og tilfinning í fingrum var eðlileg.

Eftir nokkrar komur til lækna H sumarið X var loks látið verða af því að panta segulómun af vinstri úlnlið. Síðar var bætt við samskonar rannsókn af hægri úlnlið. Í niðurstöðu segulómunar af vinstri úlnlið frá X segir að um sé að ræða gróið brot í fjærenda sveifar. Einnig er talað um að sveifarstíll sé afsprengdur en væntanlega er þar átt við ölnarstíl eins og sami læknir tilgreinir í lýsingu sinni á rannsókninni. Loks kemur fram að sést hafi rifa í „TFC-ligamenti“ en þar mun átt við einhvern hluta TFCC (skst., e. triangular fibrocartilage complex) sem er samstæða lítils liðþófa úr brjóski (l. discus articularis articulationis radioulnaris distalis) og liðbanda ölnarmegin í og við úlnlið. Læknakandídat ritaði læknabréf til handaskurðlæknis, dags. X, þar sem óskað var eftir mati hans á því hvort „aðgerð til að gera við TFC rifuna myndi hafa áhrif á hennar einkenni.“ Beiðni sama efnis var samkvæmt sjúkraskrá ítrekuð X en hvorki liggur fyrir að af þessu mati hafi orðið né að kærandi hafi gengist undir skurðaðgerð. 

Kærandi lýsir því í umsókn sinni um bætur að tjón hennar felist í því að hún sé með verki í báðum höndum en meiri í vinstri sem hún geti ekki unnið með. Hún hafi verið sjálfstætt starfandi F en geti ekki sinnt því lengur. Hún geti ekki notað vinstri hönd. Verkurinn hafi leitt í bak og öxl. Hún sé mjög takmörkuð í daglegu lífi og hafi verið óvinnufær frá því að slysið hafi átt sér stað. Sjúkratryggingar Íslands komust að þeirri niðurstöðu að skráningum í sjúkraskrá kæranda hafi verið ábótavant og einnig að eðlilegt hefði verið að rétta brotið vegna afturhalla í því. Þrátt fyrir framangreint hafi brotið þó gróið vel og í viðunandi legu eins og við hefði mátt búast hefði brotið verið rétt. Framangreint hafi því ekki orðið til tjóns í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Að mati úrskurðarnefndar verður ekki af þeim gögnum ráðið að skekkja í broti á vinstri sveif kæranda hafi verið svo mikil að alger (e. absolute) ábending væri til að rétta hana strax á slysdegi, enda megi draga þá ályktun af gögnum málsins að brotið hafi að lokum gróið með viðunandi legu. Öðru máli gegnir um áverkann sem kærandi hlaut í sama slysi á samstæðu brjósks og liðbanda (TFCC). Rannsóknir hafa ekki bent til að sá áverki hafi gróið og telur úrskurðarnefnd meiri líkur en minni á því að hann hafi valdið mestu um langtímaeinkenni kæranda. Kemur þá til álita hvort greiningu og meðferð þess áverka hafi verið hagað sem skyldi. Þar veldur nokkrum vandkvæðum að færslur í sjúkraskrá kæranda voru oft með talsverðum annmörkum á þeim tíma sem um ræðir. Í mörgum tilfellum var einkennum kæranda og skoðun læknis ekki lýst eða þá með ófullkomnum hætti. Þannig er til dæmis vandséð hvers vegna vottorð um óvinnufærni voru endurnýjuð endurtekið haustið X án þess að séð verði að læknar hafi skoðað kæranda á því tímabili. Þegar læknir skoðaði loksins kæranda X lýsti hann klínísku ástandi, þar á meðal mikilli hreyfiskerðingu, sem að mati úrskurðarnefndar gat augljóslega ekki samrýmst eðlilegu bataferli eftir lítið tilfært vel gróið úlnliðsbrot hálfu ári fyrr. Það er ekki fyrr en í ágúst sama ár, rúmlega ári eftir slysið, sem segulómun af úlnliðnum er gerð og leiðir í ljós rétta sjúkdómsgreiningu. Í þeirri töf sem þarna varð á sjúkdómsgreiningu felst að mati úrskurðarnefndar hið eiginlega sjúklingatryggingaratvik í máli þessu. Líklegt verður að telja að töfin hafi að minnsta kosti valdið kæranda lengri þjáningu en ella hefði verið.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að rannsókn og meðferð hafi ekki verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði í tilfelli kæranda. Bótaskylda sé því fyrir hendi á grundvelli 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Auk einkenna frá vinstri úlnlið kveðst kærandi einnig vera með óþægindi í hægri úlnlið. Einkenna þaðan var þó ekki getið í sjúkraskrá fyrst eftir slysið og af þeim takmörkuðu upplýsingum sem fyrir liggja um einkenni frá hægri úlnlið verður ekki ráðið að þau hafi verið mikil. Segulómun af hægri úlnlið var gerð X og sáust þá slitbreytingar en ekki var lýst neinum áverkamerkjum. Því liggur ekki fyrir að kærandi hafi orðið fyrir varanlegu tjóni á hægri úlnlið vegna slyssins.

Að öllu því virtu, sem rakið hefur verið hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að fella úr gildi ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 22. ágúst 2019, þar sem kæranda var synjað um bætur á grundvelli laga um sjúklingatryggingu og vísa málinu til nýrrar meðferðar Sjúkratrygginga Íslands.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Sjúkratrygginga Íslands á bótum til A, samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er felld úr gildi. Málinu er vísað til Sjúkratrygginga Íslands til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta