Hoppa yfir valmynd
2. maí 2023 Utanríkisráðuneytið

Ari Kristinn í stjórn nýsköpunarsjóðs Atlantshafsbandalagsins

Ari Kristinn Jónsson. - mynd

Ari Kristinn Jónsson, forstjóri netöryggisfyrirtækisins AwareGO og fyrrverandi rektor Háskólans í Reykjavík, hefur verið kosinn í stjórn nýs nýsköpunarsjóðs Atlantshafsbandalagsins (NATO Innovation Fund). Skrifað verður undir formlega stofnun sjóðsins á leiðtogafundi bandalagsins í Vilníus í júlí næstkomandi. 

Sjóðnum er ætlað að efla tæknilegt forskot bandalagsins og styrkja tengslin milli nýsköpunarfyrirtækja á sviði nýjustu tækni og opinberra aðila sem fara fyrir fjárfestingum í tækni með tvíþætt notagildi (e. dual-capable technology) sem tengist varnarmálum. 

„Það er fagnaðarefni að Ari Kristinn hafi gefið kost á sér til þess að gegna stjórnarstörfum í þessum nýja sjóði. Reynsla hans og þekking er í heimsklassa og þótt hann sé ekki fulltrúi neins lands umfram annars í stjórninni þá er það ánægjuefni að á Íslandi sé til staðar alþjóðlega samkeppnishæf þekking og reynsla sem nýtist verkefnum sjóðsins. Þegar kemur að framlagi Íslands í sameiginlegum vörnum þá gæti hið blómlega nýsköpunarumhverfi hér á landi lagt sitthvað af mörkum og kjör Ara Kristins í stjórn sjóðsins sýnir að á þessu sviði eiga Íslendingar og íslensk fyrirtæki fullt erindi,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Sjóðnum er sömuleiðis ætlað að verja nýsköpun, tækni og hugvit bandalagsins fyrir óvinveittum aðilum. Það verður gert með traustri fjárfestingarráðgjöf til nýsköpunarfyrirtækja og fjárfestingum með öruggu fjármagni til nýsköpunarfyrirtækja sem standa hugsanlega frammi fyrir gylliboðum frá óvinveittum aðilum. 

Að sögn Ara Kristins er stofnun sjóðsins stórt skref fram á við fyrir öryggi og samkeppnishæfni í Evrópu. 

„Sjóðurinn leggur áherslu á að styðja við þróun og hagnýtingu byltingarkendrar tækni, eða djúptækni eins og hún er stundum nefnd. Í slíkri þróun felst að leiða saman nýjustu uppgötvanir á fagsviðum eins og gervigreind, orkutækni, stýritækni, efnistækni og fleira, til að skapa alveg nýjar lausnir á erfiðum viðfangsefnum.  Til þess þarf þolinmótt fjármagn með skýra stefnu um fjárfestingar sem efla samkeppnishæfni, öryggi og verðmætasköpun en um það snýst einmitt þessi sjóður,“ segir Ari.

Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Madríd í júní 2022 var ákveðið að setja á laggirnar nýsköpunarsjóð Atlantshafsbandalagsins með valfrjálsri aðild bandalagsríkja. Alls ákváðu 22 af 30 aðildarríkjum bandalagsins að taka þátt, þar á meðal Ísland.

„Það er gríðarlega spennandi að vera í stjórn sjóðsins og þannig taka þátt í mótun, eftirfylgni og aðlögun stefnu sjóðsins. Meginmarkiðið er að sjóðurinn verði til þess að hagnýta þá djúpu þekkingu og þann mikla sköpunarkraft sem þegar er til staðar til að auka samkeppnishæfni og tæknilega getu. Þetta verður gert bæði með beinum fjárfestingum í verkefnum og með því að verða leiðandi fyrir aðra fjárfestingasjóði. Niðurstaðan verður stóraukinn kraftur í hátækniþróun í Evrópu sem mun skila sér í framþróun samfélaga, auknu öryggi og meiri verðmætasköpun,“ segir Ari jafnframt.

Þátttaka Íslands í sjóðnum er í höndum utanríkisráðuneytisins en íslenski sprota- og nýsköpunarsjóðurinn Kría hefur starfað með ráðuneytinu í undirbúningshópi Íslands við stofnun sjóðsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta