Skólasetning Jarðhitaskólans: 23 nemendur hefja nám
Jarðhitaskólinn var settur í gær í 43. sinn en hann er elstur fjögurra skóla sem starfa undir merkjum GRÓ – þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu í samstarfi við Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Næstu sex mánuðina verða í skólanum sérfræðingar frá tólf þjóðríkjum, alls 23 nemendur.
Jarðhitaskólinn er í fyrsta sinn hýstur af Íslenskum orkurannsóknum, ÍSOR, og námið fer fram í nýjum húsakynnum í Kópavogi. Guðni Axelsson, forstöðumaður skólans, bauð nemendur velkomna við skólasetninguna í gær en auk hans ávörpuðu nemendur þau Bjarni Gautason sviðsstjóri ÍSOR og Nína Björk Jónsdóttir forstöðumaður GRÓ.
Nemendur skólans í ár koma frá Dóminíska lýðveldinu, El Salvador, Filippseyjum, Gvatemala, Indlandi, Indónesíu, Kenía, Kólumbíu, Montserrat, Níkaragva, Perú og Tansaníu.