Fréttapistill vikunnar 1. - 7. maí
Breyting á lögum um málefni aldraðra
Samþykkt hafa verið á Alþingi lög um breytingu á lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999. Við gerð frumvarpsins var tekið mið af tillögum samráðshóps um málefni eldri borgara frá nóvember 2002 og tillögum vinnuhóps heilbrigðisráðherra sem falið var að gera tillögur um breytt hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra. Sá hópur skilaði ráðherra skýrslu í maí 2003. Meðal breytinga sem lögin fela í sér er heimild til að greiða úr Framkvæmdasjóði aldraðra húsaleigu vegna leigu á hjúkrunarheimili sem byggt hefur verið fyrir aldraða af öðrum en ríkinu, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Einnig eru þau nýmæli í lögunum að heimiluð eru framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra til viðhalds húsnæðis dagvistar-, dvalar- og hjúkrunarheimila. Breytingar hafa einnig verið gerðar á ákvæðum um framkvæmda- og rekstrarleyfi sem miða að því að gera ferlið sem lýtur að umsóknum og leyfisveitingum skýrara.
Endurbætt kvennadeild sjúkrahússins á Akranesi
Nýlega var formlega tekin í notkun 2. hæð norðurálmu sjúkrahússins á Akranesi eftir endurbætur og er þar nú kvennadeild sjúkrahússins. Aðstaða og tækjabúnaður er með því besta sem þekkist, t.d. er þar nýtt og fullkomið fæðingarrúm, sérhönnuð vatnslaug fyrir fæðandi konur og ýmsar fleiri nýjungar. Framkvæmdir við norðurálmu sjúkrahússin hófust í mars 2003 og ná til þess að breyta og endurinnrétta 1. og 2. hæð álmunnar sem er um 700 fermetrar. Í síðari hluta framkvæmdanna verður ráðist í að endurbæta eldhús sjúkrahússins. Vinna við það verk hefst í haust og er áætlað að ljúka þeim í mars á næsta ári. Nánar er sagt frá framkvæmdunum á heimasíðu sjúkrahússins á Akranesi.
Nánar...
Vistunarmat aldraðra orðið rafrænt
Nýlega var lokið við að tengja alla þjónustu- og matshópa um land allt við móðurstöð vistunarmats aldraðra. Þar með fara allar upplýsingar um vistunarmat aldraðra rafrænt á milli þeirra aðila sem hafa með þessi gögn að gera samkvæmt ströngustu reglum. Rafrænt vistunarmat auðveldar mjög alla yfirsýn yfir stöðu þessara mála og úthlutun dvalar- og hjúkrunarrýma á stofnunum fyrir aldraða. Einnig gefur þetta aukna möguleika á því að rannsaka líðan aldraðra sem fengið hafa vistunarmat og meta á grundvelli þess forgangsröðun við úthlutun rýma. Verkfræðiþjónustan STIKI hefur hannað allan hugbúnað vegna vistunarmatsins og séð um vinnu við að tengja þjónustu- og matshópa við kerfið í samræmi við ströngustu skilyrði persónuverndar um meðferð gagna.
Stjórnunarupplýsingar Landspítala - háskólasjúkrahúss í janúar - mars
Skurðaðgerðum á Landspítala – háskólasjúkrahúsi fjölgaði um 5,2% fyrstu þrjá mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í nýjustu stjórnunarupplýsingum sjúkrahússins. Mest varð fjölgunin, 15,9% í almennum skurðlækningum og 7,4% í bæklunarlækningum, en þetta eru einmitt þær sérgreinar þar sem bið eftir þjónustu hefur verið hvað lengst. Biðlistar hafa styst á sjúkrahúsinu í kjölfar sameiningu skurðdeilda og aukinni framleiðni á skurðstofum segir í stjórnunarupplýsingum. Meðallegutími hefur styst um 3,2% miðað við sama tíma í fyrra og innlögnum hefur fækkað um 1,7%. Að sama skapi fjölgar komum á göngudeildir sjúkrahússins og á slysa og bráðadeildir. Sjúkrahústengd heimaþjónusta hefur einnig aukist umtalsvert á einu ári og segir í stjórnunartíðindum að það stuðli án efa að styttingu meðallegutíma á sólarhringsdeildum.
Nánar...
Starfsemi sjúkradeilda Landspítala – háskólasjúkrahúss í sumar
Birt hefur verið áætlun um starfsemi sjúkradeilda á Landspítala háskólasjúkrahúsi í sumar. Upplýsingarnar er að finna á heimasíðu sjúkrahússins.