Hoppa yfir valmynd
21. maí 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 15. - 21. maí

Lyfjaverðsnefnd semur um lægri álagningu í smásölu
Í fréttatilkynningu frá Lyfjaverðsnefnd kemur fram að nefndin og fulltrúar apótekara hafi komist að samkomulagi um þak á álagningu lyfja. Hámarksálagning á lyf sem kosta yfir 12.000 kr. í heildsölu verður samkvæmt þessu samkomulagi 2.450 á pakkningu. Í tilkynningu frá Lyfjaverðsnefnd segir að samkomulagið muni hafa veruleg áhrif til lækkunar á verð dýrari lyfja. Í tilkynningunni kemur fram að samkomulagið gildi frá og með 1. júní.


Kolrangar upplýsingar um íslenska heilbrigðisþjónustu í kanadískri skýrslu
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, vísar á bug upplýsingum sem fram koma í skýrslu Fraser stofnunar í Kanada þar sem lítillega er vikið að íslensku heilbrigðisþjónustunni í úttekt á þeirri kanadísku. Þetta kemur fram í samtali við Morgunblaðið í dag um málið. "Biðtíminn eftir aðgerðum hefur styst stórlega á síðustu árum og aðgengi er með því besta sem gerist. Þá erum við, samkvæmt tölum alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, með besta árangur í heimi í lífslíkum ungbarna." Þetta segir Jón kristjánsson í samtali við blaðið. Þar kemur líka fram m.a.: “Jón segist lítið gefa fyrir skýrsluna, ef allar upplýsingar sem hún byggist á séu jafn ónákvæmar, þetta séu einfaldlega rangar staðhæfingar. "Ég get ekkert sagt um þær ályktanir sem þeir setja fram í skýrslunni, því grunnurinn verður að vera réttur til að menn geti dregið ályktanir og farið að kenna öðrum. Ég er undrandi á þessari vinnu, satt að segja. Það er greinilegt á því sem ég hef séð á Netinu að þetta eru kolrangar upplýsingar,"”.


Fækkun á biðlistum eftir skurðaðgerðum hjá LSH nemur um 27% á þessu ári miðað við sama tíma í fyrra
Yfir þrjúþúsund manns (3.067) biðu eftir skurðaðgerðum hjá Landspítala – háskólasjúkrahúsi (LSH) í maí í fyrra á móti um 2.250 í maí 2004. Þessi fækkun á biðlistum nemur rúmum 27%. Þetta kemur fram í nýjustu stjórnunarupplýsingum LSH. Þar kemur fram að fækkunin sé árangur af umtalsverðri starfsemisaukningu í kjölfar endurskipulagningar við sameiningu sérgreina. Tekin eru dæmi um styttingu biðtíma og kemur t.d. fram að bið eftir augnaðgerð hafi styst úr 13 mánuðum í 8 mánuði og bið eftir aðgerð vegna vélindabakflæðis og þindarslits úr 19,5 mánuðum í rúma 7 mánuði. Nú bíða 47 einstaklingar eftir hjartaþræðingu en á sama tíma í fyrra biðu 149 manns. Biðtíminn nú svarar um einni viku í stað tæplega tveggja mánaða í fyrra. Sjúklingar þurfa ekkert að bíða eftir fjölda meðferða, t.d. er engin bið eftir krabbameinsmeðferð, að því er fram kemur í greinargerð framkvæmdastjóra fjárreiðna og upplýsinga með stjórnunarupplýsingunum.
Nánar...

Góður árangur íslenskrar heilbrigðisþjónustu
Hvergi í heiminum er ungbarnadauði lægri en á Íslandi og sama máli gegnir um burðarmálsdauða sem skilgreindur er sem fjöldin látinna barna á fyrstu viku að viðbættum börnum sem fæðast andavana. Af hverjum eittþúsund lifandi fæddum börnum hér á landi látast færri en þrjú börn. Annarsstaðar á Norðurlöndunum er ungbarnadauði lægstur í Noregi: 3,4 en hæstur í Danmörku: 4,2. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands og eru þær í samræmi við upplýsingar sem fram koma í vandaðri úttekt á íslenskri heilbrigðisþjónustu sem gerð var af óháðri stofnun (European Observatory on Health Systems and Policies) en að henni standa nokkrar ríkisstjórnir Evrópu, og stofnanir á borð við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, Evrópska fjárfestingabankann, Alþjóðabankann og London School of Economics and Political Science. Það er einnig til marks um góðan árangur íslenskrar heilbrigðisþjónustu að hér verða karlmenn langlífastir í heiminum, staðfest er góð lifun krabbameinssjúklinga eftir greiningu og hér er betri árangur í tæknifrjóvgun en víðast hvar í heiminum svo dæmi séu tekin.

pdf-takn Skýrsla European Observatory um Ísland...

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta