Áhersla á góða samvinnu Íslands og Grænlands
Í ræðu sinni á ráðstefnunni „Future Greenland – economic independence and political autonomy“ sem haldin var 14.-15. maí í Nuuk, ræddi Þórdís Kolbrún Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra þær áskoranir og þau tækifæri sem Grænlendingar og Íslendingar standa frammi fyrir.
Þórdís Kolbrún lagði áherslu á góða samvinnu þjóðanna enda væru þær bæði nágrannar og vinir. Í báðum löndunum hefur orðið mikil aukning í ferðaþjónustu en stórauknum fjölda ferðamanna fylgdi mikið álag á innviði hvers konar og þá ekki síst samgöngur og fjarskipti. Tækifæri landanna væru hins vegar mikil og á þeirri vegferð væri mikilvægt að byggja á sjálfbærum lausnum.
Þá ræddi Þórdís Kolbrún formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni en á þeim vettvangi eru metnaðarfull samstarfsverkefni, m.a. á sviði sjálfbærrar ferðamennsku, betri umgengni um auðlindir hafsins og áherslu á ungt fólk á Norðurlöndunum.