Norðmenn upplýstir um Heimsmarkmiðin
Fjallganga að næturlagi var farin öðru sinni á dögunum í Noregi í því augnamiði að upplýsa norsku þjóðina um Heimsmarkmiðin. Það voru NORAD - þróunarsamvinnustofnun Norðmanna - og Ferðafélag Noregs sem stóðu fyrir næturgöngunni til stuðnings Heimsmarkmiðunum. Gífurleg þátttaka var í göngunni eins og sjá má meðfylgjandi mynd.
Þetta er í annað sinn sem efnt er til næturgöngu upp á Gustatoppen í Þelamörk en fimm þúsund manns fóru í þessa fjallgöngu fyrir tveimur árum þegar þjóðir heims höfðu nýverið samþykkt einróma sautján metnaðarfull markmið um betri heim, svokölluð Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Á vef NORAD segir að vinna við markmiðin sé komin af stað en til þess að Heimsmarkmiðin náist þurfi allir að þekkja til þeirra. "Þess vegna förum við saman í göngu, á ný."
Önnur fjallganga er fyrirhuguð en þá verður gengið upp á Keiservarden í Bodø. Sú ganga er dagsett laugardaginn 9. september.