Þróunarsamvinna sem fjárfesting og framlag til framtíðar
"Meginmarkmið þróunarsamvinnu Íslands er að draga úr fátækt og stuðla að almennri velferð á grundvelli jafnréttis og sjálfbærrar þróunar. Miklu fé er varið í þennan málaflokk á heimsvísu og skilvirk þróunarsamvinna er, þegar öllu er á botninn hvolft, fjárfesting til framtíðar. Frá aldamótum hefur þróunarsamvinna skilað árangri sem er að verulegu leyti byggður á skuldbindingum þúsaldarmarkmiða SÞ sem Ísland var aðili að. Sárafátækt hefur minnkað um meira en helming, mæðra- og barnadauði hefur stórminnkað, aðgangur að hreinu vatni stóraukist og fleiri börn njóta nú skólagöngu en nokkru sinni fyrr. Hagvöxtur í þróunarlöndum hefur á þessu tímabili verið meiri en í efnameiri löndum og ný millistétt hefur orðið til. Árin frá aldamótum fram til 2015 eru þannig talin eitthvert mesta framfaraskeið sem orðið hefur í fátækum löndum. Þótt ekki sé hægt að þakka þróunarsamvinnu allan þann árangur er almennt viðurkennt að hún skiptir miklu máli, einkum í fátækari löndunum."
Þannig hefst kafli um þróunarsamvinnu í skýrslunni "Utanríkisþjónusta til framtíðar" sem utanríkisráðherra kynnti síðastliðinn föstudag. Skýrslan er unnin af stýrihóp sem ráðherra skipaði fyrr á árinu til að fara í saumana á skipulagi og starfsemi utanríkisþjónustunnar, utanríkisráðuneytisins og sendiskrifstofanna, og gera tillögur um það sem betur mætti fara.
Þróunaraðstoð framtíðarinnar snúist um Afríku
Í kaflanum um þróunarsamvinnu er sérstaklega fjallað um Afríku, hún sögð vera fátækasta heimsálfan og sú sem mesta þörf hefur fyrir aðstoð. "Af þeim liðlega þrjátíu ríkjum sem OECD hefur skilgreint sem bágstödd og hafi þörf fyrir langtíma þróunaraðstoð eru nær öll í Afríku. Þróunaraðstoð framtíðarinnar þarf því í vaxandi mæli að snúast um Afríku, eftir því sem lönd í öðrum heimsálfum ná bjargálnum. Álfan dregur minna einkafjármagn til sín en aðrar álfur, m.a. vegna skorts á menntuðu vinnuafli, vöntunar á efnahagslegum innviðum og vegna veikleika í stjórnarfari, sem m.a. skapa mikla óvissu fyrir fjárfesta."
Loftslagsbreytingar og ófriður
Þá er vikið að þeim erfiðu tímum sem framundan eru, lofslagsbreytingum sem ógna meðal annars fæðuöryggi, og ófriði á viðkvæmum svæðum, sem ýtir undir stórvaxandi flóttamannavanda. "Í fyrsta sinn um langt árabil hefur vannærðum fjölgað í fátækari ríkjum heimsins. Vaxandi skortur á vatni er einnig áhyggjuefni. Innan tveggja áratuga verða, samkvæmt úttekt Barnahjálpar SÞ (UNICEF), um 600 milljónir barna í heimshlutum þar sem sárlega skortir vatnsauðlindir og barist verður um hvern dropa. Alþjóðastofnanir telja vaxandi fjölda flóttafólks vera einhverja stærstu áskorun sem heimurinn stendur frammi fyrir um þessar mundir. Þörf fyrir mannúðaraðstoð hefur aldrei verið meiri. Áætlað er að yfir 65 milljónir manna séu á hrakhólum, annað hvort innan landamæra eigin ríkja eða hafi neyðst til þess að flýja til annarra ríkja."
Krefst meira fjármagns
Í skýrslunni segir að ljóst sé að við þessum nýju áskorunum verði ekki brugðist nema með samræmdum aðgerðum alþjóðasamfélagsins og með samstöðu um sanngjarna dreifingu fjárhagsbyrða af þeim kostnaði sem aðgerðum fylgir. "Heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun, Parísarsamkomulagið um baráttu gegn loftslagsbreytingum og Addis Ababa-samkomulagið um fjármögnun þróunar frá 2015 er nú sá rammi sem afmarkar aðgerðir, með svipuðum hætti og þúsaldarmarkmið SÞ gerðu á sínum tíma. Ljóst er að barátta gegn fátækt og hungri samhliða aðgerðum til að draga úr og takast á við áhrif loftslagsbreytinga krefst mun meira fjármagns en áður.
Kallað á einkageirann
Fram kemur að þar sem opinberir fjármunir duga engan veginn til að standa straum af nauðsynlegum aðgerðum í fátækum löndum hafi alþjóðasamfélagið kallað á einkageirann/atvinnulífið í efnaðri löndum til að gera meira í formi fjárfestinga og viðskipta við þróunarlönd. "Til viðbótar við opinbert þróunarfé (ODA) þarf einnig að stuðla að auknum fjárfestingum í lág- og millitekjulöndum og gegnir atvinnulífið/einkageirinn þar lykilhlutverki. Opinber þróunaraðstoð mun þó áfram vera miðlæg, einkum í fátækustu löndunum, því hún stuðlar að uppbyggingu vinnuafls með fjárfestingum í menntun, vatni og heilbrigðismálum, bætir efnahagslega innviði, einkum rafmagn og samskipti, og styrkir starfsumhverfi atvinnulífsins með því að styðja við umbætur í stjórnsýslu," segir í skýrslunni.
Utanríkisþjónusta til framtíðar; hagsmunagæsla í síbreytilegum heimi/ Utanríkisráðuneytið
150 tillögur um það sem mætti betur fara í utanríkisþjónustunni/ Vísir
Breytingar í utanríkisþjónustunni/ RÚV
Íslandi verði mörkuð ný staða í breyttum heimi/ Kjarninn
Varnarmálaskrifstofa verði endurreist/ Mbl.is
Nýjar tengingar í breyttum heimi, leiðari Kjarnans