Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2021 Forsætisráðuneytið

1049/2021. Úrskurður frá 29. nóvember 2021.

Úrskurður

Hinn 29. nóvember 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1049/2021 í máli ÚNU 21080012.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 17. ágúst 2021, fór B, f.h. A, fram á endurupptöku máls ÚNU 21020012 sem lauk þann 14. júní 2021 með úrskurði nr. 1019/2021. Í málinu var deilt um afgreiðslu Skipulagsstofnunar á beiðni kæranda um afhendingu afrits allra gagna sem tengjast máli sem skráð er undir máli nr. 201901056 hjá Skipulagsstofnun og varðaði umsókn kæranda um að hljóta skráningu á lista yfir þá sem heimilt er að sinna gerð skipulagsáætlana.

Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að stofnuninni hefði verið rétt að líta svo á að ákvörðun um hvort orðið yrði við umsókn um slíka skráningu fæli í sér ákvörðun um rétt eða skyldu í skilningi 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Sem umsækjandi um að hljóta skráningu á listann væri kærandi því aðili máls í skilningi stjórnsýslulaga og nyti því réttar til aðgangs að gögnum þess máls samkvæmt ákvæðum IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærunni var því vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hún féll utan gildissviðs upplýsingalaga, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna.

Í endurupptökubeiðni kæranda, dags. 17. ágúst 2021, kemur fram að fyrir nefndinni hafi ákvörðun um synjun kæranda að hljóta skráningu á umræddan lista ekki verið til efnislegrar umfjöllunar, heldur sú ákvörðun Skipulagsstofnunar um að synja kæranda um aðgang að upplýsingum. Skipulagsstofnun hafi af einhverjum ástæðum farið með málið í þann farveg að fjalla efnislega um umþrætta ákvörðun stofnunarinnar er varðaði synjun um veru á fyrrgreindum lista í stað þess að fjalla um ástæður þess að synjað hafði verið um aðgang að upplýsingum. Vandséð sé hvernig stofnunin geti misskilið starfssvið og vettvang nefndarinnar með framangreindum hætti. Skipulagsstofnun hafi því ekki fært fram viðhlítandi skýringar fyrir kærðri ákvörðun og ekki verði horft fram hjá því að málatilbúnaður stofnunarinnar sé órökstuddur. Að auki hafi stofnunin farið fram á að leynd myndi hvíla yfir tilteknum gögnum gagnvart kæranda sem afhent voru nefndinni. Verði það að teljast með nokkrum ólíkindum enda snúi umrætt mál í eðli sínu að einkahagsmunum kæranda og geti ekki með nokkru móti talist varða það ríka almannahagsmuni að beita skuli svo íþyngjandi úrræði gagnvart kæranda sem krefjist aðgangs að upplýsingum er varða kæranda eina.

Í beiðni kemur einnig fram að kærandi sé að afla upplýsinga í því skyni að varpa ljósi á órökstudda ákvörðun Skipulagsstofnunar um að synja um veru á listanum. Kærandi treysti á nefndina sem öryggisventil, í samræmi við grundvallarhugsun löggjafans sem liggi að baki tilvist nefndarinnar og snúi m.a. að meginhlutverki nefndar í umræddu tilliti. Kærandi segir úrskurð nefndarinnar vekja spurningar fremur en svör og telur að líta beri svo á að úrskurðarnefndinni hafi bersýnilega orðið á mistök við meðferð málsins. Af þeim sökum sé þess krafist að úrskurðarnefndin taki málið upp og meðhöndli til samræmis við efni og ástæður máls.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um þá niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál í úrskurði nr. 1019/2021 að vísa frá kæru kæranda til úrskurðarnefndarinnar þar sem kæran félli utan gildissviðs upplýsingalaga samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna.

Fyrirmæli um endurupptöku stjórnsýslumála koma fram í 24. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. þess ákvæðis segir svo:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“

Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál hafa engar nýjar upplýsingar komið fram í málinu sem breytt geta þeirri niðurstöðu að réttur kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum ráðist af stjórnsýslulögum, en ekki upplýsingalögum, en fyrir liggur að umbeðin gögn tilheyra stjórnsýslumáli sem kærandi var aðili að. Upplýsingalög gilda ekki um slíkan aðgang samkvæmt skýrum fyrirmælum 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna. Því eru ekki uppfyllt skilyrði fyrir endurupptöku málsins samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga.

Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurði hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur röksemdir kæranda ekki leiða í ljós slíkar vísbendingar. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hafnað beiðni um endurupptöku máls ÚNU 21020012 sem lauk þann 14. júní 2021 með úrskurði nr. 1019/2021.

Í tilefni af þeim sjónarmiðum sem fram koma í erindi kæranda telur úrskurðarnefndin rétt að árétta að þegar aðili stjórnsýslumáls óskar eftir gögnum er tengjast málinu gilda ákvæði stjórnsýslulaga um aðgang að gögnunum, ekki ákvæði upplýsingalaga. Synjum á afhendingu gagnanna verður í slíkum tilfellum ekki kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, heldur eftir atvikum til þess stjórnvalds sem fer með æðstu stjórn viðkomandi málefnasviðs, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og gildandi forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands hverju sinni.

Úrskurðarorð:

Beiðni B f.h. A, dags. 17. ágúst 2021, um endurupptöku máls ÚNU 21020012 sem lauk þann 14. júní 2021 með úrskurði nr. 1019/2021 er hafnað.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta