Banaslys í umferðinni 2003
Út er komin skýrsla Rannsóknarnefndar umferðarslysa um banaslys í umferðinni 2003.
Á árinu sem leið létu 23 vegfarendur lífið í umferðarslysum á Íslandi en það eru 6 færri en árið 2002. Flestir sem fórust í banaslysum á síðasta ári voru eldri vegfarendur, það er 65 ára og eldri og bendir Rannsóknarnefndin á að veita þurfi eldri vegfarendum meiri athygli í umferðaröryggisstarfinu en nú er gert. Jafnframt er í skýrslunni umfjöllun um slys erlendra ferðmanna, en nefndin hefur hafist handa við sérstaka úttekt á þeim flokki slysa.
Af einstökum ábendingum má nefna að nefndin telur brýnt að komið verði æfingasvæði fyrir unga ökumenn, að skoðað verði að koma á fót leiðbeinandi hraða og merkja sérstaklega erfiða vegarkafla í þjóðvegakerfinu. Því til stuðnings bendir nefndin á að árin 1998-2003 urðu 17 banaslys í umferðinni þar sem ekið var of hratt í beygju.
Rannsóknarnefndin hafði frumkvæði að því að láta kanna sérstaklega aksturshætti ungra ökumanna í rannsókn meðal framhaldsskólanema. Niðurstöður rannsóknarinnar leiða meðal annars í ljós að aðstæður ungmenna og lífsstíl spá allsterkt um hvort ungmenni aka of hratt eða undir áhrifum vímuefna. Góð líðan ungmenna í skóla og samvera með fjölskyldu draga úr áhættuhegðun í umferðinni. Niðurstöður gefa vísbendingar um nýjar leiðir í forvarnarstarfi meðal ungra ökumanna sem vert er að feta.
Skýrsluna má nálgast hér.
Ráðuneytið bendir einnig á heimasíðu Rannsóknarnefndar umferðarslysa, en á síðunni er meðal annars að finna fjölda skýrslan sem snerta umferðaröryggi.