Hoppa yfir valmynd
28. mars 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 174/2011

Miðvikudaginn 28. mars 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 174/2011:

A

gegn

B

 og kveðinn upp svohljóðandi

  

ÚRSKURÐUR :

Með bréfi, dags. 17. nóvember 2011, skaut A, til úrskurðarnefndar synjun B frá 29. ágúst 2011 um undanþágu frá reglum C um félagslega heimaþjónustu.

 

I. Málavextir.

Kærandi er öryrki vegna margvíslegra bakvandamála og hefur verið síðan 1992 eins og fram kemur í læknisvottorði D, dags. 15. nóvember 2011. Fram kemur að bakvandamálin skerði hreyfigetu kæranda svo að heimilisverk og þrif valdi henni erfiðleikum. Kærandi kveðst einnig hafa þróað með sér þunglyndi og að hún sé með magasár. Eiginmaður kæranda er einnig 75% öryrki. Sonur kæranda, 18 ára gamall, á lögheimili hjá foreldrum sínum en hann stundar nám í E og hefur aðsetur hjá ættingjum í F. Kærandi hefur undanfarin ár fengið heimilisaðstoð frá sveitarfélaginu en þeirri aðstoð var hætt í kjölfar setningar nýrra reglna um félagslega heimaþjónustu.

 

II. Málsástæður kæranda.

Kærandi kærir til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þá ákvörðun B að fella alfarið niður heimaþjónustu sem hún hafi haft undanfarin ár. Hún krefst þess að úrskurðarnefndin úrskurði að B verði gert að veita henni áfram heimilisaðstoð. Kærandi greinir frá því í kæru að veikindi hennar hafi haft í för með sér hreyfihömlun, lítið úthald og slæma verki. Hún kveðst halda heimili með eiginmanni sínum, sem sé einnig 75% öryrki, og 18 ára syni þeirra.

Í bréfi kæranda, dags. 11. janúar 2012, til úrskurðarnefndarinnar segir meðal annars að sú breyting hafi orðið á heilsu hennar að hún hafi þróað með sér þunglyndi og sæki aðstoð hjá geðlækni vegna þess. Þá hafi hún einnig greinst með magasár. Sonur hennar stundi nú nám í E og hafi aðsetur hjá ættingjum í F en sé með skráð lögheimili hjá foreldrum sínum. Það sé því vart hægt að tala um að hann sé heimilismaður á heimili foreldra sinna.

Kærandi tekur fram að mikill dagamunur sé á heilsufari og líðan eiginmanns hennar. Það komi tímabil þar sem hann sé alls óvinnufær og aftur komi tímabil sem hann geti stundað vinnu. Geðlæknir hans leggi ríka áherslu á að hann stundi vinnu þegar andleg og líkamleg heilsa hans gefi tilefni til.

Kærandi bendir á að undanfarna sex mánuði frá því að heimilisaðstoðin hafi verið tekin af henni hafi hún verið upp á velvilja ættingja og vina komin með aðstoð við heimilisþrif. Henni hrjósi hugur við ef það sé sú framtíð sem henni sem ætlað að búa við.

  

III. Málsástæður kærða.

Fram kemur af hálfu kærða að C hafi sett reglur um félagsþjónustu sveitarfélaga með samþykkt bæjarstjórnar C þann 8. júní 2011 en reglurnar hafi áður verið samþykktar í félagsmálaráði C þann 12. maí 2011. Áður en reglurnar hafi verið samþykktar hafi réttur umsækjenda um félagslega heimaþjónustu verið skilgreindur mjög rúmur. Umsóknir allra öryrkja um félagslega heimaþjónustu hafi verið samþykktar, meðal annars í tilviki kæranda.

Eftir að reglur um félagslega heimaþjónustu hafi verið samþykktar í bæjarstjórn hafi kæranda verið sent bréf, dags. 21. júní 2011, þar sem henni hafi verið tilkynnt um brottfall félagslegrar heimaþjónustu frá og með 1. júlí 2011. Ástæður þess hafi verið nýjar reglur um félagslega heimaþjónustu, en í 2. gr. reglnanna sé kveðið á um að ekki sé að jafnaði veitt þjónusta sem aðrir heimilismenn geti annast. Í bréfinu, sem hafi verið undirritað af deildarstjóra félagslegrar heimaþjónustu, hafi kæranda jafnframt verið gefinn kostur á að skjóta ákvörðuninni til félagsmálaráðs, eftir atvikum að undangengnu mati.

Kærandi hafi skotið ákvörðun deildarstjóra öldrunarþjónustu til félagsmálaráðs með tölvupósti, dags. 30. júní 2011. Í bréfinu komi fram að kærandi og eiginmaður hennar séu 75% öryrkjar en eiginmaður hennar vinni fulla vinnu. Jafnframt komi fram að á heimilinu sé 18 ára sonur kæranda sem hafi haft hug á að hefja nám síðastliðið haust og vinna samhliða. Með bréfi, dags. 29. ágúst 2011, hafi kæranda verið tilkynnt ákvörðun félagsmálaráðs um að synja henni um félagslega heimaþjónustu. Í bréfinu sé ákvörðunin rökstudd með þeim hætti að fyrir hendi sé ekki réttur til félagslegrar heimaþjónustu í skilningi 2. gr. reglna um félagslega heimaþjónustu á vegum C, enda sé óskað þjónustu sem aðrir heimilismenn geti annast. Sérstaklega hafi verið tekið fram að ekki væri litið svo á að atvinna og nám annarra heimilismanna hefði áhrif á getu þeirra til að sinna heimilishaldi. Í niðurlagi bréfsins hafi verið getið um málskotsrétt kæranda til úrskurðarnefndar.  

  

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum.

Í 25. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um félagslega heimaþjónustu til handa þeim sem búi í heimahúsum og geti ekki séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar eða fötlunar. Í 28. gr. laganna segir að áður en aðstoð sé veitt skuli sá aðili, sem fari með heimaþjónustu, meta þörfina í hverju einstöku tilviki. Í 29. gr. laganna er sveitarstjórn gert að setja nánari reglur um framkvæmd félagslegrar heimaþjónustu. B setti sér reglur um félagslega heimaþjónustu með samþykkt bæjarstjórnar C þann 8. júní 2011 og voru þær samþykktar í félagsmálaráði C þann 12. maí 2011.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort félagsmálaráði C beri að veita kæranda heimaþjónustu á grundvelli 2. gr. reglna um félagslega heimaþjónustu á vegum C, en hún hefur notið slíkrar þjónustu undanfarin ár. Í 2. gr. nefndra reglna kemur fram að rétt til félagslegrar heimaþjónustu eigi þeir sem búi í heimahúsum og geti ekki séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar, fötlunar eða af öðrum ástæðum sem félagsmálaráð meti gildar. Ekki sé að jafnaði veitt þjónusta sem aðrir heimilismenn geti annast.

Í málinu er upplýst að kærandi naut framangreindrar aðstoðar, en í kjölfar setningar nýrra reglna C hafi verið ákveðið að hætta aðstoð við kæranda. Hefur kærandi meðal annars lagt fram vottorð læknis þar sem fram kemur að hún hafi vegna margvíslegra bakvandamála haft skerta hreyfigetu og að hún þurfi af þeim sökum aðstoð við heimilisstörf. Ekki kemur fram í málinu að aðstæður kæranda hafi verið kannaðar áður en ákvörðun var tekin um að fella niður greiðslur til kæranda, en kærandi hefur meðal annars haldið því fram að eiginmaður hennar sé 75% öryrki og þunglyndur, en sonur hennar stundi nám í E og sé nánast fluttur að heiman. Sýnist ákvörðun kærða á því einu byggð að á heimili kæranda hafi búið tveir aðrir fullorðnir einstaklingar, án frekari skoðunar á högum kæranda.

Það er álit úrskurðarnefndarinnar að fullt tilefni hafi verið til þess að rannsaka mál kæranda betur áður en ákvörðun var tekin um að fella niður greiðslur til hennar, í því skyni að kanna hvort kærandi hefði raunverulega þörf fyrir þá aðstoð sem hún hafði áður notið og til stóð að fella niður. Að mati úrskurðarnefndarinnar er ekki nóg að vísa til þess eins að á heimili kæranda séu tveir fullorðnir einstaklingar auk umsækjanda, enda lá fyrir stjórnvaldinu vottorð sérfræðings þar sem skýrt var tekið fram að slík aðstoð væri æskileg. Verður ekki á það fallist að í því hafi falist raunverulegt mat skv. 28. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, en slíkt mat þarf að mati úrskurðarnefndarinnar einnig að fara fram þegar til greina kemur að fella niður aðstoð sem einstaklingur kann að hafa notið áður eins og hér háttar til.

Ekki verður talið að úr þessum annmarka verði bætt á vettvangi úrskurðarnefndarinnar. Því er nauðsynlegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu aftur til félagsmálaráðs C til löglegrar meðferðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir, formaður, Gunnar Eydal og Margrét Gunnlaugsdóttir, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun félagsmálaráðs C frá 29. ágúst 2011, um synjun um undanþágu frá reglum, er felld úr gildi og málinu vísað aftur til fjölskylduráðs C til löglegrar meðferðar.

 

 

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

 

Gunnar Eydal                                    Margrét Gunnlaugsdóttir

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta