Hoppa yfir valmynd
28. mars 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 183/2011

Miðvikudaginn 28. mars 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 183/2011:

A

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 30. nóvember 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, hér eftir nefndur kærði, frá 22. september 2011 vegna synjunar á umsókn um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi kærði ákvörðun um synjun á endurútreikningi lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni að B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

Skráð fasteignamat á íbúð kæranda að B var 16.800.000 kr. og 110% fasteignamat var 18.480.000 kr. Verðmat íbúðarinnar var 17.800.000 kr. samkvæmt mati löggilts fasteignasala frá C, sem fram fór þann 11. október 2011. Við afgreiðslu á umsókn kæranda um niðurfærslu áhvílandi veðlána var miðað við að verðmæti fasteignar hennar væri 110% af framangreindu verðmati hins löggilta fasteignasala, eða 19.580.000 kr. Staða áhvílandi íbúðalána 1. janúar 2011 var 20.772.018 kr.

Samkvæmt meðfylgjandi upplýsingum úr Þjóðskrá Íslands er kærandi, A, skráð eigandi 40% íbúðarinnar að B. Auk hennar er D skráður 40% eigandi íbúðarinnar og E er skráð 20% eigandi íbúðarinnar.

Í niðurstöðu útreikninga Íbúðalánasjóðs vegna leiðréttingar lána í 110% veðsetningarhlutfall kemur fram að aðrar eignir íbúðareigenda séu eftirfarandi bifreiðir: Bifreiðin N metin til verðs á 1.167.858 kr., bifreiðin T, metin til verðs á 553.000 kr. en að teknu tilliti til áhvílandi lána 165.727 kr. var hún metin til verðs á 387.273 kr. og loks bifreiðin U metin til verðs á 80.000 kr.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 2. desember 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dags. 20. desember 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 22. desember 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar og henni gefinn kostur á að koma frekari athugasemdum á framfæri. Kærandi lagði meðal annars fram gögn úr ökutækjaskrá Umferðarstofu um bifreiðaeign eigenda íbúðarinnar.

 

III. Sjónarmið kæranda

Kærandi lagði fram gögn úr ökutækjaskrá Umferðarstofu um bifreiðaeign íbúðareigenda að B. Þar kemur fram að A keypti bifreiðina U af E þann 29. desember 2010 og bifreiðina T keypti D þann 3. nóvember 2011 af F. Bifreiðin N er skráð á G en hann er ekki skráður eigandi íbúðarinnar að B og samkvæmt ökustækjaskrá Umferðarstofu var hann skráður í Póllandi.

E, er skráð eigandi að 20% í íbúðinni að B. Hún lýsir því yfir að hún eigi ekkert í umræddri íbúð og heldur ekki neinn þeirra bíla sem nefndir eru í endurútreikningi Íbúðalánasjóðs. Hún hafi aldrei borgað af neinum lánum sem tengjast þessari íbúð og nafn hennar sé þar trúlega vegna þess að það hafi komið fram í greiðslumati vegna íbúðakaupanna. Maður hennar hafi hætt að vinna á Íslandi 30. júní sl. og hafi farið með bifreiðina N með sér til Póllands.

 

IV. Sjónarmið kærða

Kærði bendir á að A ásamt E og D séu skráð eigendur íbúðarinnar og því skuldarar hjá Íbúðalánasjóði. Aðfararhæfar eignir þeirra lækki niðurfærslu lána, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011, og miðað hafi verið við eignastöðu um áramótin 2010–2011.

 

V. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Kærandi óskar þess að mál hennar verði endurskoðað, þótt frekari kröfur hennar þar að lútandi séu nokkuð óljósar. Eins og fram kemur í gögnum málsins er kærandi skráður eigandi að 40% fasteignarinnar B. Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 þar sem kærða er veitt heimild til þess að færa niður veðkröfur kemur meðal annars fram að lækkun sé háð því skilyrði að lántaki eða maki hans eigi ekki aðrar aðfararhæfar eignir með veðrými sem svari að hluta eða öllu leyti til fyrirhugaðrar niðurfærslu veðkröfu. Sama regla kemur fram í lið 2.2 í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011. Með aðfararhæfum eignum er átt við allar eignir nema þær séu sérstaklega undanþegnar fjárnámi. Aðfararhæfar eignir eru til dæmis fasteignir, bifreiðar og bankainnstæður.

Í niðurstöðum útreikninga vegna leiðréttinga lána kæranda kemur fram hjá Íbúðalánasjóði að veðsetning kæranda sé umfram 110% að fjárhæð 1.192.018 kr. og að frádráttur vegna annarra eigna nemi 1.635.131 kr. Sú fjárhæð felist í veðrými sem myndist af bifreiðaeign eigenda íbúðarinnar. Íbúðalánasjóður tiltekur bifreiðaeign kæranda og meðeigenda hennar í íbúðinni að B þannig:

„Bifreiðin N með veðrými 1.167.858 kr., bifreiðin T með veðrými 387.273 kr. og bifreiðin U með veðrými 80.000 kr. eða samtals veðrými að fjárhæð 1.635.131 kr.“

Samkvæmt ökutækjaskrá Umferðarstofu er hið rétta að bifreiðin N hefur aldrei verið í eigu hinna þriggja eigenda íbúðarinnar að B. Bifreiðina T keypti einn eigenda íbúðarinnar, D, þann 3. nóvember 2011 þannig að hún var ekki í hans eigu 1. janúar 2011. Bifreiðin U var skráð á A 29. desember 2010. Veðrými á þeirri bifreið var 80.000 kr. og kemur sú fjárhæð ein til frádráttar niðurfærslu veðkrafna.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er ákvörðun Íbúðalánasjóðis í máli A felld úr gild og vísað til löglegrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, um endurútreikning á lánum A, áhvílandi á fasteigninni að B, er felld úr gildi og málinu vísað til löglegrar meðferðar.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta