Hoppa yfir valmynd
28. mars 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 4/2012

Miðvikudaginn 28. mars 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 4.2012:

A

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 28. desember 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, hér eftir nefndur kærði, dags. 19. desember 2011, þar sem kæranda var synjað um greiðsluerfiðleikaaðstoð.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi hefur kært synjun um greiðsluerfiðleikaaðstoð til úrskurðarnefndarinnar, með bréfi dags. 28. desember 2011.

Kærandi sótti um greiðsluerfiðleikaaðstoð. Greiðsluerfiðleikanefnd Íbúðalánasjóðs komst að þeirri niðurstöðu að hún gæti ekki orðið við beiðni um greiðsluerfiðleikaaðstoð, sbr. 4. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001, um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs. Lausn fyndist ekki í umsókn kæranda þar sem greiðslubyrði væri umfram greiðslugetu. Meðal gagna málsins er greiðsluerfiðleikamat Landsbankans, dags. 7. desember 2011. Þar kemur fram að ekki sé greiðslugeta til þess að greiða af því láni sem var í frystingu árið 2011.

Kærandi telur sig eiga rétt á frystingu áfram og óskar eftir því að hinni kærðu ákvörðun verði hrundið.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 4. janúar 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dags. 23. janúar 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 25. janúar 2012, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda þann 6. febrúar 2012.

 

III. Sjónarmið kæranda

Í rökstuðningi með kæru sinni segir kærandi að hann hafi sótt um áframhaldandi frystingu á láni hjá Íbúðalánasjóði, en lánið hafi verið í frystingu árið 2011, þar sem séð væri fram á að hann gæti ekki bætt því láni við sig á árinu 2012. Rétt náist um hver mánaðamót að greiða reikninga og eiga fyrir mat og öðrum nauðsynjum. Samkvæmt lögum sé hægt að sækja um áframhaldandi frystingu ef ekki sé greiðslugeta fyrir að greiða af láni og því sé óskiljanlegt að Íbúðalánasjóður hafi hafnað umsókninni á þeim grundvelli að greiðslubyrði væri umfram greiðslugetu. Þessu er mótmælt og bent á að með þessari niðurstöðu virðist Íbúðalánasjóður vera að veita þau skilaboð að eftir alla baráttuna, meðal annars með því að taka út viðbótarlífeyrissparnað til að vera ekki í vanskilum, sé kominn tími til að gera hann gjaldþrota. Þetta sé óskiljanleg ákvörðun. Kærandi óskar þess að hinni kærðu ákvörðun verði hrundið og ákveðið verði að veita honum frystingu á umræddu láni árið 2012.

 

IV. Sjónarmið kærða

Í bréfi Íbúðalánasjóðs til úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. janúar 2012, er bent á að skilyrðum greiðsluerfiðleikaaðstoðar Íbúðalánasjóðs sé ekki fullnægt í máli kæranda þar sem greiðslubyrði eftir frestun rúmist ekki innan greiðslugetu, sbr. 4. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001, um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs. Greiðsluerfiðleikamat Landsbankans, dags. 7. desember 2011, staðfesti að greiðslugeta sé ekki til staðar.

 

V. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Kærandi sótti um greiðsluerfiðleikaaðstoð vegna erfiðleika hans við að greiða af lánum sínum og var synjað á þeim grundvelli að greiðslubyrði hans rúmaðist ekki innan greiðslugetu.

Í 4. tölul. 4. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 584/2001, kemur fram að skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar sé að greiðslubyrði umsækjanda eftir skuldbreytingu og/eða frestun á greiðslum og/eða lengingu lánstíma rúmist innan greiðslugetu. Um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir úrræðinu sem sótt er um. Eins og fram kemur í gögnum málsins myndi samþykki um greiðsluerfiðleikaúrræði verða til þess að greiðslubyrði kæranda yrði umfram getu hans og uppfyllir hann því ekki skilyrði 4. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar. Með framangreindum athugasemdum er hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs um að synja A um greiðsluerfiðleikaaðstoð er staðfest.

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta