Dagur upplýsingatækninnar með nýju sniði föstudaginn 2. nóvember
Árlegur dagur upplýsingatækninnar, UT-dagurinn, verður haldinn föstudaginn 2. nóvember næstkomandi á Hótel Hilton Nordica í Reykjavík. Innanríkisráðuneytið stendur að dagskránni í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og Skýrslutæknifélagið.
UT-dagurinn verður með öðru sniði en síðustu ár því fyrir hádegi verða settar upp vinnustofur en eftir hádegið fundar innanríkisráðuneytið með hópi starfsmanna ríkis og sveitarfélaga ásamt fulltrúum hagsmunaaðila um nýja stefnu um upplýsingasamfélagið.
Kastljósinu á UT-deginum verður beint að því sem efst er á baugi í málaflokknum, svo sem rafrænu lýðræði, öryggi, hagræðingu, rafrænni þjónustu og endurnýtanlegum gögnum. Þá verður rætt um mælikvarða fyrir opinbera vefi. Boðið verður uppá sex vinnustofur og verða þrjár í gangi samtímis frá kl. 9-12.30:
- Lýðræðisleg virkni og notkun samfélagsmiðla á opinberum vefjum
- Tölvuský og arkitektúr kerfa – tækifæri til hagræðingar og aukinnar samvirkni
- Samstarf ríkis og sveitarfélaga um rafræna þjónustu
- Hvernig tryggjum við öryggi Internetsins og opinberra kerfa?
- Hvað er spunnið í opinbera vefi? - Endurskoðun á mælikvörðum fyrir opinbera vefi
- Opin og endurnýtanleg gögn
Á hverri vinnustofu verða flutt þrjú stutt inngangserindi og að þeim loknum verða 40-45 mínútna umræður þar sem áhersla verður lögð á að fá fram sem flest viðhorf úr sal. Vinnustofurnar eru öllum opnar en nauðsynlegt er að skrá þátttöku á vefnum sky.is eigi síðar en kl. 11 fimmtudaginn 1. nóvember. Þar er einnig að finna nánari upplýsingar um dagskrána.
Ný stefna undirbúin
Eftir hádegið fundar innanríkisráðuneytið með hópi starfsmanna ríkis og sveitarfélaga ásamt fulltrúum hagsmunaaðila um nýja stefnu um upplýsingasamfélagið. Fundurinn hefst með ávarpi Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra og kynningu á stöðu málaflokksins. Markmið samráðsfundarins er að skilgreina og móta verkefni sem æskilegt væri að hrinda í framkvæmd á næstu árum undir merkjum nýrrar stefnu.