Hoppa yfir valmynd
7. mars 2011 Forsætisráðuneytið

A-361/2011. Úrskurður frá 22. febrúar 2011

 

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 22. febrúar 2011 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-361/2011.

 

Kæruefni og málsatvik

Með bréfi, dags. 30. nóvember 2010, kærði [X] hdl. f.h. [Y] hdl. vegna [A] ehf. þá ákvörðun Seðlabanka Íslands, dags. 1. nóvember að:

 

„1) synja afhendingu ljósrita allra skjala og gagna, sbr. 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 (hér eftir upplýsingalög), í eftirfarandi máli:

 

Beiðni Magma Energy Sweden AB, kaupanda hlutabréfa Geysis Green Energy í HS Orku, um undanþágu frá reglum um gjaldeyrismál til að kaupa íslenskar krónur á aflandsmarkaði og flytja til Íslands í því skyni að greiða fyrir umrædd kaup.

 

2) synja um afhendingu upplýsinga um fjölda undanþága frá reglum um gjaldeyrismál frá því að reglurnar tóku gildi árið 2008 og ljósrita af niðurstöðum þeirra beiðna sem fallist var á, sbr. heimild 3. mgr. 3. gr. upplýsingalaga um rýmri aðgang en lögbundinn er samkvæmt upplýsingalögum.“

 

Í synjun Seðlabanka Íslands, dags. 1. nóvember, kemur fram að samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál er Seðlabanka Íslands heimilt að veita undanþágur frá banni á fjármagnshreyfingum meðal annars samkvæmt bráðabirgðaákvæði I, liggi fyrir umsögn þar að lútandi. Í 15. gr. laga nr. 87/1992 er kveðið á um að þeir sem annist framkvæmd þeirra laga séu bundnir þagnarskyldu um hagi einstakra viðskiptamanna og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skuli fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þá er tekið fram að viðskiptamenn í skilningu ákvæðisins séu bæði einstaklingar og lögaðilar sem leggja fram beiðni um gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar, sbr. 10. gr. laganna. Með gagnályktun frá 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, þar sem fram kemur að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum, sé Seðlabanka Íslands óheimilt að afhenda kæranda umbeðnar upplýsingar og beiðni hans um upplýsingar um lið eitt með vísan til þess synjað.

 

Hvað lið tvö varðar vísar Seðlabanki Íslands til þess í synjun sinni, dags. 1. nóvember, að í upphaflegri beiðni kæranda, dags. 27. ágúst, sé sérstaklega tekið fram að beiðnin sé ekki byggð á upplýsingalögum heldur þeirri almennu reglu að stjórnsýslan skuli vera gagnsæ og opin og jafnræðis skuli gætt við ákvarðanatöku um atriði er varða réttindi og/eða skyldur almennings. Engu að síður sé í beiðninni vísað til 3. mgr. 3. gr. upplýsingalaga um heimild til að veita aukinn aðgang að gögnum. Af þessu tilefni áréttar Seðlabaki Íslands að bankinn sé bundinn af 15. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, um þagnarskyldu. Samkvæmt ákvæðinu sé bankanum óheimilt að veita framangreindar upplýsingar. Þá er tekið fram að heimild stjórnvalds til að veita rýmri aðgang að gögnum máls samkvæmt 3. mgr. 3. gr. upplýsingalaga sé háð því að ákvæði laga um þagnarskyldu standi því ekki í vegi. Þagnarskylduákvæði 15. gr. laga nr. 87/1992 gangi því framar heimildarákvæði 3. mgr. 3. gr. upplýsingalaga og er beiðninni synjað með vísan til þessa.   

 

Málsmeðferð

Eins og áður var rakið barst kæra máls þessa með bréfi, dags. 30. nóvember 2010. Í kærunni kemur fram að fyrir liggi að kaupverð á hlut Geysis Green Energy í HS Orku sé um 16 milljarðar króna og að greitt hafi verið fyrir hlutinn með reiðufé og yfirtöku skuldabréfa, sbr. frétt um málið á fréttavefnum mbl.is frá 17. maí 2010. Af hálfu kæranda er á því byggt að 15. gr. laga nr. 87/1992 komi ekki í veg fyrir að Seðlabanka Íslands sé skylt og/eða heimilt að afhenda þau gögn sem um ræðir. Þá kemur eftirfarandi m.a. fram í kærunni:

 

„Málatilbúnað Seðlabankans verður að skilja á þann veg að tilvitnað þagnarskylduákvæði 15. gr. laga nr. 87/1992 gangi framar meginreglu upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings.

 

Ekki er af hálfu bankans vísað til þess að takmarkanir á aðgangsrétti samkvæmt 4. - 6. gr. upplýsingalaga eigi við. Má vera ljóst af því að bankinn telur að ekki þurfi að meta hvort þau ákvæði eigi við eða að öðru leyti hvort upplýsingarnar/gögnin eru þess efnis að eðlilegt sé að um þau sé leynd.

 

Þessum skilningi og málatilbúnaði Seðlabanka Íslands er alfarið hafnað. Þó umrætt þagnarskylduákvæði 15. gr. laga nr. 87/1992 sé talið sérákvæði laga um þagnarskyldu er ekki að sjá að þeir hagsmunir og/eða gögn sem óskað er eftir séu þess efnis að trúnaður skuli ríkja um það, hvorki samkvæmt lögum eða eðli máls.

 

...

 

Ákvæði 15. gr. snýr þannig ekki að því að vernda upplýsingar um einstakar undanþágur, eins og þá sem mál þetta snýst um, enda varðar slík undanþágubeiðni tæplega mikilvæg atriði í rekstri umrædds félags, hvorki fjárhagslega eða viðskiptalega. Hér verður að hafa í huga að viðskiptin sem slík eru opinber sem og upplýsingar sem þau varða, svo sem kaupverð.

 

Það er því ekki að sjá að þær upplýsingar og gögn sem mál þetta snýr að sé þesslegt að ástæða sé til að það njóti sérstakrar verndar gegn upplýsingarétti almennings. Hér er ekki á nokkurn hátt verið að vernda rekstrar- og/eða fjárhagslega hagsmuni viðskiptamanna bankans í skilningi 15. gr., enda standa hvorki önnur lagaákvæði til þess að þessi atriði skuli fara leynt né byggir það á eðli máls.

 

Þá má einnig benda á að þegar 15. gr. laga nr. 87/1992 var lögfest var ekki um það að ræða að sækja þyrfti um slíka undanþágu sem hér um ræðir. Því má þar af leiðandi halda fram að þagnarskylduregla 15. gr. eigi ekki við í þessu tilviki.

 

 

Loks ber að vekja athygli á því að upplýsingarnar sem um ræðir eiga við um framkvæmd Seðlabanka Íslands á reglum varðandi gjaldeyrishöft. Um er að ræða verulega íþyngjandi reglur og munur á beitingu þeirra milli aðila til þess fallinn að vera mjög íþyngjandi og skaðlegur aðilum á samkeppnismarkaði. Því er sérstaklega brýnt að slík leynd hvíli ekki yfir málsmeðferðinni að þeim sem lúta reglunum sé gert ókleift að átta sig á því hvaða forsendur valda því að undanþágur séu veittar.

 

Verður hér eins og ávallt við meðferð stjórnsýsluvalds að hafa í huga eina helstu meginreglu stjórnsýsluréttarins, þ.e. jafnræðisregluna. Sú regla verður ekki virt nema stjórnsýsla og öll framkvæmd hennar sé opin og gegnsæ og öllum sem þess óska sé gefið færi á að kynna sér framkvæmd sambærilegra mála en leynd eins og sú sem Seðlabankinn ber fyrir sig er einmitt til þess fallin að vekja upp efasemdir um að jafnræðis sé gætt.“

 

Með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 2. desember 2010, var Seðlabanka Íslands send kæran og veittur frestur til að gera athugasemdir við hana til 10. desember. Óskaði úrskurðarnefndin jafnframt eftir því að sér yrðu látin í té afrit af umbeðnum gögnum innan sama frests.

 

Athugasemdir Seðlabanka Íslands ásamt gögnum málsins bárust úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 15. desember. Eftirfarandi kemur m.a. fram í bréfinu:

 

„Með þeim breytingum sem gerðar voru á lögum nr. 87/1992 í árslok 2008, sbr. lög nr. 134/2008, var bankanum fengin heimild til að takmarka og stöðva tiltekna flokka fjármagnshreyfinga til og frá landinu og gjaldeyrisviðskipti sem þeim tengjast með útgáfu reglna, sbr. bráðabirgðaákvæði I. Eins og kemur fram í athugasemdum í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 134/2008 beindist umrædd breyting einkum að því að veita heimild til framangreindra takmarkana í lengri tíma en ákvæði 3. gr. laganna mælti fyrir um. Ber bankanum því eins og áður að bregðast við með þessum hætti meti hann það svo að þessir flokkar fjármagnshreyfinga og gjaldeyrisviðskipta valdi alvarlegum og verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum. Seðlabankinn hefur sett reglur um gjaldeyrismál á grundvelli framangreinds bráðabirgðaákvæðis, nú síðast nr. 370/2010. Samkvæmt þeim eru fjármagnshreyfingar til og frá landinu á milli innlendra og erlendra aðila sem og slík gjaldeyrisviðskipti óheimil nema með tilteknum þröngum undanþágum. Viðskiptamaður sem hyggur á fjármagnshreyfingu eða gjaldþrotaviðskipti og telur sig uppfylla undanþágu umræddra reglna leggur fram gögn því til staðfestingar.

 

Sem fyrr hefur Seðlabankinn heimild til að veita undanþágur frá reglum um gjaldeyrismál samkvæmt umsókn þar að lútandi, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 87/1992. Viðskiptamaður sem óskar eftir undanþágu frá reglum Seðlabankans leggur fram gögn með beiðni auk þess sem Seðlabankinn beinir þeim tilmælum til hans að hann leggi fram þau gögn og upplýsingar sem nauðsynlegt er til töku umræddrar ákvörðunar reynist slíkt nauðsynlegt. Það skal tekið fram að almennt er um að ræða gögn um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga eða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni lögaðila.

 

Fyrir liggur að beiðni [A] ehf. beinist að aðgangi að gögnum í máli sem varðar ákvörðun sem tekin er á grundvelli 1. mgr. 7. gr. laga nr. 87/1992. Þá liggur fyrir að Seðlabankinn synjaði beiðninni með vísan til 15. gr. laga nr. 87/1992. Eins og áður er rakið er tekið fram í því ákvæði að þeir sem annast framkvæmd laganna séu bundnir þagnarskyldu um hagi einstakra viðskiptamanna og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli málsins, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Ljóst er að Seðlabankinn annast framkvæmd laganna. Þá er ljóst að viðskiptamenn í skilningi þess ákvæðis eru bæði einstaklingar og lögaðilar sem leggja fram beiðni um gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingu og einstaklingar eða lögaðilar sem eru lokamóttakendur yfirfærslunnar, sbr. 10. gr. laganna. Samkvæmt því eru það viðskiptamenn í skilningi laganna sem geta sótt um undanþágu til Seðlabankans á grundvelli 1. mgr. 7. gr. laga nr. 87/1992. Fyrir liggur að upplýsingar í tengslum við slíkar beiðnir, hvort sem þær eru lagðar fram að frumkvæði viðskiptamanns eða að beiðni Seðlabankans, geta almennt varðað fjárhag, rekstur, samkeppnisstöðu og viðskiptahagsmuni þessara viðskiptamanna.

 

Ákvæði 15. gr. laga nr. 87/1992 er sérstakt þagnarskylduákvæði þar sem þær upplýsingar sem trúnaður skal ríkja um eru tilgreindar sérstaklega, þ.e. trúnaður skal ríkja um „hagi einstakra viðskiptamanna“. Af þessu leiðir að þagnarskylda hvílir á öllum þeim sem sjá um framkvæmd laganna, hvort sem um er að ræða Seðlabanka Íslands eða fjármálafyrirtæki. Þá er ljóst að ákvarðanir um gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingu til og frá landinu varða „hagi einstakra viðskiptamanna“, m.a. fjárhag, rekstur, samkeppnisstöðu og viðskiptahagsmuni þeirra.

 

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið og gagnályktun frá 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er Seðlabankanum óheimilt að láta af hendi upplýsingar sem varða beiðni um gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á milli landa í skilningi laga nr. 87/1992 og reglna settum á grundvelli þeirra hvort sem um er að ræða flutning eða móttöku yfirfærslunnar. Með vísan til þess er rétt að taka fram að ekki hefur verið tekin afstaða til aðgangs að umræddum gögnum með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.“

 

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. desember 2010, voru kæranda kynntar athugasemdir Seðlabankans og veittur frestur til að koma á framfæri frekari athugasemdum við kæru sína til 4. janúar 2011. Frekari athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 5. janúar og kemur fram að helstu rök og sjónarmið kæranda séu í kæru en í bréfinu segir m.a:

 

„Ekki er gerður ágreiningur um að Seðlabankanum sé heimilt að veita undanþágur frá þeim takmörkunum sem nú eru í gildi vegna fjarmagnshreyfinga til og frá landinu. Ekki þykir heldur ástæða til að draga í efa að þagnarskylduákvæði 15. gr. laga nr. 87/1992 gildir um bankann.

 

Kærandi telur hins vegar nefnt þagnarskylduákvæði ekki koma í veg fyrir að umbeðnar upplýsingar verði veittar og gögn afhent, eins og ítarlega er gerð grein fyrir í kærunni.

 

...

 

Þá skal áréttað að gera má ráð fyrir að þagnarskylda samkvæmt nefndri 15. gr. afmarkist við samskonar atriði og takmörkuð eru með 5. gr. upplýsingalaga, þ.e. mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni eða önnur sambærileg atriði sem eðlilegt er að leynt skuli fara.

 

Þagnarskyldurákvæði, sem takmarkar meginreglu upplýsingalaga um viðtækan upplýsingarétt, kveður því ekki á um þagnarskyldur varðandi öll viðskipti einstakra viðskiptamanna við bankann heldur verður að meta hverju sinni hvort rétt sé að hagsmunir séu verndaðir, sbr. umfjöllun í kæru.

 

Því er alfarið hafnað, eins og Seðlabankinn virðist halda fram, að beiðni um undanþágu í því máli sem  hér er til umfjöllunar geti talist slík atriði sem falla undir þagnarskylduákvæði 15. gr. laga nr. 87/1992 enda ekkert fyrirliggjandi um að um sé að ræða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni.

 

Hér verður að hafa í huga hvaða gögn og upplýsingar það eru sem óskað er eftir að verði upplýst um og afhent. Það eru undanþágur frá mjög ströngum reglum sem gilda um gjaldeyrishöft og koma í veg fyrir annars frjálsan flutning gjaldeyris til og frá landinu. Þetta eru reglur sem voru settar sérstaklega í því skyni að leitast við að tryggja stöðuleika í gengis og peningamálum.

 

Er því augljóst að vanda þarf til verka við veitingu undanþága frá slíkum reglum og mjög mikilvægt er meginreglna stjórnsýsluréttarins við það sem og afgreiðslu undanþágubeiðna.

 

Þá er ljóst að hagsmunir þess sem sækir um undanþágur eru verulegir af því hvernig beiðni hans er afgreidd og honum mjög mikilvægt að gera fullvissað sig um að fyllsta jafnræðis sé gætt og málsmeðferð öll sé vönduð og í samræmi við stjórnsýslureglur. Enda er bankinn að beita stjórnsýsluvaldi þegar undanþágubeiðnir eru afgreiddar og ákvörðun um afgreiðslu þeirra telst stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga.

 

Ástæða þykir til að benda sérstaklega á eina helstu reglu stjórnsýsluréttarins, jafnræðisregluna, en í henni felst að sambærileg mál skuli afgreidd með sama hætti.

 

Seðlabankinn verður að sjálfsögðu að virða meginreglur stjórnsýsluréttarins þegar hann afgreiðir beiðnir um undanþágur frá reglum um gjaldeyrishöft og skiptir jafnræðisreglan þar höfuðmáli. Má öllum vera það ljóst að það er umsækjenda um undanþágu mjög mikilvægt að geta gengið úr skugga um að afgreiðsla á hans beiðni sé í samræmi við stjórnsýslureglur og þá ekki síst að fyllsta jafnræðis sé gætt, við fyrri afgreiðslur bankans á undanþágubeiðnum. Til að það sé hægt verður að liggja fyrir hvaða undanþágur hafa verið veittar og á hvaða forsendum.

 

Upplýsingalögum er einmitt ætlað það hlutverk að auðvelda almenningi að sannreyna það hvort jafnræðis hafi verið gætt og málefnaleg sjónarmið hafi verið í heiðri við töku stjórnsýsluákvarðana. Leynd sem hvílir yfir afgreiðslu slíkra beiðna er einungis til þess fallin að vekja tortryggni og grunsemdir um misræmi og ójafnræði við slíka afgreiðslu.

 

Rétt þykir að benda á að Seðlabankinn hefur ekki séð ástæðu til að birta neinar upplýsingar um ákvarðanir sínar um undanþágur sem er vægast sagt sérkennilegt í ljósi þess hversu mikilvægar þær ákvarðanir eru fyrir alla þá sem þurfa að sækja um slíkar undanþágur og að hér er um að ræða verulegar hömlur á viðskiptum sem áður voru frjáls.“

 

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila, en úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af þeim við úrlausn málsins.

 

 

Niðurstöður

1.

Eins og rakið hefur verið fór kærandi fram á afhendingu ganga í tengslum við undanþágur frá reglum um gjaldeyrismál. Beiðnin er að mati úrskurðarnefndarinnar þríþætt og felur í sér ósk um aðgang að:

1) Ljósritum allra skjala og gagna er lúta að beiðni Magma Energy Sweden AB, kaupanda hlutabréfa Geysis Green Energy í HS Orku, um undanþágu frá reglum um gjaldeyrismál til að kaupa íslenskar krónur á aflandsmarkaði og flytja til Íslands í því skyni að greiða fyrir umrædd kaup.

2) Upplýsingum um fjölda undanþága frá reglum um gjaldeyrismál frá því að reglurnar tóku gildi árið 2008.

3) Ljósritum af niðurstöðum beiðna um undanþágur frá reglum um gjaldeyrismál sem Seðlabanki Íslands hefur fallist á frá því að reglurnar tóku gildi 2008.

 

Þau gögn sem Seðlabanki Íslands hefur afhent úrskurðarnefnd um upplýsingamál eru eftirfarandi:

 

1.      Beiðni frá [B], dags. 3. desember 2009, f.h. Magma Energy Sweden AB, um undanþágu frá reglum nr. 880/2009 um gjaldeyrismál.

2.      Bréf frá [B], dags. 14. janúar 2010, um upplýsingar um afdrif máls.

3.      Ákvörðun Seðlabanka Íslands, dags. 8. júlí 2010.

4.      Samningur, dags. 24. nóvember 2009, um gjaldeyrisviðskipti Magma Energy Corp. hjá The Bank of New York Mellon.

5.      Kaupsamningur milli Magma Energy Sweden AB og Orkuveitu Reykjavíkur, um kaup hins sænska félags á hlut Orkuveitunnar í HS Orku hf., dags. 31. ágúst 2009.

6.      Kaupsamningur á milli Magma Energy Sweden AB og Hafnarfjarðarkaupstaðar, um kaup hins sænska félags á hlut Hafnarfjarðarkaupstaðar í HS Orku hf., dags. 31. ágúst 2009.

7.      Kaupsamningur á milli Magma Energy Sweden AB og Sandgerðisbæjar, um kaup hins sænska félags á hlut Sandgerðisbæjar í HS Orku hf., dags. 31. ágúst 2009.

8.      Samningur milli Magma Energy Sweden AB og Orkuveitu Reykjavíkur um útgáfu skuldabréfs í bandaríkjadollurum sem hluta af greiðslu kaupverðs, dags. í ágúst 2009.

9.      Samningur milli Magma Energy Sweden AB og Hafnarfjarðarkaupstaðar um útgáfu skuldabréfs í bandaríkjadollurum sem hluta af greiðslu kaupverðs, dags. í ágúst 2009.

10.  Samningur milli Magma Energy Sweden AB og Sandgerðisbæjar um útgáfu skuldabréfs í bandaríkjadollurum sem hluta af greiðslu kaupverðs, dags. í ágúst 2009.

11.  Árskýrsla Seðlabanka Íslands 2009, bls. 25 og forsíða.

 

2.

Til stuðnings þeirri ákvörðun að synja kæranda um aðgang að þeim gögnum sem hann hefur farið fram á hefur Seðlabanki Íslands vísað til ákvæðis 15. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Í skýringum Seðlabankans kemur fram að þar á bæ sé litið svo á að tilvitnað ákvæði sé sérákvæði um þagnarskyldu sem gangi framar ákvæðum upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum.

 

Umrætt ákvæði 15. gr. laga nr. 87/1992 er svohljóðandi: „Þeir sem annast framkvæmd þessara laga eru bundnir þagnarskyldu um hagi einstakra viðskiptamanna og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli málsins, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.“

 

Í 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga er tekið fram að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Með gagnályktun frá þessu ákvæði hefur hins vegar verið litið svo á að sérstök þagnarskylduákvæði geti ein og sér komið í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnum í vörslum stjórnvalda hvað sem líður öðrum lagaákvæðum um upplýsingaskyldu. Þegar um er að ræða sérákvæði laga um þagnarskyldu, þ.e. þegar upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar, fer það eftir „efni og orðalagi þagnarskylduákvæðis hvernig slík ákvæði verða skýrð og þýdd ákvæðum upplýsingalaga“ eins og segir í skýringum við 2. gr. frumvarps þess sem síðar varð að upplýsingalögum.

 

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að líta beri á tilvitnað ákvæði 15. gr. nr. 87/1992 sem sérstakt ákvæði um þagnarskyldu. Að því leyti sem í ákvæðinu eru ekki tilgreindar með beinum og skýrum hætti þær upplýsingar sem ber að gæta trúnaðar um verður því að skýra það í samræmi við ákvæði upplýsingalaga þ.á m. 5. gr. þar sem fjallað er um takmarkanir á upplýsingarétti almennings með vísan til einkahagsmuna.

 

Samkvæmt efni sínu tekur ákvæði 15. gr. laga nr. 87/1992 um þagnarskyldu til þeirra aðila sem annast framkvæmd laganna, þ.á m. Seðlabanka Íslands. Þegar starfsmenn Seðlabanka Íslands tóku við beiðnum um undanþágu frá reglum um gjaldeyrismál og gögnum sem lutu að þeim beiðnum féll því á þá þagnarskylda að svo miklu leyti sem gögnin hafa að geyma efni sem fellur undir framangreint þagnarskylduákvæði.

 

3.

Eins og að framan greinir felur beiðni kæranda um aðgang að gögnum m.a. í sér ósk um afhendingu upplýsinga um fjölda undanþága frá reglum um gjaldeyrismál frá því að reglurnar tóku gildi árið 2008. Fyrir liggur að slíkt yfirlit kemur fram á bls. 25 í ársskýrslu Seðlabankans 2009. Ársskýrsla Seðlabankans 2009 var birt opinberlega. Ekkert stendur því í vegi að bankinn afhendi kæranda yfirlit úr skýrslunni. Bankinn hefur sjálfur afmarkað það svo að umrætt yfirlit á bls. 25 í skýrslunni falli undir beiðni kæranda. Með vísan til 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga ber honum því að afhenda hana kæranda svo fljótt sem unnt er.

 

Skylda stjórnvalda samkvæmt upplýsingalögum til afhendingar gagna er afmörkuð með þeim hætti í 1. mgr. 3. gr. laganna að skylt sé að afhenda, þeim er þess óskar, fyrirliggjandi gögn sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. Af gögnum málsins verður ráðið að önnur yfirlit með sambærilegum upplýsingum um fjölda afgreiddra beiðna um undanþágur frá reglum um gjaldeyrismál liggi ekki fyrir í fórum bankans.

 

4.

Beiðni kæranda lýtur einnig að öllum skjölum og gögnum er varða beiðni Magma Energy Sweden AB, kaupanda hlutabréfa Geysis Green Energy í HS Orku, um undanþágu frá reglum um gjaldeyrismál til að kaupa íslenskar krónur á aflandsmarkaði og flytja til Íslands í því skyni að greiða fyrir umrædd kaup.

 

Úrskurðarnefndin hefur yfirfarið þau gögn sem Seðlabankinn hefur afhent úrskurðarnefndinni, með hliðsjón af 15. gr. laga nr. 87/1992, sbr. til hliðsjónar 5. gr. upplýsingalaga. Öll umrædd gögn tilheyra ofangreindu máli, að undanskilinni áðurnefndri bls. 25 úr ársskýrslu Seðlabankans 2009. Það er jafnframt afstaða úrskurðarnefndarinnar að öll umrædd gögn falli undir tilvitnað ákvæði 15. gr. laga nr. 87/1992 enda lúta þau beinlínis að meðferð og afgreiðslu tiltekinnar beiðni um undanþágu frá reglum um gjaldeyrismál og fela samkvæmt efni sínu í sér upplýsingar um hagi viðskiptamanna bankans. Því verður að fallast á þá ákvörðun Seðlabankans frá 1. nóvember 2010 að synja kæranda um aðgang að þeim.

 

5.

Beiðni kæranda um aðgang að gögnum fól í þriðja lagi í sér ósk um afrit af öllum ákvörðunum Seðlabanki Íslands þar sem fallist er á undanþágur frá reglum um gjaldeyrismál frá því reglurnar tóku gildi 2008.

 

Eins og leiðir af því sem rakið hefur verið hér að framan hefur Seðlabankinn ekki afhent úrskurðarnefndinni ljósrit af umræddum ákvörðunum sínum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur, þrátt fyrir það, með vísan til þess að beiðni kæranda að þessu leyti lýtur einvörðungu að því að fá afhentar niðurstöður þeirra mála sem um ræðir og bankinn hefur lokið með því að fallast á að veita undanþágu frá reglum um gjaldeyrismál, og með hliðsjón af efni umræddrar 15. gr. laga nr. 87/1992, þá megi almennt leggja til grundvallar að umræddar upplýsingar lúti að hluta  þagnarskyldureglu þeirri sem fram kemur í ákvæðinu. Þá ber hér einnig að líta til þess að skv. upplýsingalögum verður sú skylda ekki lögð á stjórnvöld að afhenda gögn úr ótilgreindum málum, sbr. 1. mr. 3 gr. og 10. gr. upplýsingalaga, óháð því hvort stjórnvöldum kann að vera það heimilt umfram skyldu, sbr. 3. mgr. 3. gr.

 

Úrskurðarorð

Seðlabanka Íslands ber að afhenda kæranda, [X] hdl., afrit af bls. 25 og forsíðu Árskýrslu Seðlabanka Íslands frá árinu 2009. Ákvörðun Seðlabanka Íslands frá 1. nóvember 2010 um synjun á beiðni kæranda um aðgang að gögnum er staðfest að öðru leyti.

 

 

Trausti Fannar Valsson

formaður

 

 

 Sigurveig Jónsdóttir                                                                                           Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta