Los Angeles Reykjavík Festival
Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra tekur þátt í viðmikilli íslenskri tónlistarhátíð í Los Angeles
Los Angeles Philharmonic hljómsveitin (L.A. Phil) stendur að tónlistarhátíð tileinkaða íslenskri tónlist, sem hefst formlega í dag, föstudag 7. apríl með móttöku og tónleikum í Disney Hall tónleikahöllinni í Los Angeles.
Tónlistarhátíðin hefur verið í undirbúningi í nokkur ár en Daníel Bjarnason og finnski stjórnandinn Esa Pekka Salonen eru listrænir stjórnendur. Stjórn LA Phil fól þeim að undirbúa hátíð sem endurspeglaði fjölbreytnina í íslenskri tónlist í dag.
Fjöldi nýrri og eldri verka eftir íslenska höfunda verða flutt af L.A. Phil undir stjórn Daníels Bjarnasonar 11. apríl, en einnig verða þrennir tónleikar þar sem Sigur Rós og L.A. Phil koma fram saman auk þess sem hljómsveitin flytur íslensk verk eftir fjölda höfunda. Þá mun Schola Cantorum kórinn syngja íslensk kórverk á 5 tónleikum, en kórinn verður með sína eigin tónleika sunnudaginn 9. apríl.
Flestir tónleikanna fara fram milli 7. og 17 apríl, en síðan verður dagskrá frá 20. maí til 4. júní tileinkuð Björk og verður hún með tónleika með sveitinni ásamt því að Björk Digital sýningin verður opin þessar tvær vikur.
1. apríl voru tónleikar með Maximus Musikus þar sem músin geðþekka leiddi börn á vit tónlistarinnar og þeir verða endurteknir 8. apríl.
Á opnunarkvöldinu föstudaginn 7. apríl verður móttaka fyrir fólki úr tónlistargeiranum í Los Angeles, á undan tónleikadagskrá kvöldsins, þar sem fram koma hljómsveitirnar Múm, Amiina, JFDR, sem er sólóverkefni Jófríðar Ákadóttur, Skúli Sverrisson og Ólöf Arnalds með hljómsveit auk listakonunnar Steinunnar Harðardóttur, sem kallar tónlistarverkefni sitt, dj flugvél og geimskip. Einnig verða innsetningar eftir Shoplifter (Hrafnhildi Arnardóttur) og Íslandskvikmynd Xárene Eskandar, Driving at the Speed of the Nordic Sun verður sýnd.
17.apríl lýkur fyrri hluta hátíðarinnar og verður dagskráin það kvöld tileinkuð Bedroom Community útgáfu Valgeirs Sigurðssonar og verður einnig flutt tónlist eftir tónskáldið Jóhann Jóhannsson sem hefur vakið mikla athygli á síðustu árum fyrir kvikmyndatónlist sína.
Hér er dagskráin í heild sinni:
http://www.laphil.com/tickets/reykjavik-festival