Alþjóðleg sérfræðiþekking á Íslandi aukin með samstarfsverkefnum háskólanna
Fjölmarga alþjóðlega sérfræðinga vantar hingað til lands á næstu árum ef vaxtaáætlanir íslensks hugverkaiðnaðar eiga fram að ganga. Minnisblað sem inniheldur fjórar aðgerðir til að greiða aðgengi íslenskra fyrirtækja að alþjóðlegri sérfræðiþekkingu var lagt fyrir ríkisstjórn liðið haust. Meðal aðgerða er að háskólar á Íslandi verði gerðir eftirsóknarverðir fyrir námsmenn óháð þjóðerni. Þannig er lagt til að námsframboð á greinum sem kenndar eru á ensku verði stóraukið og í kjölfar útskriftar fái alþjóðlegir nemendur a.m.k. tveggja ára dvalarleyfi til að leita að atvinnu hér á landi á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar.
Ljóst er að fjölgun alþjóðlegra háskólanema felur í sér bæði eflingu háskólanna sem og fjárfestingu í þekkingu fyrir íslenskt samfélag og atvinnulíf. Með auknu samstarfi háskóla gefast tækifæri til að styðja við þessa þróun og hafa alls 8 verkefni af 25, sem nýlega hlutu styrk úr verkefninu Samstarf háskóla, fjölgun alþjóðlegra nemenda að markmiði.
Nýjar námsleiðir með fjölbreyttum hópi nemenda
Meðal samstarfsverkefna sem stuðla að fjölgun erlendra nemenda eru nýtt meistaranám í netöryggi sem Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík standa fyrir og ný námsbraut í kvikmynda- og tölvuleikjagerð á vegum Listaháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Fyrrnefnda samstarfsverkefnið snýr að því að koma á legg tveggja ára meistaranámi og rannsóknasetri í netöryggi þar sem m.a. verður boðið upp á sérhæfingu á sviði gervigreindar. Námskeið hjá erlendum háskólum verða nýtt sem hluti af náminu, áhersla verður lögð á gott samband við atvinnulífið og verða námskeiðin kennd á ensku með áherslu á fjölbreyttan hóp nemenda. Grunnnám í kvikmynda- og tölvuleikjagerð leggur einnig áherslu á fjölbreyttan nemendahóp enda er brýn og mikil spurn eftir sérhæfingu á bæði innlendum og alþjóðlegum starfsvettvangi kvikmynda- og tölvuleikjagerðar. Fyrirhugað er að námið hefjist haustið 2024.
Þá hyggjast allir háskólar landsins taka höndum saman svo nemendur geti tekið námskeið í meistaranámi við marga skóla samtímis, hvort sem það er við íslenska eða erlenda skóla. Þverþjóðlegt samstarf af þessu tagi eykur framboð náms sem kennt er á ensku og auðveldar alþjóðlegum nemendum þannig að stunda nám á Íslandi. Einnig undirbýr Háskólinn á Akureyri, í samstarfi við Háskóla Íslands, undirbúningsnámsleið fyrir innflytjendur og flóttafólk á Íslandi sem ætlað er að auka íslenskufærni og undirbúa fólk fyrir frekara nám hér á landi.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur ráðstafað yfir milljarði króna til aukins samstarfs háskóla með það að markmiði að auka gæði námsins og samkeppnishæfni skólanna. Hugmyndin var kynnt í haust og brugðust allir 7 háskólarnir við ásamt 37 öðrum samstarfsaðilum. 48 umsóknir bárust og sótt var um styrki fyrir samtals 2,8 milljarða króna. Verkefnið er þegar fjármagnað af safnlið háskólastigsins en með því að ráðstafa framlögum af safnliðnum í gegnum Samstarfið verður fjármögnun á háskólastigi gagnsærri en áður.