Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2022

Stríðið, staða efnahagsmála, Schengen-svæðið

Að þessu sinni er fjallað um:

  • leiðtogafund G20 ríkjanna
  • fund utanríkisráðherra Evrópusambandsins (ESB)
  • fund Evrópumálaráðherra ESB
  • stöðu efnahagsmála í ESB
  • orðsendingu framkvæmdastjórnar ESB til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um að Búlgaría, Rúmenía og Króatía uppfylli nú öll skilyrði til fullrar aðildar að Schengen-samstarfinu
  • tímamótaregluverk ESB á sviði rafrænnar þjónustu
  • fæðuöryggi og aðgerðir ESB til að auka framboð og viðunandi verð á áburði til landbúnaðarframleiðslu
  • tillögu að nýjum losunarstöðlum, Euro 7, fyrir stærri ökutæki
  • skýrslur framkvæmdastjórnar ESB og Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um mat á árangri í loftlagsmálum
  • fimm ára afmæli félagslegu réttindastoðar ESB
  • heimsmeistaramótið í fótbolta í Katar
  • stefnumótun ESB um skipulag og notkun gagnasafna fyrir samgöngur
  • fund EES-ráðsins í Brussel í næstu viku

Leiðtogafundur G20 ríkjanna

Leiðtogafundur G20 ríkjanna var haldinn á Balí dagana 15. og 16. nóvember, en Indónesía fer nú með formennsku í G20 ríkjasamstarfinu. Leiðtogar allra ríkjanna mættu til fundarins að frátöldum forseta Rússlands, Vladímír Pútín.

ESB á aðild að ríkjasamstarfinu auk aðildarríkjanna Þýskalands, Frakklands og Ítalíu, og mættu forseti leiðtogaráðs ESB, Charles Michel, og forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen, til fundarins fyrir hönd ESB.

G20 ríkjasamstarfið hefur reynst áhrifamikið í alþjóðamálum enda endurspegla ríkin sem þar eiga fulltrúa stærstu hagkerfi heimsins með um 80% af vergri heimsframleiðslu.

Í lok ráðstefnunnar var birt sameiginleg yfirlýsing G20 ríkjanna. Fjallað er um helstu umræðuefni ráðstefnunnar og niðurstöður frá sjónarhóli ESB í fréttatilkynningu sem birt er á vef ráðherraráðs ESB, en helstu umræðuefni voru:

  • Brestur í fæðu- og orkuöryggi sem árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu hefur valdið. ESB ítrekaði harða afstöðu sína gegn Rússlandi í þessum málum. Ítarlega hefur verið fjallað orkukreppuna í Vaktinni að undanförnu en nánar er fjallað um fæðuöryggismálin í Vaktinni hér að neðan.
  • Loftlagsmál og líffræðilegur fjölbreytileiki voru til umræðu og var almennur samhljómur um mikilvægi baráttunnar gegn loftlagsbreytingum og ítrekuðu leiðtogarnir ásetning sinn um að mæta markmiðum Parísarsamkomulagsins.
  • Heilbrigðismál voru til umræðu, meðal annars í ljósi reynslunnar af kórónuveirufaraldrinum og lýstu leiðtogarnir vilja til að tryggja öllum aðgang að virkum bóluefnum, greiningum og meðferð.
  • Samstaða var um mikilvægi stafrænnar umbreytingar ekki síst sem liður í að ná markmiðum um sjálfbæra þróun.

Tveir mikilvægir hliðarviðburðir voru haldnir í tengslum við ríkjaráðstefnuna:

  • Annars vegar fundur leiðtoga Nató-ríkjanna (G7) á ráðstefnunni sem boðað var til af hálfu Joe Bidens, Bandaríkjaforseta, en tilefni fundarins voru harðar loftárásir Rússa á borgaralega innviði í Úkraínu þann 15. nóvember. Gáfu leiðtogarnir út yfirlýsingu að fundinum loknum þar sem árásirnar voru fordæmdar.
  • Hins vegar fundur ESB og Ástralíu þar sem fjölmörg málefni voru rædd og böndin treyst. Þá fór þar fram sérstök umræða um fæðuöryggi og framboð áburðar til landbúnaðarframleiðslu, sbr. nánari umfjöllun um þau málefni hér neðar í Vaktinni.

Fundur utanríkisráðherra ESB

Utanríkisráðherrar ESB komu saman til fundar á vettvangi ráðherraráðs ESB 14. nóvember. Árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu og margþættar afleiðingar þess var, líkt og á flestum fundum ráðsins undanfarið, megin umræðuefnið. Einbeitt afstaða ESB gegn Rússlandi er eins skýr og orðið getur og mun ESB áfram vinna að því að einangra Rússland á alþjóðasviðinu og herða þvingunarráðstafanir um leið haldið verður áfram að styðja Úkraínu til verjast árásum á borgaraleg skotmörk og hernaðarlega meðal annars með þjálfun hermanna samkvæmt sérstakri áætlun (e. European Union Military Assistance Mission in support of Ukraine) en þessi áætlun var formlega hrint í framkvæmd 17. október, sbr. umfjöllun í Vaktinni 21. október sl.

Fæðuöryggismál komu einnig til umræðu á fundi ráðherranna og mikilvægi þess að halda flutningsleiðum með korn um Svartahaf opnum. Nánar er fjallað um aðgerðir ESB í fæðuöryggismálum hér neðar í Vaktinni.

Meðal annarra umræðuefna á fundinum voru:

Fundur Evrópumálaráðherra ESB

Evrópumálaráðherrar ESB komu saman til fundar á vettvangi almenna ráðs ESB (e. General Affairs Council) í dag, 18. nóvember. Verkefni almenna ráðsins er m.a. að undirbúa leiðtogaráðsfundi ESB og var undirbúningur og skipulagning næsta leiðtogaráðsfundar 15. og 16. desember nk. meðal dagskrárefna fundarins í dag. Eins og við var að búast er árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu megin umfjöllunarefni fundarins, sem og varnar- og öryggismál í álfunni almennt. Þá verða orku- og efnahagsmál m.a. í deiglunni sem og samskipti við nágranna ESB til suðurs (e. Southern Neighbourhood).  Sjá nánar drög að dagskrá leiðtogafundarins sem birt hefur verið.

Meðal annarra umfjöllunarefna voru málefni Ungverjalands og umgengni stjórnvalda þar í landi við ákveðnar grundvallarreglur réttarríkisins. Til að knýja fram umbætur hefur framkvæmdastjórnin gripið til þess ráðs að frysta fjárveitingar til landsins úr bjargráðasjóðum tengdum endurreisn eftir faraldurinn (Next Generation EU) og sett ákveðin skilyrði fyrir að greiðslum verði fram haldið. Er þess vænst að umsögn framkvæmdastjórnar ESB um hvort Ungverjaland hafi uppfyllt þessi skilyrði verði birt í lok þessa mánaðar en endanlegt mat í þeim efnum er í höndum aðildarríkja ESB á vettvangi ráðherraráðsins og er niðurstöðu þar að vænta fyrir árslok. Teljist Ungverjaland ekki hafa uppfyllt skilyrðin gæti svo farið að umræddar fjárveitingar falli endanlega niður, samkvæmt lögbundinni málsmeðferð sem unnið er eftir.

Auk framangreinds ræddu ráðherrarnir tengsl ESB og Bretlands, löggjafaráætlun framkvæmdarstjórnar ESB, netöryggismál o.fl.

Staða efnahagsmála í aðildarríkjum ESB í nóvember 2022

Í síðustu viku birti framkvæmdastjórn ESB haustspá sína um framvindu efnahagsmála fyrir árin 2022-2024.

Áhrif stríðsins í Úkraínu. Árið byrjaði vel með kröftugum hagvexti, en eftir innrás Rússlands í Úkraínu og þeim margvíslegu afleiðingum sem því hefur fylgt, orkukreppu og vandræðum með aðflutning mikilvægra hráefna og matvæla hefur dæmið snúist við. Þá hefur fjárhagsaðstoð til Úkraínu og flóttamannavandinn vegna stríðsins haft í för með sér veruleg fjárútlát. Innan ESB er nú unnið að því að ljúka við endurskoðun fjárlaga sambandsins fyrir næsta ár og sýna niðurstöður aukinn hallarekstur frá því sem áður var spáð, sbr. umfjöllun hér á eftir. Allir þessir þættir hafa neikvæð áhrif á þær forsendur sem nú eru lagðar til grundvallar efnahagsspám ESB til næstu ára.

Hagvöxtur. Eins og áður sagði byrjaði árið vel, m.a. með kröftugri einkaneyslu eftir harðindi sem fylgdu kórónuveirufaraldrinum og hélst sá vöxtur fram á þriðja ársfjórðung. Þá fór hækkandi orkuverð að bitna verulega á kaupmætti heimila og framleiðslukostnaði fyrirtækja sem leitt hefur til samdráttar á 4. ársfjórðungi sem nægir þó ekki að vega á móti sterkum hagvexti á fyrri hluta ársins. Fyrir árið 2022 í heild er áætlað að hagvöxtur verði 3,3%, eða heldur meiri en í sumarspánni upp á 2,7%. Upphaflega spáin hafði hins vegar gert ráð fyrir um og yfir 4% hagvexti. Útlitið er hins vegar mun verra fyrir árið 2023 þegar að ofangreind áhrif hafa komið fram með fullum þunga. Í sumarspánni var gert ráð fyrir að hagvöxtur yrði 2,3% en nú stefnir í að hann verði einungis 0,3%. Samkvæmt því má lítið út af bera til að hagvöxtur snúist í samdrátt á næsta ári. Þá er því spáð að verði 1,6% að jafnaði árið 2024.

Verðbólga. Í flestum aðildarríkjum ESB hefur verðbólga farið hækkandi í hverjum mánuði sem af er árinu 2022. Spáð er frekari hækkunum framundan og að toppi verði ekki náð fyrr en í lok ársins. Gangi það eftir mun meðalverðbólga ársins 2022 verða 9,3%. Í sumarspánni mældist hún nálægt 7%. Spáð er hægri lækkun hennar á næsta ári og að meðalverðbólga verði 7% á árinu 2023. Á árinu 2024 er reiknað með að hún lækki nokkuð skarpt og verði kringum 3% að meðaltali.

Staðan á vinnumarkaði ESB. Þróunin á evrópskum vinnumarkaði hefur ekki verið í takt við minnkandi hagvöxt og kaupmátt heldur hefur hann haldið áfram að styrkjast. Nú er svo komið að fjölgun starfa og atvinnuþátttaka hefur aldrei verið meiri en á þessu ári, auk þess sem atvinnuleysi er í sögulegu lágmarki þannig að vinnuaflsskortur hefur víða gert vart við sig. Í september mældist atvinnuleysi 6%. Þá er áætlað að 2 milljónir manna hafi bæst við á evrópskum vinnumarkaði á árinu umfram þá sem fallið hafa út af vinnumarkaði. Sú aukning svarar til 1,8%. Að öllu samanlögðu er meðalatvinnuleysi talið verða 6,2% árið 2022. Á árinu 2023 er gert ráð fyrir að vöxtur nýrra starfa haldist óbreyttur en aukist lítillega, eða um 0,4%, á árinu 2024. Út frá þeim forsendum er áætlað að atvinnuleysi verði 6,5% og 6,4% á árunum 2023 og 2024.

Staða opinberra fjármála. Á árinu 2021 var hallarekstur hins opinbera (e. general government) í aðildarríkjum ESB 4,6% sem hlutfall af VLF (e. GDP). Kröftugur vöxtur framan af ári og afnám stuðningsaðgerða vegna kórónuveirufaraldursins í ESB ríkjunum hefur dregið umtalsvert úr hallarekstrinum þrátt fyrir að á móti vegi aðgerðir stjórnvalda til að draga úr áhrifum af hærra orkuverði, til að mæta flóttamannastraumnum frá Úkraínu og aukinni fjárhagsaðstoð við Úkraínu. Nú er spáð að hallinn verði 3,4% sem hlutfall af VLF fyrir yfirstandandi ár samanborið við 3,6% í sumarspánni. Fyrir árið 2023 er reiknað með því að hallinn aukist lítillega og verði 3,6% sem hlutfall af VLF samanborið við 2,5% í sumarspánni. Skýringar á auknum halla eru minni efnahagsumsvif, auknar vaxtagreiðslur og frekari stuðningur við heimili og fyrirtæki vegna hás orkuverðs. Á árinu 2024 er talið að hann lækki á ný verði 3,2%.

Skuldahlutfallið (e. debt-to-GDP ratio). Miðað við að framangreind spá gangi eftir mun skuldahlutfall ESB ríkjanna í heild lækka talsvert milli áranna 2021 og 2022, eða úr 87,9% í 86,4%. Rétt er að nefna að skuldahlutfallið er mjög mishátt í aðildarríkjum ESB, eða frá því að vera yfir 180% af VLF í Grikklandi og undir 20% í Eistlandi. Reiknað er með að hlutfallið haldi áfram lækka á næstu tveimur árum og verði komið í 84,1% í lok árs 2024. Eins og áður hefur komið fram í Vaktinni hefur framkvæmdastjórn ESB verið að vinna að endurskoðun fjármálareglna sambandsins, en í dag eru þær óvirkar til loka árs 2023 (skuldahlutfall 70% og halli -3%.). Fyrstu tillögur litu dagsins ljós nú á dögunum og verður fjallað nánar um þær í næstu Vakt. 

ESB

Ísland

Árleg breyting, %

2021

2022

2023

2021

2022

2023

VLF

5,4

2,3

0,3

4,4

5,1

2,9

Verðbólga

2,9

9,3

7,0

4,4

7,5

4,9

Atvinnuleysi

7,0

6,2

6,5

6,0

3,8

3,7

Afkoma hins opinbera

-4,6

-3,4

-3,6

-7,9

-4,9

-2,5

Skuldahlutfall hins opinbera

87,9

86,4

85,3*

52,5

49,9

49,1

*Áætlun 2023; 2024 84,2%

 

 

 

 

 

 

Fundur efnahags- og fjármálaráðherra EFTA og ESB. Þann 8. nóvember sl. hittust efnahags- og fjármálaráðherrar EFTA og ESB til að bera saman bækur um efnahagsástandið í Evrópu. Ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytis, Guðmundur Árnason, sat fundinn fyrir Íslands hönd í fjarveru ráðherra ásamt sendiherra Íslands í Brussel, Kristjáni Andra Stefánssyni. Á fundinum kom fram að staða mála nú og til næstu ára er mun betri í EFTA ríkjunum en í aðildarríkjum ESB þegar á heildina er litið. Séu hagtölur Íslands bornar saman við ESB ríkin birtist sama mynd eins og sjá má á töflunni hér að ofan. Þetta á ekki hvað síst um skuldahlutfall hins opinbera sem er langt undir viðmiðunareglu ESB og sömuleiðis hraðari bati í rekstri hins opinbera. Þá er hagvöxtur mun kröftugri, bæði þessu ári og næsta og atvinnuleysi lægra. Einnig er því spáð að verðbólgan gangi hraðar niður á Íslandi en á ESB svæðinu.

Hér þarf þó að hafa í huga að bæði í spám EFTA og ESB ríkir mikil óvissa um framvindu mála á mörgum sviðum. Þar má nefna óvissu um þróun orkuverðs, hækkandi vexti, áframhaldandi skort á aðföngum og jafnvel fullunnum vörum. Hvað gerist er engin leið að segja til um, en veturinn framundan mun væntanlega ráða miklu um hvernig mál þróast til næstu ára.

Orðsending framkvæmdastjórnar ESB um að Búlgaría, Rúmenía og Króatía uppfylli nú öll skilyrði til fullrar aðildar að Schengen-samstarfinu

Framkvæmdastjórn ESB hefur gefið út orðsendingu til Evrópuþingsins og ráðherraráðsins þar sem skorað er á ráðið að taka nauðsynlegar ákvarðanir svo unnt verði að veita Búlgaríu, Rúmeníu og Króatíu fulla aðild að Schengen samstarfinu. Því til stuðnings er í orðsendingunni rakið hvernig ríkjunum hefur tekist að innleiða Schengen-regluverkið með góðum árangri.

Þá kemur fram sú skoðun að stækkun Schengen-svæðisins muni leiða til aukins öryggis og bætts eftirlits á ytri landamærum og aukinni lögreglusamvinnu um leið og stækkunin muni efla efnahag og viðskiptalíf innan svæðisins.

Líkt og rakið var í Vaktinni 4. nóvember sl. er orðið langt um liðið síðan Búlgaría og Rúmenía luku hefðbundnu Schengen úttektarferli árið 2011. Ráðherraráð ESB staðfesti í framhaldinu að ríkin bæði hafi staðist úttektarkröfur en engin ráðsákvörðun um afléttingu eftirlits á innri landamærum hefur þó verið gefin út. Samþykki allra aðildarríkja þarf til svo slík ákvörðun verði gefin út. Í ljósi þess hversu langur tími hefur liðið frá því úttektin fór fram samþykktu bæði Rúmenía og Búlgaría í sameiginlegri yfirlýsingu í mars 2022 að bjóða hópi sérfræðinga frá aðildarríkjunum, undir forystu framkvæmdastjórnarinnar, til að skoða stöðuna og nýjustu vendingar hvað varðar innleiðingu á Schengen-regluverkinu. Heimsóknin átti sér stað í október sl. og staðfesti hún að ríkin uppfylli ekki einungis öll skilyrðin heldur hafi þau styrkt verulega alla innviði á þessu sviði. Enn fremur eru þessi tvö ríkin talin til fyrirmyndar þegar kemur að innleiðingu og beitingu Schengen-regluverksins.

Í desember 2021 staðfesti ráðið að Króatía uppfylli allar kröfur til að gerast aðili að Schengen-svæðinu en Schengen-úttekt fór fram á tímabilinu 2016 – 2020. Króatía hefur lagt sig fram við að tryggja að eftirlit á ytri landamærum samræmist kröfum um grundvallarmannréttindi en í júní 2021 setti Króatía á stofn óháð mannréttindaeftirlit með landamæratengdum aðgerðum sem snúa að farandfólki og umsækjendum um vernd.

Framfylgd málsins hefur verið meðal forgangsmála í formennskutíð Tékka í ráðherraráðinu og hyggjast þeir leggja málið fyrir ráðið á fundi dóms- og innanríkisráðherra þann 8. desember nk. Er þá gert ráð fyrir að ráðherrar muni kjósa um fulla aðild þessara ríkja að Schengen-svæðinu. Til undirbúnings þeirrar ákvörðunartöku var framangreind orðsending framkvæmdastjórnarinnar lögð fyrir sendiráðunauta aðildarríkja Schengen þann 15. nóvember sl. Á þeim fundi lýstu Búlgaría, Rúmenía og Króatía því yfir að þau væru tilbúin til að ganga í Schengen-samstarfið að fullu svo fljótt sem 1. janúar nk. Fyrir liggur að tiltekin ríki, Holland, Þýskalands, Danmörk, Svíþjóð og Slóvenía, eru enn með fyrirvara og hafa þau ekki að svo stöddu staðfest að þau muni samþykkja aðild ríkjanna á fundi ráðsins í desember. Málið mun næst koma til umræðu á fundi sendiherra aðildarríkja gagnvart ESB, líklega þann 30. nóvember og svo að lokum í ráðherraráðinu þann 8. desember eins og áður segir.

Tímamótaregluverk ESB á sviði rafrænnar þjónustu

Reglugerð á sviði rafrænnar þjónustu (e. Digital Services Act – DSA) tók gildi í aðildarríkjum ESB hinn 16. nóvember sl. Um er að ræða umfangsmikið regluverk – og raunar hið fyrsta sinnar tegundar á alþjóðavísu – sem varðar alla rafræna þjónustu sem tengir neytendur við vöru, þjónustu eða efni. Meginmarkmið DSA er að vernda neytendur og grundvallarréttindi þeirra á netinu, auka gagnsæi og skýra ábyrgð aðila sem veita þjónustu á netinu og stuðla að samkeppni, nýsköpun og vexti. DSA fjallar fyrst og fremst um milliliði (e. intermediaries) og stafræna vettvanga (e. digital platforms), svo sem hýsingaraðila, vefþjónustur, sölusíður, verslanir með smáforrit, bókunarsíður o.s.frv.

Meðal þess sem reglugerðin snertir eru takmörkuð ábyrgð milliliða og skyldur fyrirtækja vegna ólöglegs efnis, skýrari reglur um hvernig ólöglegt efni er fjarlægt, innri ferlar og kvartanir, aukið gagnsæi m.t.t. notkunar algríms, aukið gagnsæi um veitendur rafrænnar þjónustu og skyldur sem þeir þurfa að uppfylla, hvernig auglýsingum er beint að neytendum, kröfum um skýrleika staðlaðra samningsskilmála o.fl. Skyldurnar sem lagðar eru á fyrirtæki skv. reglugerðinni eru mismunandi eftir eðli starfseminnar og stærð en gert er ráð fyrir sektarheimildum.

Samhliða DSA hefur ESB haft til meðferðar tillögu að reglugerð á sviði rafrænna markaða (Digital Markets Act – DMA) en það snýr einkum að starfsemi stórra og umfangsmikilla aðila sem reka stafræna vettvanga og bjóða þjónustu við önnur fyrirtæki á innri markaðinum. Helsta markmið DMA er að koma í veg fyrir að svokallaðir hliðverðir (e. gatekeepers) viðhafi ósanngjarna viðskiptahætti gagnvart viðskiptaaðilum sínum, bæði fyrirtækjum og neytendum. DMA-reglugerðin tók gildi í ESB 1. nóvember sl.

Reglugerðirnar vegna DSA og DMA er nú til skoðunar hjá EES/EFTA-ríkjunum en þess má geta að bæði mál eru á forgangslista ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2022-2023 um mál í hagsmunagæslu Íslands gagnvart ESB vegna aðildarinnar að EES.

Fæðuöryggi og aðgerðir ESB til að auka framboð og viðunandi verð á áburði til landbúnaðarframleiðslu

Árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu hefur haft alvarleg áhrif á fæðuöryggi m.a. með víðtækum áhrifum á hrávörumarkaði um heim allan með beinum og óbeinum hætti. Þannig hefur stríðið skapað krefjandi aðstæður fyrir framleiðendur áburðar sem voru þegar í erfiðri stöðu í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Framleiðsla köfnunarefnisáburðar er til að mynda mjög háð jarðgasi og hefur verðhækkun á gasi leitt til 149% verðhækkunar á áburði síðastliðið ár miðað við september 2021 til september í ár. Hafa bændur brugðist við með því að fresta eða draga úr innkaupum á áburði sem aukið hefur líkur á minni uppskeru á næsta ári með tilheyrandi áhrifum á framboð matvæla sem aftur leiðir til hærra matvælaverðs sem ógnað getur fæðuöryggi viðkvæmra hópa.

Til að sporna gegn framangreindu hefur framkvæmdastjórn ESB gefið út orðsendingu og ráðleggingar til aðildarríkjanna, Evrópuþingsins og ráðherraráðsins, um hvernig megi sem best bregðast við skorti og áhrifum hækkandi áburðarverðs á landbúnaðarframleiðslu og þar með á fæðuöryggi í Evrópu og á heimsvísu. Orðsendingin er sett fram í samhengi við fyrri stefnumótun ESB á þessu sviði til skemmri tíma frá því í mars sl. og landbúnaðarstefnu ESB (Farm to fork). Hvatt er til stuðningsaðgerða sem beinast annars vegar að bændum og áburðarframleiðendum innan ESB og hins vegar að löndum utan ESB, m.a. með aðkomu alþjóðlegra fjármálastofnana.

Á vettvangi ESB er ráðlagt:

  • Að bændum og áburðarframleiðendum verði tryggður nægur aðgangur að gasi til áburðarframleiðslu.
  • Að aukin áhersla verði á lífræna framleiðslu og notkun lífræns áburðar.
  • Að leitað verði leiða til að nota umhverfisvænni orku til áburðarframleiðslu t.d. vetni og ammoníak.
  • Að aukin áhersla verði á gagnsæi á áburðarmarkaði m.a. með auknum aðgangi að gögnum um framleiðslu, notkun, verð og viðskipti.
  • Að leiðað verði nýrra viðskiptaaðila við innflutning áburðar, svo sem frá löndum eins og Kanada, Egyptaland og Marokkó en innflutningur þaðan hefur þegar aukist. Í þessu sambandi er bent á að um 60% af öllum áburði sem notaður var í aðildarríkjum ESB fyrir innrás Rússlands í Úkraínu var flutt inn frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi.
  • Að leitað verði leiða til að minnka áburðarnotkun og hámarka næringargildi jarðvegs með réttu magni áburðar samanber markmið í landbúnaðarstefnu ESB (Farm to fork).

Ráðleggingar á heimsvísu eru af svipuðum meiði:

  • Að samvinna ríkja á grundvelli framleiðslu, viðskipta og fjölþjóðastefnu verði aukin
  • Að leita verði leiða til að minnka innflutningsþörf á áburði og bæta áburðarnýtingu og framleiðsluhætti með áherslu á ráðgjöf til bænda.
  • Auka gagnsæi á heimsmarkaði með áburð m.a. með því að efla alþjóðlegt markaðsupplýsingakerfi í landbúnaði.
  • Að ESB muni beita sér fyrir auknum fjárstuðningi til landa í gegnum alþjóða fjármálastofnanir s.s. Alþjóða gjaldeyrissjóðinn til að auka sjálfbærar fjárfestingar í landbúnaði.
  • Að ESB muni auka mannúðaraðstoð sína en hún er þegar komin yfir 900 milljónir evra það sem af er 2022 sem er um 55% meira en í fyrra og tæplega 80% meira en árið 2020.

Tillaga að nýjum losunarstöðlum, Euro 7, fyrir stærri ökutæki

Framkvæmdastjórnin hefur birt tillögu að nýrri reglugerð um losunarstaðal, Euro 7, fyrir stærri ökutæki sem sett eru á markað í ESB. Markmiðið með staðlinum er að draga úr losun kolefnis frá stórum ökutækjum og bæta loftgæði innan sambandsins. Staðlinum er ætlað að stuðla að þessum markmiðum með því að útvíkka próf framleiðenda ökutækja svo þau taki tillit til fleiri akstursskilyrða s.s. styttri ferða. Þá eru sett mörk fyrir losun nítrógens sem var ekki í fyrri stöðlum, sett mörk um losun frá bremsubúnaði, endingartími marka lengdur og settar reglur um endingartíma rafhlaðna í rafbílum.

Tillagan mun ganga til umræðu í Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Skýrslur framkvæmdastjórnar ESB og Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um mat á árangri í loftlagsmálum

Þann 26. október sl. kom út árleg framgangsskýrsla framkvæmdastjórnar ESB um árangur í loftlagsmálum innan ESB.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) birti síðan sambærilega skýrslu um framgang Íslands og Noregs í átt að loftlagsmarkmiðum. Er þetta í annað skiptið sem slík skýrsla kemur út.

ESA hefur eftirlit með því að Ísland og Noregur standi við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum og gegnir jafnframt því hlutverki að samþykkja árlega losunarúthlutun fyrir Ísland og Noreg fyrir árin 2021-2030 í samræmi við reglugerð um sameiginlega ábyrgð (e. Effort Sharing Regulation) og landnotkunarreglugerð (e. LULUCF Regulation) Tilgangur skýrslugerðarinnar er að fylgjast með framgangi Íslands og Noregs og árangri í að ná markmiðum sínum um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi sem viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (e. EU Emissions Trading System – ETS) tekur ekki til.

Framangreindar Evrópureglugerðir voru teknar upp í EES-samninginn árið 2019 eftir að Ísland og Noregur annars vegar og ESB hins vegar ákváðu að framlengja samstarf á sviði loftslagsmála.

Niðurstöður skýrslu ESA eru að þrátt fyrir að bæði ríkin vinni skipulega að því að innleiða stefnu og ráðstafanir til að ná markmiðum sínum sýni fyrirliggjandi gögn að löndin þurfi bæði að grípa til frekari aðgerða ef ná eigi markmiðum fyrir árið 2030 í þeim geirum sem athugunin tekur til.

Fimm ára afmæli félagslegu réttindastoðar ESB

Í vikunni voru fimm ár liðin frá samþykkt félagslegu réttindastoðar ESB (European Pillar of Social Rights) en réttindastoðin var samþykkt á sérstakri ráðstefnu Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB sem haldin var í Gautaborg í Svíþjóð árið 2017.

Í réttindastoðinni eru sett fram 20 lykilatriði sem snúa að jöfnum tækifærum og aðgengi að vinnumarkaði, sanngjörnum vinnuaðstæðum og félagslegri vernd. Þessum atriðum er ætlað að vera leiðarljós í að byggja upp sanngjarnari Evrópu án aðgreiningar.

Í tilefni tímamótanna efndi ESB til sérstakrar ráðstefnu þar sem farið var yfir þann árangur sem náðst hefði á grundvelli réttindastoðarinnar auk þess sem verkefni, áskoranir og tækifæri framundan voru rædd.

Fjölmargar gerðir og stefnur hafa verið settar fram á grundvelli réttindastoðarinnar. Meðal þeirra má nefna gerðir sem fjalla um jöfn tækifæri og jafnrétti kynjanna, reglur um öryggi á vinnustöðum og reglur um lágmarkslaun. Sjá nánar í fréttatilkynningu framkvæmdastjórnar ESB sem send var út í tilefni tímamótanna.

Í opnunarávarpi forseta framkvæmdastjórnar ESB, Urslu von der Leyen, lagði hún áherslu á þau grunngildi ESB sem réttindastoðin væri byggð á og að þau þyrftu ávallt að vera í forgrunni. Hún nefndi sérstaklega nokkrar mikilvægar gerðir sem hafa verið lagðar fram á grundvelli þeirra markmiða sem þar koma fram, svo sem tilskipun um viðunandi lágmarkslaun og evrópska umönnunarstefnu (sjá umfjöllun í Vaktinni 9. september sl.) og tiltók að umönnun ætti að vera réttur allra en ekki forréttindi. Þá vék hún að orkuskiptaáætlun ESB og tók dæmi um hvernig unnt er að nýta tæki réttindastoðarinnar til að styðja við hana. 

Heimsmeistaramótið í fótbolta í Katar

Heimsmeistaramótið í fótbolta hefst í Katar á sunnudaginn með setningarathöfn. Verður mótið sett í skugga meintra alvarlegra brota á réttindum farandverkamanna sem starfað hafa við undirbúning og uppbyggingu mannvirkja fyrir mótið en talið er að gríðarlegur fjöldi verkamanna hafi látið lífið við framkvæmdirnar vegna bágra aðstæðna og vanbúnaðar í öryggismálum. Málið var tekið fyrir á sérstökum fundi í nefnd Evrópuþingsins um mannréttindamál síðastliðin mánudag, þar sem atvinnumálaráðherra Katar, Al Bin Samikh Al Marri, sat fyrir svörum en horfa má á upptöku af fundinum hér.

Stefnumótun ESB um skipulag og notkun gagnasafna fyrir skilvirkari samgöngukerfi

Framkvæmdastjórn ESB vinnur nú að stefnumörkun um skilvirkari notkun upplýsinga og gagna við skipulagningu samgangna (e. Common European mobility data space). Tilgangur vinnunnar er að leggja grunn að greiðari aðgangi að gögnum, aukinni söfnun gagna og miðlun þeirra frá núverandi samgöngugagnabrunnum og þeim sem til verður stofnað í framtíðinni. Stefnt er að því að vinnan styðji við markmið sambandsins um sjálfbærar samgöngur og samþættingu samgöngumáta (e. multimodality). Væntanleg stefnumótun munu taka mið af þverfaglegri löggjöf sambandsins s.s. reglum meðferð upplýsinga og gagna.

Áformaskjal um stefnumótunarvinnuna hefur verið birt í samráðsgátt ESB og er frestur til að skila inn umsögnum til 7. desember.

EES-ráðið fundar í Brussel í næstu viku

EES-ráðið (EEA Council) kemur saman til fundar í Brussel í næstu viku, 23. nóvember. Ráðið er æðsta stofnunin í sameiginlegu stofnanakerfi EES/EFTA-ríkjanna og ESB sem sett var á fót með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Ráðið er skipað utanríkisráðherrum Íslands, Noregs og Liechtenstein og fulltrúum ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB og hefur það meginhlutverk að vera formlegur pólitískur samráðsvettvangur um rekstur EES-samningsins.  Ísland fer nú með formennsku í fastanefnd EFTA og mun utanríkisráðherra Íslands, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, stýra ráðsfundinum, sem fer nú í fyrsta skipti fram í hinu nýja húsi EFTA í Brussel.

Í tengslum við ráðsfundinn munu utanríkisráðherrarnir EES/EFTA-ríkjanna þriggja funda með þingmannanefnd EFTA (e. EFTA Parliamentary Committee) og ráðgjafarnefnd EFTA (e. EFTA Consultative Committee).

***

Brussel-vaktin, fréttabréf fastanefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta