Hoppa yfir valmynd
9. september 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 25/2010

Fimmtudaginn 9. september 2010

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 25. júní 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 23. júní 2010. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 23. apríl 2010, um að synja kæranda um framlengingu fæðingarstyrks vegna alvarlegs sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris.

Með bréfi, dags. 28. júní 2010, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 15. júlí 2010.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 22. júlí 2010, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að henni hafi verið synjað um framlengingu á fæðingarorlofi með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 23. apríl 2010, þar sem ekki hafi verið talið að um væri að ræða alvarlegan sjúkleika barns. Þá greinir kærandi frá því að barn hennar hafi verið greint með Downs-heilkenni við fæðingu og það séu fordæmi fyrir því að foreldrar barna með slíka greiningu hafi fengið lengingu á fæðingarorlofi.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi sótt um framlengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna alvarlegs sjúkleika barns, sem fæddist Y. janúar 2010, með framvísun læknisvottorðs, dags. 9. apríl 2010. Áður hafi kæranda verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldris í fullu námi en hún hafi þess í stað verið afgreidd með fæðingarstyrk til foreldris utan vinnumarkaðar í þrjá mánuði, sbr. greiðsluáætlun, dags. Y mars 2010. Barnsfaðir kæranda hafi verið afgreiddur með fæðingarorlof í sex mánuði sem hann hafi dreift á tólf mánuði, frá maí 2010 til apríl 2011.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að með bréfi, dags. 23. apríl 2010, hafi umsókn kæranda verið synjað þar sem ekki hafi verið talið að um væri að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefðist nánari umönnunar foreldris.

Fæðingarorlofssjóður vísar í 2. mgr. 22. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), með síðari breytingum, og 19. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, um heimild til að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarstyrks um allt að þrjá mánuði ef um sé að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris umfram þann almenna rétt foreldra sem kveðið sé á um í 1. og 10. mgr. 18. gr. ffl. Í 4. mgr. 22. gr. ffl. segi að þörf fyrir framlengingu á rétti til fæðingarstyrks skv. 1.–3. mgr. skuli rökstyðja með vottorði sérfræðilæknis. Enn fremur segi að Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging á rétti til fæðingarstyrks sé nauðsynleg.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að óskað hafi verið eftir umsögn B, sérfræðings í heimilislækningum og trúnaðarlæknis sjóðsins, við ákvörðunina, sbr. vottorð hans, dags. 15. júlí 2010. Í læknisvottorði hans segi orðrétt: „Læknisvottorð v/lengingar fæðingarorlofs barst sjóðnum í apríl sl. og var yfirfarið af lögfræðingi (framkvæmdastjóra sjóðsins) og trúnaðarlækni. Í vottorði C barnalæknis kemur fram að barnið er með Downs-heilkenni. Þar kemur einnig fram að barnið er ekki með neinn meðfæddan byggingagalla á hjarta og hefur verið hraust. Þegar er hafin þroska- og sjúkraþjálfun, eftir því sem fram kemur í vottorðinu. Umsókn þessari var hafnað á þeim forsendum að ekki væri um að ræða meðfæddan, alvarlegan sjúkleika barns. Downs-heilkenni spannar mjög vítt svið og er alþekkt að einstaklingar með heilkennið eru mjög mismunandi, og langt frá því að vera einsleitur hópur. Af læknisvottorði því sem liggur til grundvallar þessari umsókn verður ekki ráðið að barnið sé alvarlega veikt né heldur að umönnunarþörf sé aukin í þeim mæli að réttlæti lengingu á fæðingarorlofi. Það var því sameiginleg niðurstaða lögfræðings og trúnaðarlæknis að hafna umsókninni.“

Þá greinir Fæðingarorlofssjóður frá því að skv. 2. mgr. 22. gr. ffl., sbr. 19. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, sé um heimildarákvæði að ræða. Við mat á því hvort beita eigi heimildinni og veita foreldri lengri rétt til fæðingarstyrks en kveðið er á um í 1., sbr. 10. mgr. 18. gr. ffl., sé ljóst að uppfylla þarf tvö meginskilyrði svo réttur til framlengingar skapist vegna alvarlegs sjúkleika barns. Annars vegar sé það skilyrðið um alvarlegan sjúkleika barns en hins vegar að sjúkleikinn krefjist nánari umönnunar foreldris.

Hvað varðar fyrra skilyrðið greinir Fæðingarorlofssjóður frá því að í athugasemdum við umrætt ákvæði í núgildandi lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 komi fram að það eigi sér fyrirmynd í 15. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum. Þó sé tekið fram að önnur veikindi barna auki ekki á réttinn til fæðingarstyrks. Í athugasemdum með 7. gr. laga nr. 51/1997, sem breyttu þágildandi lögum um almannatryggingar, sé að finna ákveðnar leiðbeiningar um hvað teljist alvarlegur sjúkleiki barns, en þar segi orðrétt:

„Þá er gert ráð fyrir að lenging fæðingarorlofs vegna alvarlegs sjúkleika barns verði allt að þrír mánuðir í stað eins áður. Hér getur bæði verið um að ræða alvarlega meðfædda sjúkdóma, svo og alvarlegar afleiðingar fæðingar fyrir tímann.“

Samkvæmt framangreindu falli ekki öll veik börn undir ákvæðið heldur einvörðungu þau sem greinist með alvarlega meðfædda sjúkdóma svo og þau sem verða fyrir alvarlegum afleiðingum vegna fæðingar fyrir tímann. Sérstaklega sé hnykkt á því í athugasemdum með ffl. að önnur veikindi barna auki ekki á réttinn til fæðingarstyrks. Þá greinir Fæðingarorlofssjóður frá því að vísbendingu megi finna um hversu alvarlegur sjúkleikinn þurfi að vera af skoðun á seinna skilyrði ákvæðisins.

Seinna skilyrðið sem verði að uppfylla svo tilefni gefist til að beita heimildarákvæðinu sé að sjúkleiki barns sé það alvarlegur að hann krefjist nánari umönnunar foreldris. Ekki sé óalgengt að ung börn veikist sem kalli þá á aukna umönnun foreldris tímabundið en án þess þó að veikindin geti talist alvarleg. Einnig sé ljóst að öll börn þurfa umtalsverða umönnun á fyrsta æviskeiðinu og séu foreldrar því iðulega heima með börnum sínum til að annast þau fyrstu mánuðina. Verði því að telja að hin aukna umönnun, vegna hins alvarlega sjúkleika, þurfi að vera umtalsvert meiri en venjubundið getur talist, til dæmis hjá foreldrum sem séu heima hjá barni sínu í fæðingarorlofi skv. 1., sbr. 10. mgr. 18. gr. ffl., til þess að tilefni gefist að beita heimildarákvæði 2. mgr. 22. gr. ffl., sbr. 19. gr. reglugerðar nr. 1218/2008.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að í læknisvottorði C, barnalæknis og sérfræðings í fötlunum barna, dags. 9. apríl 2010, komi fram að sjúkdómsgreining sé Downs-heilkenni Q90.0 og þroskaröskun F89. Við lýsingu á sjúkdómi barns segi orðrétt: „D fæddist á E-sjúkrahúsi eftir 40 vikna meðgöngu, með bráðakeisaraskurði vegna hjartsláttaróreglu hjá fóstri. Eftir fæðingu kom í ljós útlitseinkenni, sem samrýndust Downs-heilkenni og litningapróf hjá D staðfesti þrístæðu á litningi 21 og þar með Downs-heilkenni. Hún reyndist ekki vera með meðfæddan byggingargalla á hjarta eins og oft sést hjá börnum með DH og hefur verið hraust. Hún lá sængurlegu á kvennadeild, en hefur ekki haft þörf fyrir frekari sjúkrahúsdvöl enn sem komið er. Tilvísun barst Greiningarstöð fljótlega eftir fæðingu og fjölskyldan byrjuð í þjónustu á Greiningarstöð, snemmtækri íhlutun með þverfaglegri nálgun, hún kemur reglubundið í þroska- og sjúkraþjálfun (sú þjónusta að hefjast) og afskipti annara eftir ákveðinni áætlun og þörfum. D fer aftur í hjartaómum við 3 mánaða aldur og er líka í eftirliti hjá F barnalækni.“

Samkvæmt framangreindu sé óumdeilt að barnið fæddist með Downs-heilkenni. Downs-heilkenni spanni hins vegar mjög vítt svið og sé alþekkt að einstaklingar með heilkennið séu mjög mismunandi og langt frá því að vera einsleitur hópur. Líkt og kemur fram í læknisvottorði C, barnalæknis og sérfræðings í fötlunum barna, þá reyndist barnið ekki vera með meðfæddan byggingargalla á hjarta eins og svo oft sést hjá börnum með Downs-heilkenni og hún hefur verið hraust. Barnið hefur ekki haft þörf fyrir frekari sjúkrahúsdvöl en sængurleguna á kvennadeild og hafin sé þroska- og sjúkraþjálfun. Af læknisvottorðinu verði því ekki ráðið að um alvarlegan sjúkleika barns sé að ræða í þessu tilviki þar sem barnið virðist vera almennt hraust né heldur að umönnunarþörf sé aukin í þeim mæli að réttlæti lengingu á fæðingarstyrk.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður ekki vera tilefni að svo stöddu til að beita heimildarákvæði 2. mgr. 22. gr. ffl., sbr. 19. gr. reglugerðarinnar, og að kæranda hafi réttilega verið synjað um framlengingu fæðingarstyrks vegna alvarlegs sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris, sbr. synjunarbréf dags. 23. apríl 2010.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um framlengingu fæðingarorlofs vegna sjúkdóms barns.

Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. ffl. er heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris. Samkvæmt 5. mgr. 17. gr. ffl., sbr. a-lið 14. gr. laga nr. 74/2008, skal rökstyðja þörf fyrir lengingu fæðingarorlofs skv. 1.–4. mgr. 17. gr. með vottorði sérfræðilæknis. Jafnframt er Vinnumálastofnun heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg samkvæmt ákvæðinu.

Í athugasemdum við 17. gr. ffl. segir í greinargerð að ákvæðið eigi sér fyrirmynd í 15. og 16. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum. Rökstyðja skuli þörf fyrir framlengingu á fæðingarorlofi með vottorði læknis en lagt í hendur tryggingayfirlæknis að meta hvort lenging fæðingarorlofs verði talin nauðsynleg. Önnur veikindi barna lengi ekki fæðingarorlof. Ákvæði um lengingu fæðingarorlofs vegna alvarlegs sjúkleika barns, sem krefst nánari umönnunar foreldris, kom fyrst inn í lög um almannatryggingar með lögum nr. 97/1980 um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 67/1971. Í lögunum eða lögskýringargögnum með þeim er ekki að finna frekari skilgreiningar eða viðmiðanir um það hvað telst alvarlegur sjúkleiki barns í þessu sambandi, en tekið er fram í lagatextanum að þörfin skuli rökstudd með læknisvottorði. Sambærilegt orðalag er að finna í eldri lögum um almannatryggingar nr. 117/1993 og í athugasemdum við 7. gr. laga nr. 51/1997, sem breyttu þeim lögum, er að finna ákveðnar leiðbeiningar um hvað teljist alvarlegur sjúkleiki barns, þar sem segir að hér geti bæði verið um að ræða alvarlega meðfædda sjúkdóma, svo og alvarlegar afleiðingar fæðingar fyrir tímann.

Með umsókn kæranda til Fæðingarorlofssjóðs fylgdi læknisvottorð C, barnalæknis og sérfræðings í fötlunum barna, dags. 9. apríl 2010, þar sem fram koma upplýsingar um barn kæranda sem fæddist Y janúar 2010.

Í læknisvottorðinu segir að heiti sjúkdóms sé „Downs-heilkenni“, kóði Q90.0 og „þroskaröskun“, kóði F89. Um lýsingu á sjúkdómi, læknisskoðun og batahorfur segir: „D fæddist á E-sjúkrahúsi eftir 40 vikna meðgöngu, með bráðakeisaraskurði vegna hjartsláttaróreglu hjá fóstri. Eftir fæðingu komu í ljós útlitseinkenni, sem samrýndust Downs-heilkenni og litningapróf hjá D staðfesti þrístæðu á litningi 21 og þar með Downs-heilkenni. Hún reyndist ekki vera með meðfæddan byggingargalla á hjarta eins og oft sést á börnum með DH og hefur verið hraust. Hún lá sængurlegu á kvennadeild, en hefur ekki haft þörf fyrir frekari sjúkrahúsdvöl enn sem komið er. Tilvísun barst Greiningarstöð fljótlega eftir fæðingu og fjölskyldan byrjuð í þjónustu á Greiningarstöð, snemmtækri íhlutun með þverfaglegri nálgun, hún kemur reglubundið í þroska- og sjúkraþjálfun (sú þjónusta að hefjast) og afskipti annarra eftir ákveðinni áætlun og þörfum. D fer aftur í hjartaómun við 3 mánaða aldur og er líka í eftirliti hjá F barnalækni.“ Um dvöl á sjúkrahúsi segir: Observatio á kvennadeild/ sængurlegu í 5 daga eftir fæðingu.

Framangreint læknisvottorð staðfestir að barn kæranda hafi fæðst með Downs-heilkenni og þroskaröskun. Þá segir að hún sé ekki með meðfæddan hjartagalla og hún hafi verið hraust. Hún hafi legið í fimm daga á sjúkrahúsi en hafi ekki haft þörf fyrir frekari dvöl þar.

Samkvæmt heimildarákvæði 2. mgr. 17. gr. ffl. þarf að leggja mat á hvort um sé að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris. Þannig er ekki nægjanlegt til þess að skapa rétt til framlengingar fæðingarorlofs að um alvarlegan sjúkleika barns sé að ræða heldur er einnig gert að skilyrði að sjúkleikinn krefjist nánari umönnunar foreldris. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur ekki verið sýnt fram á að umrætt heilkenni barns kæranda og þroskaröskun þess krefjist nánari umönnunar foreldris í skilningi 2. mgr. 17. gr. ffl.

Með hliðsjón af öllu framangreindu telur úrskurðarnefndin að skilyrðum 2. mgr. 17. gr. ffl. um framlengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna sjúkdóms barns kæranda sé ekki fullnægt og er hin kærða ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 23. apríl 2010, um að synja A um framlengingu fæðingarorlofs er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta