Hoppa yfir valmynd
30. september 2010 Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 30. september 2010

Mál nr. 61/2010B

ÚRSKURÐUR

Hinn 30. september 2010 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 61/2010B:

I. Málavextir

Með bréfi, dags. 6. ágúst 2010, fóru X og Y fram á það við mannanafnanefnd að úrskurður nefndarinnar frá 13. júlí 2010 í máli nr. 61/2010 yrði endurskoðaður. Í úrskurðinum var beiðni um eiginnafnið Cæsar hafnað.

Í bréfi X og Y kemur m.a. eftirfarandi fram:

,,Nafninu Cæsar er samkvæmt máli nr. 61/2010 hafnað á þeirri forsendu að C sé ekki til í íslensku stafrófi og þar af leiðandi er ritun þess að brjóta í bág við íslenskt málkerfi og vísað er í auglýsingar um íslenska starfsetningu. Við höfum nú lesið áðurnefndar auglýsingar og getum við ekki séð að þar sé fjallað sérstaklega um stafinn C. Við höfum skoðað leyfð karlmanns eiginnöfn sem birt eru á heimasíðu mannanafnanefndar. Þar eru leyfð nöfnin Carl, Cecil, Christian, Christopher, Cýrus. Einnig er eiginnafnið Victor leyft. Samkvæmt því er ljóst að stafurinn C hefur verið samþykktur af mannanafnanefnd í þessum tilvikum og fleirum, þar sem 9 stúlknanöfn sem byrja á stafnum C hafa einnig verið samþykkt af Mannanafnanefnd. Fordæmin eru því greinilega til staðar enda eru nöfn sem rituð eru með C komin í íslensk manntöl þegar árið 1845.

Samkvæmt gögnum Þjóðskrár Íslands er [...] einn karl skráður með eiginnafnið Cæsar sem síðara nafn. Hann er X og fæddur 1985. Einnig eru skráðir tveir látnir einstaklingar með nafninu Cæsar, annar fæddur 1897 en sá yngri, Z, Cæsar Hallgrímsson var fæddur 1910 en af einhverjum ástæðum er hann skráður fæddur 1911 í þjóðskrá. Af hverju Cæsar sá sem fæddur eru 1897 er ekki skráður í manntal 1910 höfum við ekki skýringar á, en Z, Cæsar Hallgrímsson, var skírður Sessel (framburður Sesel) en því nafni var breytt í Cæsar meðan hann var enn á unga aldri.

Við viljum hins vegar benda á að í Íslendingabók er skráður maður að nafni Sigmundur Cæsar Karlsson sem fæddur er 1954 og í Morgunblaðinu frá árinu 1974 er birt mynd af honum þar sem þessi ritháttur nafnsins kemur fram. Í dagblöðum frá fyrri tímum eru einnig tilkynningar um brúðkaup tveggja einstaklinga með þessu nafni. Það eru Gunnar Cæsar Pétursson, tilkynning birt í morgunblaðinu þriðjudaginn 23. desember 1958 og Karl Cæsar Sigmundsson tilkynning birt í morgunblaðinu föstudaginn 13. febrúar 1959. Á heimasíðunni handrit.is kemur fram að árið 1895 er gefin út bók að nafni „Sögu og rímnabók“. Skrifari þessa handrits er Júlíus Cæsar Þorsteinsson. Valdimar Hólm Hallstað hagyrðingur og textaskáld 1906-1989 tók sér skáldanafnið Cæsar og kemur það fram víða þar sem textar hans eru fluttir. Má þar nefna að texti hans „Úr fjarlægð“ er sungin við margar íslenskar útfarir og er þá skáldanafn hans gjarnan skráð á útfararritin. [...] Loks má geta að í gömlum íslenskum söguritum er nafn Júlíusar Caesars jafnan ritað sem Júlíus Cæsar.

Við vitum ekki hvort ofangreindir einstaklingar hafa verið skírðir þessum nöfnum eða þeir hafa tekið sér þau síðar á lífsleiðinni. Hitt er ljóst að ritháttur nafnsins hefur verið þekktur hér á landi amk. frá 1895 er Júlíus Cæsar Þorsteinsson er skráður fyrir handriti. Ritháttur nafnsins kemur vissulega fram fyrr hér á landi þar sem nafn Júlíusar Caesars Rómarkeisara er ritað í íslenskum sögum og sögnum sem Júlíus Cæsar. Það er því ljóst að nafnið Cæsar hefur komið fyrir í íslenskum bókmenntum, sem höfundarnafn bæði bóka og texta, ásamt því að þessi ritháttur hefur greinilega verið viðurkenndur í íslensku máli hér áður fyrr, óskum við eftir að mannanafnanefnd endurskoði afstöðu sína gagnvart höfnun á nafninu og vísum þar með í að nafnið hafi unnið sér hefð eða menningarhelgi samkvæmt lið 3 um ungt tökunafn.

Ef mannanafnanefnd telur sig ekki geta staðfest nafnið á þeirri forsendu viljum við vísa í að á heimasíðu mannanafnanefndar kemur fram að rithátturinn Carl, Cecil, Christian og Victor eru leyfðir rithættir af nöfnunum Karl, Sesil, Kristján og Viktor. Með vísan í það fordæmi óskum við eftir að fá nafnið Cæsar staðfest sem rithátt af eiginnafninu Sesar.“

II. Niðurstaða

1.

Eins og áður greinir lýtur beiðni sú sem hér er til úrlausnar að því að mannanafnanefnd endurskoði afstöðu sína í máli nr. 61/2010 um að hafna eiginnafninu Cæsar.

Eins og rakið er í úrskurði nr. 61/2010 þurfa öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn, að vera uppfyllt svo hægt sé að samþykkja nýtt mannanafn. Niðurstaðan í málinu var sú að þar sem rithátturinn Cæsar væri ekki í samræmi við íslenskar ritreglur og að ekki væri hefð fyrir rithættinum þá væri skilyrðum lagákvæðisins ekki fullnægt. Í ljósi þeirrar beiðni sem hér er til umfjöllunar má fallast á það að niðurstaða mannanafnanefndar í úrskurðinum hafi ekki verið alveg nægilega vel rökstudd. Í því ljósi er fallist á það að taka málið fyrir að nýju til þess að skýra betur af hverju niðurstaða nefndarinnar varð sú sem raunin er. Endurupptaka málsins grundvallast á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

2.

Þau skilyrði sem fullnægja þarf til að mannanafnanefnd geti fallist á nýtt eiginnafn koma fram í 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn og eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi að eiginnafn geti tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli, í öðru lagi að nafnið brjóti ekki í bág við íslenskt málkerfi og í þriðja og síðasta lagi að nafnið skuli ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.

Úrskurður mannanafnanefndar í máli nr. 61/2010 byggðist í fyrsta lagi á því að bókstafurinn c væri ekki í íslensku stafrófi. Af þeirri ástæðu teldist umbeðinn ritháttur ekki í samræmi við íslenskar ritreglur. Vegna röksemda sem fram koma í beiðni um endurskoðun málsins skal tekið fram að í þessu sambandi skiptir ekki máli að ekki sé sérstaklega fjallað um bókstafinn í auglýsingum nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu. Þá breytir engu þótt eiginnöfn sem byrja á bókstafnum c séu þegar skráð á mannanafnaskrá þar sem fyrir liggur að þau hafa verið færð á skrána með vísan til þess að umræddur ritháttur hefur verið talinn hefðaður samkvæmt lögum um mannanöfn. Er því ekki tilefni til að breyta fyrri niðurstöðu nefndarinnar um það að nafnið Cæsar telst ekki ritað í samræmi við íslenskar ritreglur.

3.

Með vísan til framangreinds er aðeins heimilt að fallast á umbeðinn rithátt eiginnafnsins Cæsar ef hann telst hefðaður samkvæmt lögum um mannanöfn. Eins og rakið er í umræddum úrskurði nefndarinnar styðst túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. gr. laga nr. 45/1996 við vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum. Reglurnar eru svohljóðandi:

  1. „Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:
    1. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
    2. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
    3. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
    4. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
    5. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.
  2. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.
  3. Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.“

Fyrir liggur að einn Íslendingur er skráður með eiginnafnið Cæsar. Þá liggur fyrir að nafnið kemur hvorki fyrir í manntalinu 1910 né í tveimur manntölum frá 1703-1910. Nafnið er eingögnu borið af einum Íslendingi. Með vísan til þess er ekkert þeirra skilyrða sem talin eru upp í 1. lið vinnulagsreglnanna uppfyllt. Engu breytir í þessu sambandi þótt Íslendingar séu nefndir umæddu nafni í dagblöðum eða öðrum gögnum þar sem fyrir liggur að fjöldi skráðra nafnbera uppfyllir ekki umræddan tölulið. Með vísan til þess verður ekki séð að forsendur í úrskurði mannanafnanefndar í máli nr. 61/2010 hafi verið rangar hvað varðar skilning á 1. lið vinnulagsreglnanna.

4.

Í beiðni aðila er því haldið fram að rithátturinn Cæsar hafi unnið sér menningarhelgi samkvæmt 3. lið vinnulagsreglna mannanafnanefndar þar sem þessi ritháttur hafi „komið fyrir í íslenskum bókmenntum, sem höfundarnafn bæði bóka og texta, ásamt því að þessi ritháttur hefur greinilega verið viðurkenndur í íslensku máli hér áður fyrr“. Samkvæmt umræddum tölulið vinnulagsreglnanna getur nafn talist hafa unnið sér menningarhelgi og þar með talist hefðað ef það kemur fyrir í alkunnum ritum eða m.ö.o. ritum sem telja má alkunn hér á landi.

Mannanafnanefnd hefur kannað hvernig nafnið er ritað í nokkrum íslenskum ritum. Dæmi er að finna um ritháttinn Cæsar í íslenskum ritum (s.s. Þróun siðmenningar, Reykjavík, Örn og Örlygur 1983, og Letrað í vindinn : samsærið eftir Helga Ingólfsson, Reykjavík, Mál og menning, 1994). Aðrir rithættir nafnsins, Sesar og Caesar, eru hins vegar miklu algengari.

Það leiðir af vinnulagsreglum mannanafnanefndar að til þess að rit teljist hafa unnið sér menningarhelgi þarf það að koma fyrir í „alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum“. Þrátt fyrir að réttur manns til nafns sé ríkur þá verður hér eigi að síður að hafa í huga að lög um mannanöfn nr. 45/1996, sem mannanafnanefnd ber að starfa eftir, gera þá meginkröfu að ritháttur nafns skuli fullnægja ritreglum íslenskunnar. Þessa kröfu hefur löggjafinn talið nauðsynlegt að lögbinda og þar með bundið hendur nefndarinnar að því leyti. Tilgangur vinnulagsreglnanna er sá að auka samræmi við mat á því hvaða nöfn teljist hafa öðlast hefð þrátt fyrir að ganga gegn þessu skilyrði. Í 3. lið reglnanna felst ekki að ef nafn kemur fyrir í íslensku ritmáli þá sé það af þeirri ástæðu hefðað. Til þess að rit fullnægi kröfum reglnanna verður það að vera vel þekkt af stórum hluta íslensks almennings. Það er niðurstaða mannanafnanefndar að þau rit sem hafa að geyma ritháttinn Cæsar fullnægi ekki því viðmiði.

5.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki fallist á að rithátturinn Cæsar sé hefðaður, hvorki í skilningi 1. né 3. liðar vinnulagsreglna mannanafnanefndar. Samkvæmt því eru ekki öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn uppfyllt og því ekki mögulegt að færa það á mannanafnaskrá.

Að endingu skal áréttað að engu breytir í þessu sambandi þótt eiginnöfn sem byrja á bókstafnum c séu þegar skráð á mannanafnaskrá þar sem fyrir liggur að þau hafa verið færð á skrána með vísan til þess að umræddur ritháttur hefur verið talinn hefðaður í framangreindum skilningi.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Cæsar (kk.) er hafnað.

Mál nr. 79/2010 Eiginnafn: Leona

Hinn 30. september kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 79/2010:

Eiginnafnið Leona fullnægir kröfu 5. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996. Einhljóðið e kemur fyrir á undan o í íslensku í nokkrum orðum, s.s. neon, freon og teoría og einnig í íslenskum eiginnöfnum, s.s. Georg. Nefndin telur vafasamt að hljóðasambandið eo myndi fullnægja reglum um íslenska málkerfið ef það kæmi fyrir í bakstöðu orðs. Svo er ekki hér.

Eiginnafnið Leona (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Leonu, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Leona (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

Mál nr. 80/2010 Eiginnafn: Yana

Hinn 30. september kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 80/2010:

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

Mannanafnanefnd telur að almennt megi ganga út frá því að nafnið Yana sé ekki borið fram þannig að bókstafurinn y standi fyrir i-hljóð. Ef svo væri skal þó tekið fram að hljóðið i, hvort sem það er táknað með y eða i, kemur ekki fyrir á undan a í ósamsettum orðum og hljóðasambandið -ya- eða -ia- gengur því gegn íslenskum hljóðskipunarreglum. Hljóðskipunarreglur teljast hluti íslenska málkerfisins og því væri ekki hægt að fallast á nafnið ef þessi forsenda væri lögð til grundvallar.

Þar sem framburðurinn -ya- gengur samkvæmt framangreindu gegn íslenskum hljóðskipunarreglum verður að byggja á því að Yana sé borið fram þannig að y tákni j-hljóð. Slíkur framburður gengi ekki gegn málkerfinu. Á hinn bóginn er hljóðið j ekki táknað með bókstafnum y í íslenskri stafsetningu. Því er aðeins heimilt að fallast á nafnið ef umbeðinn ritháttur þess telst hefðaður samkvæmt lögum um mannanöfn.

Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:

  1. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:
    1. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
    2. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
    3. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
    4. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
    5. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.
  2. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.
  3. Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

Samkvæmt gögnum Þjóðskrár er ber engin kona eiginnafnið Yana sem uppfyllir skilyrði ofangreindra vinnulagsreglna. Eiginnafnið Yana uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og því er ekki mögulegt að fallast á það.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Yana (kvk.) er hafnað.

Mál nr. 82/2010 Eiginnafn: Anya

Hinn 30. september 2010 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 82/2010, en erindið barst nefndinni 28. september:

Öll skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu.

Mannanafnanefnd telur að almennt megi ganga út frá því að nafnið Anya sé ekki borið fram þannig að bókstafurinn y standi fyrir i-hljóð. Ef svo væri skal þó tekið fram að hljóðið i, hvort sem það er táknað með y eða i, kemur ekki fyrir á undan a í ósamsettum orðum og hljóðasambandið -ya- eða -ia- gengur því gegn íslenskum hljóðskipunarreglum. Hljóðskipunarreglurnar teljast hluti íslenska málkerfisins og því væri ekki hægt að fallast á nafnið ef þessi forsenda væri lögð til grundvallar.

Þar sem framburðurinn -ya- gengur samkvæmt framangreindu gegn íslenskum hljóðskipunarreglum verður að byggja á því að Anya sé borið fram þannig að y tákni j-hljóð. Slíkur framburður gengi ekki gegn málkerfinu. Á hinn bóginn er hljóðið j ekki táknað með y. Því er aðeins heimilt að fallast á nafnið ef umbeðinn ritháttur þess telst hefðaður samkvæmt lögum um mannanöfn.

Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:

  1. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:
    1. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
    2. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
    3. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
    4. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
    5. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.
  2. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.
  3. Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

Samkvæmt gögnum Þjóðskrár eru tvær stúlkur skráðar með eiginnafnið Anya sem uppfylla skilyrði ofangreindra vinnulagsreglna og eru þær fæddar árin 2002 og 2006. Það telst því ekki vera hefð fyrir þessum rithætti.

Eiginnafnið Anya uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og því er ekki mögulegt að fallast á það.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Anya (kvk.) er hafnað.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta