Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 24/2009

Föstudaginn 6. nóvember 2009

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 16. júní 2009 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 12. júní 2009.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 5. júní 2009 um að synja kæranda um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu.

 

Í rökstuðningi með kæru er vitnað til þess að kærandi hafi haft slæma verki neðarlega í baki og öllum vinstri ganglim og verið haldin mikilli þreytu. Vegna einkenna frá bakinu hafi hún átt erfitt með að sitja. Hafi henni sortnað fyrir augum þegar hún sat við tölvuvinnu. Þá kemur fram að hún verið haldin einmanaleika og verið viðkvæm og grátgjörn. Hafi hún ekki getað unnið og séð um sig sjálfa.

 

Með bréfi, dagsettu 19. júní 2009, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 26. júní 2009. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs að synja kæranda um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður á meðgöngu.

Með umsókn, dags. 25. apríl 2009 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði, vegna væntanlegrar barnsfæðingar 11. júní 2009. Á umsókninni kemur fram að kærandi sæki um lengingu á fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu.

Auk umsóknar kæranda barst vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 14. apríl 2009, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 25. apríl 2009, starfslokavottorð, dags. 25. apríl 2009, læknisvottorð vegna sjúkdóms móður, dags. 29. apríl 2009 og launaseðlar frá B fyrir september 2008 – mars 2009.

Með tveimur bréfum Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 11. maí 2009, var henni tilkynnt að þörf væri á ítarlegra læknisvottorði þar sem fram þyrfti að koma hvort læknir teldi kæranda vera óvinnufæra vegna bakverkja. Jafnframt var kæranda bent á að hún væri launalaus mánuðina desember 2008 og febrúar – apríl 2009 og upplýst um hvað jafnframt teldist til þátttöku á vinnumarkaði í skilningi 13. gr. a. laga um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) nr. 95/2000. Í kjölfarið barst nýtt læknisvottorð, dags. 27. maí 2009 og var kæranda í framhaldinu synjað um lengingu á fæðingarorlofi með bréfi dags. 5. júní 2009 þar sem ekki væri séð að um meðgöngutengd veikindi væri að ræða.

Í 4. mgr. 17. gr. ffl. segir: Sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skal hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns fellur heimild til lengingar samkvæmt þessu ákvæði niður frá þeim tíma. Ráðherra skal setja í reglugerð nánari skilyrði um framkvæmd þessa ákvæðis. Í 5. mgr. kemur fram að rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi skv. 1. – 4. mgr. með vottorði sérfræðilæknis. Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg samkvæmt ákvæðinu og í 6. mgr. kemur fram að umsókn um lengingu fæðingarorlofs skv. 4. mgr. skuli fylgja staðfesting vinnuveitanda. Í þeirri staðfestingu skuli koma fram hvenær launagreiðslur féllu niður.

Í 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, kemur fram að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns falli heimild til lengingar samkvæmt ákvæðinu niður frá þeim tíma og í 2. mgr. kemur fram að með heilsufarsástæðum sé átt við:

a. sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni,

b. sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni,

c. fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni.

Samkvæmt læknisvottorði D, dags. 29. apríl 2009, kemur fram að kærandi hafi frá því í mars verið slæm af verkjum í mjóbaki. Hún sofi mjög illa og sé þreytt yfir daginn. Greining á sjúkdóm móður er bakverkur. Í læknisvottorði D, dags. 27. maí 2009, kemur fram að kærandi hafi frá því í byrjun apríl verið með verki v.m. í mjóbaki. Hún eigi erfitt með að sitja lengi og verkir trufli svefn. Vont sé að snúa sér í rúminu, þreyta og treysti sér ekki í vinnu frá miðjum apríl. Einkenni verið versnandi þrátt fyrir hvíld. Hreyfingar nokkuð eðlilegar. Ekki merki um grindargliðnun [eða/en] eymsli para lumbalt v.m. Læknir telur þó ekki ástæðu til að draga mat sjúklings í efa. Greining á sjúkdóm móður er bakverkur.

Í kjölfarið var kæranda synjað um lengingu á fæðingarorlofi með bréfi dags. 5. júní 2009 þar sem ekki væri ráðið af læknisvottorði sérfræðilæknis að kærandi væri óvinnufær af meðgöngutengdum heilsufarsástæðum í skilningi 9. gr. rgl. nr. 1218/2008.

Þann 10. júní 2009 hringdi D læknir í Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóð og óskaði eftir samtali við sérfræðilækni Vinnumálastofnunar til að ræða um mál kæranda. Þann 11. júní 2009 hringdi E sérfræðilæknir Vinnumálastofnunar í D. Í símtalinu kom fram að ekki væri hægt að staðfesta að móðir væri óvinnufær af meðgöngutengdum heilsufarsástæðum í skilningi 9. gr. rgl. nr. 1218/2008. Ekki væri merki um grindargliðnun hjá kæranda. Ekki þótti því tilefni til að breyta fyrri ákvörðun Vinnumálastofnunar í málinu.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda á meðgöngu, sbr. synjunarbréf dags. 5. júní 2009.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 29. júní 2009, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu.

Í 4. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) segir að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns falli heimild til lengingar samkvæmt ákvæðinu niður frá þeim tíma. Samkvæmt 5. mgr. 17. gr. skal rökstyðja þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis. Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg. Synjun Vinnumálastofnunar um lengingu fæðingarorlofs sé heimilt að kæra til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála. Samkvæmt 6. mgr. 17. gr. skal staðfesting vinnuveitanda fylgja umsókn um lengingu. Í þeirri staðfestingu skal koma fram hvenær launagreiðslur féllu niður.

Samkvæmt lokamálslið 4. mgr. 17. gr. ffl. skal ráðherra setja í reglugerð nánari skilyrði um framkvæmd ákvæðisins. Í 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofsjóði og greiðslu fæðingarstyrks segir að með heilsufarsástæðum sé átt við:

a. sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni,

b. sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni,

c. fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni.

Fyrir liggur læknisvottorð D dagsett 29. apríl 2009. Þar segir að frá því að í lok mars hafi kærandi verið slæm af verkjum í mjóbaki. Hún sofi mjög illa og sé þreytt yfir daginn. Í læknisvottorði D dagsettu 27. maí 2009 kemur fram að kærandi hafi frá því í byrjun apríl haft verki vinstra megin í mjóbaki. Hún eigi erfitt með að sitja lengi og verkir trufli svefn. Hún eigi vont með að snúa sér í rúminu, sé þreytt og treysti sér ekki til vinnu frá miðjum apríl. Einkenni verið versnandi þrátt fyrir hvíld. Hreyfingar séu nokkuð eðlilegar. Ekki merki um grindargliðnun en eymsli para lumbalt vinstra megin. Telur læknirinn ekki ástæðu til að draga mat sjúklings í efa.

Samkvæmt starfslokavottorði dagsettu 25. apríl 2009 undirrituðu af F vegna B lét kærandi af störfum vegna veikinda 27. mars 2009. Samkvæmt vottorðinu féll hún af launaskrá 11.04.2009 og þann dag var veikindaréttur hennar fullnýttur.

Álitaefnið í þessu máli er hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði 4. mgr. 17. gr. ffl. til að eiga rétt til lengingar greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu, sbr. einnig 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, þegar launagreiðslur til hennar féllu niður. Að mati úrskurðarnefndarinnar staðfesta fyrirliggjandi gögn málsins og upplýsingar sem aflað hefur verið ekki að óvinnufærni kæranda megi rekja til meðgöngutengdra heilsufarsástæðna í skilningi a og b-liðar 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008. Samkvæmt því verður að staðfesta hina kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta