Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 38/2009

Föstudaginn 6. nóvember 2009

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 12. október 2009 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 8. október 2009.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 29. september 2009 um útreikning á greiðslum til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í kæru segir meðal annars:

„Með bréfi frá Fæðingarorlofssjóði, dags. 29. september sl. var undirritaðri tilkynnt að samkvæmt þeim upplýsingum og gögnum sem liggja fyrir hjá Fæðingarorlofssjóði að þá uppfylli undirrituð skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði að fjárhæð X kr. á mánuði miðað við 100% orlof.

Það er mat undirritaðar að útreikningar Fæðingarorlofssjóðs hvað varðar greiðslur á fæðingarorlofi séu ekki réttir og því er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs hér með kærð til úrskurðarnefndar fæðingar - og foreldraorlofsmála.

Málavextir:

Þann Y. september sl. fæddist sonur minn. Áætlaður fæðingardagur var 6. október 2009. Í bréfi frá Fæðingarorlofssjóði, dags. 25. ágúst sl. voru útreikningar á greiðslum til mín í fæðingarorlofi, miðaðir við viðmiðunartímabilið frá apríl 2008 til mars 2009. Þar sem sonur minn fæddist í byrjun september breyttist umrætt viðmiðunartímabil og varð frá mars 2008 til febrúar 2009, sbr. greiðsluáætlun frá Fæðingarorlofssjóði dags 29. september sl. Við launaafgreiðslu fyrir mánuðina janúar til mars 2009 áttu sér stað mistök af hálfu vinnuveitanda míns og þann 18. ágúst sl. sendi starfsmannastjóri B bréf til Fæðingarorlofssjóðs þar sem fram kom hver raunveruleg laun mín voru fyrir janúar til mars 2009. Þar sem sonur minn fæddist mánuði fyrir tímann er nú ljóst að umræddar leiðréttingar vinnuveitanda míns, sem fram koma á launaseðlum mínum fyrir janúar til mars 2009, falla ekki allar innan viðmiðunartímabils vegna útreikning fæðingarorlofs. Í bréfi vinnuveitanda míns, frá 18. ágúst sl., kemur fram hver raunveruleg laun mín voru fyrir janúar og febrúar 2009 en samkvæmt upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði var ekki tekið tillit til umrædds bréfs frá vinnuveitanda mínum heldur aðeins litið til þeirra upplýsinga er fram koma í staðgreiðsluskrá RSK.

Hvað aðra mánuði á viðmiðunartímabili útreiknings greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði varðar, þ.e. mars 2008 til nóvember 2008, þá var ég í fæðingarorlofi þá mánuði en í desember 2008 var ég í launalausu leyfi. Í tölvupósti frá 27. ágúst sl. frá sérfræðingi hjá Fæðingarorlofssjóði, kemur fram að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á viðmiðunartímabilinu séu uppreiknaðar um 20% þannig að upphæðin er 100% í stað 80% miðað við dreifingu greiðslna úr sjóðnum. Síðan segir í tölvupóstinum að þar sem ég hafi dreift fæðingarorlofi með fyrra barni á 12 mánuði séu greiðslur sem fram koma á viðmiðunartímabilinu vegna núverandi umsóknar 50% af þeim meðaltekjum sem ég var með í fyrra orlofi með 20% uppreikningi í stað 100% greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði ef um 6 mánaða fæðingarorlof hefði verið að ræða.

Rökstuðningur:

í 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 er vikið að rétti foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. 13. gr. laganna segir:

Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a-e-liði 2. mgr. 13. gr. a. Þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna á viðmiðunartímabili skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við og skal aldrei taka mið af hærri fjárhæð en nemur þeim viðmiðunartekjum enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli þessara greiðslna og viðmiðunartekna bættan samhliða greiðslunum. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Í greiðsluáætlun frá Fæðingarorlofssjóði, dags. 27. nóvember 2007, vegna fæðingarorlofs með barni mínu sem fætt er árið 2007 kemur fram að umsókn mín hafi verið samþykkt og mánaðarlega greiðsla nemi 80% af meðaltekjum mínum samkvæmt skrám skattyfirvalda tekjuárin 2005 og 2006. Síðan segir í bréfinu að þar sem heildartekjur mínar séu að meðaltali X kr. verði mánaðarlega greiðsla til mín, miðað við 100% fæðingarorlof X kr.

Hvað varðar núverandi umsókn mína um fæðingarorlof þá reiknar Fæðingarorlofssjóður greiðslur til mín úr sjóðnum þá mánuði sem ég var í fæðingarorlofi og falla innan viðmiðunartímabilsins, þ.e. mars 2008 til nóvember 2008, þannig að greiðslur frá sjóðnum eru uppreiknaðar um 20%. Þar sem ég dreifði fæðingarorlofi með fyrra barni á 12 mánuði, þ.e. var í 50% fæðingarorlofi, miðar Fæðingarorlofssjóður við að viðmiðunartekjur mínar vegna núverandi umsóknar um fæðingarorlof séu sem nemur 50% af X kr., þ.e. X kr., að viðbættum uppreikningi að fjárhæð X kr. eða samtals X kr.

Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 kemur fram að til launa teljist greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Sérstaklega er vikið að því í 2. mgr. 13. gr. laganna að þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði (og greiðslur frá fleiri aðilum) á viðmiðunartímabili skuli taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við og skal aldrei taka mið af hærri fjárhæð en nemur þeim viðmiðunartekjum enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli þessara greiðslna og viðmiðunartekna bættan samhliða greiðslunum. Eins og fram kemur í bréfi Fæðingarorlofssjóðs frá 27. nóvember 2007, voru heildartekjur mínar að meðaltali X kr. og voru umræddar heildartekjur grundvöllur útreiknings á fæðingarorlofi mínu frá nóvember 2007 til nóvember 2008. Því verður að líta svo á að framangreindar heildartekjur, X kr. teljist vera þær viðmiðunartekjur sem líta beri til við útreikning fæðingarorlofs vegna núverandi umsóknar um fæðingarorlof.

Líta verður svo á að framangreind framkvæmd Fæðingarorlofssjóðs á útreikningum á greiðslum í fæðingarorlofi vegna núverandi umsóknar minnar um fæðingarorlof sé ekki í samræmi við 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000. Skýra ber lögin eftir orðanna hljóðan og því ber Fæðingarorlofssjóði að líta til þeirra viðmiðunartekna sem greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði miðuðust við, þ.e. viðmiðunartekjur að fjárhæð X kr. Hvergi er í lögum um fæðingar- og foreldraorlof að finna heimild fyrir þeirri framkvæmd útreikninga sem Fæðingarorlofssjóður vill beita, þ.e. að líta beri til greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði á viðmiðunartímabilinu og uppreikna umræddar greiðslur. Skýrt segir í lögunum að þegar um greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði sé að ræða á viðmiðunartímabilinu skuli taka mið að þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við. Umrædd framkvæmd Fæðingarorlofssjóðs er því ekki í samræmi við 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000.

Þá er rétt er að vekja sérstaklega athygli á því að hvorki er í lögum um fæðingar- og foreldraorlof eða í reglugerðum þar að lútandi, að finna heimild til að viðmiðunartekjur séu skertar í hlutfalli við að foreldrar dreifi fæðingarorlofi sínu á lengri tíma, til lengri samveru með nýfæddu barni sínu.

Með hliðsjón af öllu framansögðu er þess krafist að Fæðingarorlofssjóði verði gert skylt að líta til viðmiðunartekna að upphæð X kr. á mánuði fyrir mánuðina mars 2008 til nóvember 2008 við útreikning á fæðingarorlofi vegna núverandi umsóknar minnar um fæðingarorlof.

Auk framangreinds er þess einnig krafist að Fæðingarorlofssjóði verði gert skylt að taka tillit til bréfs frá starfsmannastjóra B, dags. 18. ágúst sl. vegna mistaka vinnuveitanda við launaafgreiðslu til mín fyrir janúar til mars 2009. Þar sem sonur minn fæddist mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag er nú ljóst að leiðrétting vinnuveitanda vegna mistaka við launaafgreiðslu í janúar, febrúar og mars sl. fellur ekki öll innan viðmiðunartímabils sem útreikningar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði eru miðaðar við.“

 

Með bréfi, dagsettu 12. október 2009, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 15. október 2009. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 6. júlí 2009, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 6. október 2009.

Auk umsóknar kæranda barst vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 17. apríl 2009, tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs, dags. 6. júlí 2009 og launaseðlar frá B fyrir júní – júlí 2009. Enn fremur lágu fyrir gögn vegna eldri umsóknar kæranda í fæðingarorlofi vegna barns sem fæddist Y. nóvember 2007 og upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Þann 18. ágúst 2009 barst bréf frá vinnuveitanda kæranda með útreikningum á launum hennar fyrir janúar – mars 2009 ekki bárust neinir launaseðlar vegna þessara tímabila sem studdu þá útreikninga.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 25. ágúst 2009, var henni tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla yrði X kr. á mánuði miðað við 100% orlof. Í bréfinu kom fram að ekki væri unnt að senda henni greiðsluáætlun með endanlegum útreikningum fyrr en ljóst væri hvenær barn hennar myndi fæðast.

Í kjölfarið barst tölvupóstur frá kæranda sem var svarað samdægurs m.a. með þeim upplýsingum að heildarlaun kæranda samkvæmt bréfi vinnuveitanda fyrir framangreinda mánuði væru X kr. en skv. staðgreiðsluskrá RSK væru laun hennar fyrir sama tíma X kr. og að farið yrði eftir staðgreiðsluskrá RSK við útreikning á meðaltali heildarlauna hennar.

Þann 25. september 2009 var kæranda send greiðsluáætlun með útreikningum á væntanlegum greiðslum og þann 29. september var henni send leiðrétt greiðsluáætlun þar sem fram kemur að mánaðarleg greiðsla miðað við 100% orlof sé X kr.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), eiga foreldrar, sbr. 1. mgr. 1. gr., sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Þessi réttur er ekki framseljanlegur. Auk þess eiga foreldrar sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér.

Í 10. gr. ffl. er kveðið á um tilhögun fæðingarorlofs. Þar segir í 2. mgr. að með samkomulagi við vinnuveitanda sé starfsmanni þó heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. þó 3. mgr. 8. gr.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, er svo kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna, sbr. a – e liði 2. mgr. 13. gr. a. Þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna á viðmiðunartímabili skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við og skal aldrei taka mið af hærri fjárhæð en nemur þeim viðmiðunartekjum enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli þessara greiðslna og viðmiðunartekna bættan samhliða greiðslunum. Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof segir enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a.

Í 1. mgr. 13. gr. a. ffl. segir að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Í 2. mgr. er síðan talið upp í fimm stafliðum hvað teljist enn fremur til þátttöku á vinnumarkaði:

Til þátttöku á vinnumarkaði telst enn fremur:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar.

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur

til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Í 3. mgr. 15. gr. ffl. er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Fæðingardagur barns kæranda er Y. september 2009 og skal því, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar mánuðina mars 2008 – febrúar 2009 enda taldist kærandi samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafa verið á innlendum vinnumarkaði þann tíma, sbr. 2. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Með kæru kæranda fylgdu með launaseðlar fyrir janúar – mars 2009. Á launaseðli með afgreiðslunúmerið 02.2009 kemur fram að verið sé að gera leiðréttingu á launum kæranda fyrir janúar – febrúar 2009 og að auki eru laun fyrir desember 2008 leiðrétt um X kr. Á launaseðlinum koma jafnframt fram greiðslur aksturspeninga sem ekki komu fram á yfirliti vinnuveitanda kæranda, dags. 18. ágúst 2009. Í framhaldinu var vinnuveitanda kæranda sendur tölvupóstur, dags. 14. október 2009, og barst svar samdægurs þar sem fram kemur að greitt sé tryggingagjald af föstum akstursgreiðslum eins og kærandi hafi verið með. Í kjölfarið var gerð leiðrétting á útreikningi á meðaltali heildarlauna kæranda fyrir desember 2008 og janúar – febrúar 2009. Við þá leiðréttingu hækkuðu greiðslur til kæranda miðað við 100% fæðingarorlof úr X kr. í X kr. Var kæranda send ný greiðsluáætlun um það dags. 15. október 2009.

Samkvæmt eldri umsóknargögnum var kærandi í fæðingarorlofi með barni sínu fæddu Y. nóvember 2007 á hluta viðmiðunartímabils barnsins sem fæddist Y. september 2009, þ.e. frá mars 2008 – nóvember 2008, og fékk greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á því tímabili. Á umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, dags. 22. september 2007, kemur fram að kærandi sæki um greiðslur í 6 mánuði. Á tilkynningu um tilhögun fæðingarorlofs, dags. 11. september 2007, kemur fram að upphaf fæðingarorlofs miðist við fæðingardag barns og að orlofstími sé samfelldur þar sem 6 mánuðum sé dreift á 12 mánaða tímabil. Í samræmi við það var kæranda send greiðsluáætlun, dags. 27. nóvember 2007. Kærandi þáði þannig 50% greiðslur í fæðingarorlofi mánuðina mars – október og 37% greiðslur fyrir nóvember. Meðal mánaðartekjur sem útreikningur greiðslna með því barni var byggður á voru X kr. og 80% af þeim eru X kr. Í samræmi við það voru mánaðargreiðslur vegna 50% fæðingarorlofsins X kr. og X kr. vegna 37% fæðingarorlofsins í nóvember 2008.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á framangreindu viðmiðunartímabili og telur Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Í mars – október 2008 var kærandi í 50% fæðingarorlofi með eldra barni og í 37% fæðingarorlofi í nóvember 2008 og ber því að uppreikna greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði á því tímabili miðað við hlutfall af viðmiðunartekjum í samræmi við töku fæðingarorlofs, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl. og úrskurð úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli nr. 30/2009. Tímabilið mars – október var þannig uppreiknað úr X kr. í X kr. Kærandi var einnig með greiðslu frá B í júní 2008 upp á X kr. sem höfð er með við útreikninginn. Nóvember 2008 er svo uppreiknaður úr X kr. í X kr. Í desember 2008 var kærandi með greiðslu frá B upp á X kr. sem er hækkuð í X kr. til samræmis við launaseðil með afgreiðslunúmerið 02.2009. Jafnframt kemur fram í gögnum málsins að kærandi hafi verið í launalausu leyfi þann mánuð. Launalaust leyfi telst til þátttöku á vinnumarkaði sbr. a – liður 2. mgr. 13. gr. a. ffl. og ber að hafa slíkan tíma með við útreikning á meðaltali heildarlauna foreldris sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl. Greiðslur til kæranda fyrir janúar og febrúar 2009 eru leiðréttar til samræmis við bréf vinnuveitanda kæranda, dags. 18. ágúst 2009, launaseðil 02.2009 og tölvupóst frá vinnuveitanda kæranda, dags. 14. október 2009, þannig að laun fyrir janúar verða X kr. og febrúar X kr.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að greiðsluáætlun til kæranda, dags. 14. október 2009, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 19. október 2009, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 30. október 2009, þar sem ítrekuð eru sjónarmið og rökstuðningur kæranda. Í bréfinu segir meðal annars:

„Í I. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram að markmið laganna sé að tryggja samvistir við báða foreldra og þá sé lögunum ætlað að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Sú túlkun Fæðingarorlofssjóðs sem fram kemur í greinargerð hans vegna málsins getur varla talist vera í samræmi við framangreint markmið laga um fæðingar- og foreldraorlof. Túlkun Fæðingarorlofssjóðs á 2. mgr. 13. gr. laganna hlýtur að letja foreldra til að dreifa fæðingarorlofi sínu á lengri tíma, sérstaklega ef ætlunin er að eignast börn með stuttu millibili. Getur það varla talist í samræmi við tilgang laganna að sú túlkun sé viðhöfð að það að foreldrar velji að dreifa fæðingarorlofi sínu á lengri tíma til lengri samveru með nýfæddu barni sínu leiði til lægri greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði með næsta barni ef stutt er á milli fæðinga barnanna og töku fæðingarorlofs.

Fyrir liggur að löggjöf, túlkun og framkvæmd vegna viðmiðunartekna, viðmiðunartímabils og útreiknings greiðslna vegna fæðingarorlofs hefur sætt mikilli endurskoðun undanfarin ár í þá átt að tryggja að greiðslur séu til samræmis við þau laun sem foreldrar hafa haft meðan þeir eru á vinnumarkaði. Umrædd endurskoðun hefur m.a. sérstaklega vikið að þeim tilfellum þegar foreldrar hafa eignast börn með stuttu millibili og þar af leiðandi farið í fæðingarorlof með stuttu millibili. Elsta barn mitt er fætt í desember 2005 og við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi vegna hennar var litið til tekna á almanaksárunum 2003 og 2004. Þá dreifði ég 6 mánaða fæðingarorlofi á 12 mánuði, þ.e. var í 50% fæðingarorlofi án þess að vinna samhliða. Annað barn mitt fæddist í nóvember 2007 og við útreikning greiðslna í fæðingarorlofi vegna hans var litið til tekna á almanaksárunum 2005 og 2006. Á þeim tíma var framkvæmdin hjá Fæðingarorlofssjóði á þann veg að greiðslur frá sjóðnum þann tíma sem ég var í fæðingarorlofi með elsta barni mínu voru undanskildar við útreikning viðmiðunartekna vegna umsóknar um fæðingarorlof árið 2007.

Miðað við núverandi túlkun Fæðingarorlofssjóðs á 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof er ljóst að um verulegar breytingar er að ræða frá fyrri framkvæmd Fæðingarorlofssjóðs sbr. útreikninga þeirra árið 2007, sbr. greiðsluáætlun frá Fæðingarorlofssjóði dags. 27. nóvember 2007. Ljóst er að hvergi er í lögum um fæðingar- og foreldraorlof með síðari breytingum, fumvarpi til laganna, frumvörpum til breytinga á lögunum, lögskýringargögnum og reglugerðum að finna neitt sem styður að tilgangurinn með breytingunni, sbr. lög nr. 74/2008, hafi verið að skerða greiðslur til foreldra úr Fæðingarorlofssjóði á þann hátt sem kærð framkvæmd gerir miðað við eldri framkvæmd Fæðingarorlofssjóðs.

Þá er rétt að ítreka að sérstaklega er tekið fram í 2. mgr. 13. gr. að þegar um greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði er að ræða á viðmiðunartímabili þá eigi ekki að líta til greiðslnanna sjálfra heldur viðmiðunartekna sem þær greiðslur miðuðust við. Líta verður svo á að umrædd málsgrein hafi sérstaklega verið sett inn í lagabálkinn til að taka á tilfellum þar sem fæðingarorlof eru tekin með stuttu millibili og/eða orlofinu dreift á lengri tíma. Ekki er unnt að sjá að tilgangur málsgreinarinnar sé annar. Ítreka verður einnig að hvergi er í lögum eða reglugerðum heimild fyrir Fæðingarorlofssjóð að skerða umræddar viðmiðunartekjur á grunvelli þess að fæðingarorlofi er dreift á lengra tímabil.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 29. september 2009.

Með greiðsluáætlun dagsettri 15. október 2009 breytti stofnunin fyrri ákvörðun sinni um útreikning samkvæmt greiðsluáætlun 29. september 2009 sem kærð hafði verið. Í breyttri greiðsluáætlun voru viðmiðunartekjur hækkaðar og greiðslur til kæranda, miðað við 100% fæðingarorlof, hækkaðar úr X kr. í X kr. eða um X kr. á mánuði. Í hinni nýju greiðsluáætlun hefur verið tekið tillit til leiðréttinga á launum kæranda í janúar og febrúar 2009 svo sem krafist var í kæru.

Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl), sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a–e-liði 2. mgr. 13. gr. a. ffl. Þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna á viðmiðunartímabili skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við og skal aldrei taka mið af hærri fjárhæð en nemur þeim viðmiðunartekjum enda þótt foreldri hafi fengið mismun þessara greiðslna og viðmiðunartekna bættan samhliða greiðslunum. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a. ffl. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Með 8. gr. laga nr. 74/2008 var gerð breyting á 2. mgr. 13. gr. ffl. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi er varð að lögum nr. 74/2008 segir meðal annars um
8. gr.:

„Enn fremur er gert ráð fyrir að áfram verði miðað við heildarlaun foreldra en þar á meðal verði jafnframt taldar með greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga og bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns auk hvers konar launa og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Þetta eru greiðslur sem koma til þegar aðstæður þær sem taldar eru upp í a–d-liðum 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins eiga við um foreldra og teljast svara til þátttöku á vinnumarkaði og þar með til ávinnslu fæðingarorlofs skv. 1. mgr. 13. gr. laganna. Verður því að teljast eðlilegt að þær verði hluti af heildarlaunum foreldra sem lögð eru til grundvallar við útreikninga á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Jafnframt er lagt til að þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags eða bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns skuli miða við þær viðmiðunartekjur sem þær greiðslur miðuðust við. ...”

Barn kæranda er fætt Y. september 2009 og því er viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna hennar skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. tímabilið mars 2008 til febrúar 2009. Óumdeilt er að kærandi var á vinnumarkaði í skilningi ffl. allt viðmiðunartímabilið.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi í fæðingarorlofi með barni fæddu Y. nóvember 2007 á viðmiðunartímabilinu, þ.e. frá mars 2008 til nóvember 2008, og fékk greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á því tímabili. Samkvæmt greiðsluáætlun dagsettri 27. nóvember 2007 fékk hún 50% greiðslur í fæðingarorlofi mánuðina mars–október 2008 og 37% greiðslu í nóvember 2008. Meðalmánaðartekjur sem útreikningur greiðslna var byggður á voru X kr. og eru 80% af þeim X kr. Í samræmi við það voru mánaðargreiðslur til kæranda vegna 50% fæðingarorlofs X kr. og 37% fæðingarorlofs X kr.

Í greiðsluáætlunum dagsettum 29. september og 15. október 2009 eru greiðslur sem kærandi fékk úr Fæðingarorlofssjóði í fyrra fæðingarorlofi uppreiknaðar hlutfallslega þannig að greiðsla vegna 50% fæðingarorlofs X kr. er uppreiknuð í X kr. Krafa kæranda er hins vegar að við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skuli miða við sömu viðmiðunartekjur og í fyrra fæðingarorlofi, þ.e. meðalmánaðartekjur X kr.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. ffl. eiga foreldrar, sbr. 1. mgr. 1. gr., sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Þessi réttur er ekki framseljanlegur. Auk þessa eiga foreldrar sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér.

Í 10. gr. ffl. er kveðið á um tilhögun fæðingarorlofs. Þar segir í 2. mgr. að með samkomulagi við vinnuveitanda sé starfsmanni þó heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. þó 3. mgr. 8. gr.

Þegar eldra fæðingarorlof hefur verið tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli á viðmiðunartímabili tekjuútreiknings, sbr. 2. mgr. 10. gr. ffl., ber að mati úrskurðarnefndarinnar að skýra 3. tölul. 2. mgr. 13. gr. ffl. svo að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði séu reiknaðar sem hlutfall af viðmiðunartekjum eldra orlofsins sem þýðir að greiðslurnar eru uppreiknaðar í hlutfallinu 100/80. Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á viðmiðunartímabilinu þannig uppreiknaðar að viðbættum launum vegna starfa foreldris eru síðan grundvöllur útreiknings viðmiðunartekna.

Í umsókn til Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs dagsettri 22. september 2007 er skráð að kærandi ætli að nýta sér þriggja mánaða sjálfstæðan rétt sinn og þriggja mánaða sameiginlegan rétt foreldra. Í tilkynningu um fæðingarorlof dagsettri 11. september 2007 óskaði kærandi eftir að dreifa orlofinu yfir tólf mánaða tímabil án samhliða vinnu í skertu starfshlutfalli. Tilkynningin er undirrituð um samþykki vinnuveitanda. Að mati úrskurðarnefndarinnar skulu greiðslur í slíku tilviki miðast við hlutfall af viðmiðunartekjum í samræmi við töku fæðingarorlofs. Það að greiðslum vegna sex mánaða fæðingarorlofs er dreift á tólf mánaða tímabil í stað 100% greiðslna í sex mánuði getur ekki leitt til annarrar niðurstöðu. Samkvæmt því ber að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 15. október 2009 um útreikning meðaltals heildarlauna kæranda og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til A úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta