Styrkur veittur til að ljúka endurbótum á Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar undirrituðu í gær samning um fjárstuðning til að ljúka endurbótum á húsnæði Sköpunarmiðstöðvarinnar á Stöðvarfirði. Samningurinn kveður á um 20 milljóna kr. styrk af byggðaáætlun en auk þess mun Fjarðabyggð leggja verkefninu til 10 milljónir kr.
Um er að ræða viðaukasamning við sóknaráætlun Austurlands sem gerður er á grunni stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024, nánar tiltekið aðgerð C.1 Sértæk verkefni sóknaráætlunarsvæða. Undir þeim flokki eru verkefni styrkt sem líkleg eru til að hafa varanleg og veruleg jákvæð áhrif á þróun byggðar og búsetu.
Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði er tilraunaverkefni á sviði menningar, menntunar og atvinnusköpunar. Á undanförnum árum hefur verið ráðast í miklar endurbætur á húsnæðinu sem áður var frystihús og hefur verkefnið hlotið styrk af byggðaáætlun frá árinu 2018. Með fjárstuðningi samkvæmt nýjum samningi verður nú unnt að ljúka endurbótum og koma húsnæðinu í það ástand að það nýtist allt til listsköpunar, vinnustofa listamanna, fræðslurýma og gerð listmuna.